Ársreikningur Hafnarfjarðarkaupstaðar 2019 og fyrirtækja hans, uppgjör, síðari umræða.
Síðast tekið fyrir á fundi fyrir 3 árum síðan.
Bæjarstjórn nr. 1848
27. maí, 2020
Annað
‹ 21
22
Fyrirspurn
2.liður úr fundargerð bæjarráðs frá 7.maí sl. Lagður fram ársreikningur Hafnarfjarðarkaupstaðar 2019 og fyrirtækja hans.
Rósa Steingrímsdóttir sviðsstjóri fjármálasviðs mætir til fundarins.
Bæjarráð vísar ársreikningi bæjarsjóðs Hafnarfjarðarkaupstaðar og fyrirtækja hans 2019 til fyrri umræðu í bæjarstjórn.
Til máls tekur Rósa Guðbjartsdóttir.
Forseti ber upp tillögu um að vísa ársreikningi bæjarsjóðs Hafnarfjarðar til síðari umræðu á næsta fundi bæjarstjórnar sem fram fer þann 27. maí nk. kl. 14 og er tillagan samþykkt samhljóða.
Svar

Til máls tekur Rósa Guðbjartsdóttir.

Einnig tekur Adda María Jóhannsdóttir til máls.

Þá næst Sigurður Þ. Ragnarsson og kemur Rósa Guðbjartsdóttir til andsvars. Sigurður svarar andsvari. Einnig kemur Adda María að andsvari.

Einnig tekur Guðlaug Kristjánsdóttir til máls.

Þá tekur Ágúst Bjarni Garðarsson til máls.

Bæjarstjórn samþykkir samhljóða ársreikning bæjarsjóðs Hafnarfjarðar og fyrirtækja hans fyrir árið 2019.

Sigurður Þ. Ragnarsson kemur að svohljóðandi bókun:

Bæjarfulltrúi Miðflokksins leggur fram eftirfarandi bókun:
Rekstur Hafnarfjarðarbæjar stefnir í mikið óefni verði ekki brugðist við sí minnkandi handbæru fé. Rekstrarniðurstaða fyrir afskriftir og fjármagnskostnað (vextir og verðbætur), EBITA, er 3,8 milljarðar króna. Afskriftir eru rúmur 1 milljarður og vaxtagreiðslur af lánum eru 1,55 milljarðar króna. Eftir stendur rekstrarniðurstaðan, 1,235 miljarður króna. Hér skal því haldið til haga að þetta er sú upphæð sem verður að duga til að borga af lánum sveitarfélagsins. Afborganir af langtímaskuldum voru áætlaðar skv. fjárhagsáætlun 2019, 1,46 milljarðar. M.ö.o. þá hrekkur rekstrarafgangur ársins 2019 ekki fyrir afborgunum af langtímaskuldum eins og þær voru áætlaðar í fjárhagáætlun 2019.
Til að mæta þessu reyndist nauðsynlegt að grípa til lántöku eins og sést í sjóðstreymisyfirliti - fjármögnunarhreyfingar: Tekin ný framkvæmdalán uppá 4,3 milljarða en fjárhagsáætlun gerði ráð fyrir 1,7 milljarði. Hluti þessarar upphæðar var notuð til að greiða afborganir langtímalána uppá 3,7 milljarða á meðan fjárhagsáætlun gerði ráð fyrir afborgunum uppá 1,1 milljarð. Það er að ný lán umfram fjárhagsáætlun 2019 voru 2,5 milljarðar, og afborganir umfram fjárhagsáætlun 2019 nam 2,2 milljörðum. Mismunur þarna á er 300 milljónir.
Með þessu hélt bæjarsjóður áfram að vera greiðslufær en afleiðing þessarar miklu greiðslubyrði af lánum leiðir til þess að handbært fé í bæjarsjóði er skuggalega lítið, bæði upphæðarlega séð sem og miðað við stærð bæjarfélagsins.
Í árslok 2017 var handbært fé í árslok 1,5 milljarður króna. Í árslok 2018 hafði þessi tala nær þurrkast út, og var komin niður í aðeins 151 milljón króna. Og enn sígur á ógjæfuhliðina, því handbært fé í árslok 2019 var komið níður í 117 milljónir króna
En til hvaða aðgerða þarf að grípa. Handhægasta leiðin væri að lengja í lánum svo sem kostur er og lækka þannig greiðslubyrði. Þá er það lífsnauðsynlegt fyrir sveitarfélagið að það komist út úr þeirri fólksfjölgunarkreppu sem hér ríkir og íbúum fjölgi kröftuglega líkt og tíðkast alls staðar í kringum okkur. Íbúafjöldinn hangir í 30.000 manns og hvergi á höfuðborgarsvæðinu er fólkfjölgun minni. Frá 1. desember 2018 til 1. desember 2019 fjölgaði Hafnfirðingum um 0,6% eða um 180 manns og voru þá 29.971 talsins. Frá því að þessi meirihluti tók við hefur stöðugt dregið úr fólksfjölguninni, var 2,4% 2017, 1,5% 2018 og 0,6% 2019. Þetta skýrir hvers vegna sífellt erfiðara er að rekasveitarfélagið svo endar nái saman.
Sigurður Þ. Ragnarsson

Einnig kemur Adda María Jóhannsdóttir að svohljóðandi bókun:

Ársreikningur 2019 ? bókun xS

Ársreikningur fyrir árið 2019 sýnir að þrátt fyrir þokkalega afkomu halda heildarskuldir og skuldbindingar Hafnarfjarðarbæjar áfram að aukast. Skuldaviðmið er óbreytt en skuldahlutfall lækkar lítillega eftir að hafa hækkað árið 2018.

