Gallup, þjónusta sveitarfélaga 2021
Síðast tekið fyrir á fundi fyrir 2 árum síðan.
Bæjarráð nr. 3596
17. febrúar, 2022
Annað
Fyrirspurn
Niðurstöður úr könnun um þjónustu sveitarfélaga 2021. Jóna Karen Sverrisdóttir frá Gallup mætir til fundarins og fer yfir niðurstöðurnar. Sigurjón Ólafsson sviðsstjóri og Árdís Ármannsdóttir samskiptastjóri mæta einnig til fundarins.
Svar

Bæjarráð þakkar kynninguna.

Ánægja íbúa Hafnarfjarðarbæjar jókst umtalsvert á milli áranna 2018-2019. Sú ánægjuaukning hélt sér að miklu leyti fyrir árið 2020, þrátt fyrir miklar samfélagslegar áskoranir í kjölfar heimsfaraldursins sem hefur haft áhrif á líf okkar allra undanfarin tvö ár. Það sama á því við um árið 2021 og átti við um árið 2020. Bæjarfélagið hefur lagt sig fram við að halda úti öflugri þjónustu, stutt við fyrirtæki, heimili og aðra starfsemi í bæjarfélaginu í gegnum faraldurinn. Þar hefur verið unnið að aðgerðum í samræmi við þá aðgerðaáætlun sem samþykkt var í bæjarstjórn við upphaf faraldursins. Í þessu felst því hvatning til að halda áfram að gera betur fyrir íbúa og fyrirtæki, en jafnframt er mikilvægt að horfa til þeirra þátta þar sem svigrúm er til framfara. Það er verkefni næstu mánaða þegar samfélagið er nú markvisst að losna undan þeim samfélagslegu þrengingum og takmörkum sem verið hafa við lýði frá upphafi árs 2020.

Fulltrúar Samfylkingar og Bæjarlista leggja fram svohljóðandi bókun:
Könnun Gallup um þjónustu sveitarfélaga sýnir glögglega þær breytingar sem orðið hafa í kjölfar heimsfaraldursins. Engu að síður er það staðreynd að ánægja íbúa í Hafnarfirði minnkar marktækt á mikilvægum þáttum.

Ánægja með þjónustu grunn- og leikskóla lækkar almennt á landsvísu og einnig í Hafnarfirði með sambærilegum hætti. Þó minnkar ánægjan með þjónustu í leikskólum meira hér en á landsvísu. Breyting sú sem meirihlutinn keyrði í gegn þrátt fyrir víðtæka andstöðu, sumaropnun, hefur því að því er virðist ekki mælst vel fyrir hjá notendum. Fulltrúar Bæjarlista og Samfylkingar lögðust eindregið gegn þessari breytingu og árétta að rétt hefði verið að hlusta á málefnaleg andmæli, eins og nú er verið að gera ári síðar með því að falla aftur frá þessari afgerandi breytingu.
Þá hlýtur það að vera óásættanlegt fyrir sveitarfélag eins og Hafnarfjörð að vera ekki ofar í heildarsamanburði sveitarfélaga á mikilvægum þjónustuþáttum eins og gæði umhverfis, sorphirðu, þjónustu við barnafjölskyldur og eldri borgara þar sem við erum fyrir neðan miðju og þjónustu leik- og grunnskóla og þjónustu við fatlað fólk þar sem við erum nálægt botni.

Adda María Jóhannsdóttir
Guðlaug Kristjánsdóttir