Ein meginástæða þess að rekstrarniðurstaða er þetta góð er sú að skatttekjur hafa einnig aukist og eru um 794 þúsundum á hvern íbúa. Skatttekjur á hvern íbúa hafa því aukist um rúm 40 þúsund frá fyrra ári. Þá hafa framlög úr jöfnunarsjóði einnig aukist

Önnur meginástæða jákvæðrar rekstrarniðurstöðu er sú að B-hluta fyrirtæki leggja mikinn meirihluta inn í reksturinn á meðan staða A-hluta bæjarsjóðs versnar milli ára. Veltufé frá rekstri lækkar milli ára sem og handbært fé í árslok.

Fjárfestingar og framkvæmdir á árinu 2019 voru töluverðar en byggja að miklu leyti á lántöku þar sem tekjur af lóðasölu hafa ekki enn skilað sér í samræmi við áætlanir og lækkuðu raunar á milli ára. Lítið hefur einnig gerst í fyrirhuguðum þéttingarverkefnum sem sum hver hafa tafist m.a. vegna kæruferla.

Það hefur verið ljóst um nokkra hríð að blikur væru á lofti í efnahagsmálum og að hagsveifla síðustu ára væri að dala. Í því ljósi voru fyrirhugaðar framkvæmdir meirihluta Framsóknar og Sjálfstæðisflokks inn á kjörtímabilið ákveðið áhyggjuefni. Það sýndi sig reyndar í fjárhagsáætlun þessa árs þar sem draga þurfti úr framkvæmdum og áætlaður rekstrarafgangur lítill.

Nú er einnig ljóst að ofan á þá kólnun sem farið var að gæta í efnahagslífinu þurfa sveitarfélögin í landinu að takast á við niðursveiflu vegna heimsfaraldurs. Staða Hafnarfjarðarbæjar hefði því gjarnan mátt vera burðugri áður en kom til þess ástands sem við nú stöndum frammi fyrir.

Það er því mikilvægt að fara öllu með gát og taka vel ígrundaðar ákvarðanir varðandi fjárhag sveitarfélagsins. Í slíkum aðstæðum er samtal og samvinna sérstaklega mikilvæg enda ber sveitarstjórn öll ábyrgð á fjárhag sveitarfélagsins lögum samkvæmt. Fulltrúar minnihluta í bæjarstjórn eiga fullt erindi að því borði á öllum stigum mála.

Adda María Jóhannsdóttir
Stefán Már Gunnlaugsson

Einnig kemur Guðlaug Kristjánsdóttir að svohljóðandi bókun:

Bókun bæjarfulltrúa Bæjarlistans:
Við fyrstu skoðun lítur ársreikningur ársins 2019 þokkalega út, enda ágætt samræmi milli niðurstöðu og áætlana (með viðaukum). Ef betur er að gáð sést þó að skuldir aukast, veltufé frá rekstri lækkar, veltufjárhlutfall sömuleiðis. Óháð Covid-19 mætti því með réttu álykta að frekari lántaka væri nauðsynleg í nánustu framtíð. Kröpp staða um áramót sem kallaði á aukinn yfirdrátt og aukin lántaka úr Hafnarsjóði bendir í sömu átt.
Staðan er því þröng þegar við höldum inn í árið 2020, vitandi að forsendur gildandi fjárhagsáætlunar eru þegar brostnar og miklar áskoranir framundan við að halda sjó í þjónustu og rekstri bæjarfélagsins í breyttum aðstæðum.
Lífeyrisskuldbindingar sveitarfélagsins hefðu átt að hækka talsvert meira árið 2019 en raunin varð. Ef kjarasamningar hefðu gengið í gegn á réttum tíma liti staðan verulega verr út en hún gerir núna, en þar er í raun um að ræða frestun á hækkun skuldbindinga yfir á næsta fjárhagsár sem nemur um 400 milljónum. Hér er því um að ræða ákveðinn gálgafrest á umtalsverðri hækkun skuldbindinga, sem batnar síst við að færast inn á hið mjög svo óvissa fjárhagsár 2020.
Undirrituð hefur ítrekað bent á, við umræður um fjárhagsáætlanir og ársreikninga undanfarin ár að bærinn ætti að hefja inngreiðslur á lífeyrisskuldbindingu sína við fyrsta tækifæri. Tækifærið til þess virðist að sinni ætla að fljóta hjá ónotað, í ljósi nýlegra efnahagsvendinga í heiminum og er það miður.
Sveitarfélag sem skilar lækkandi veltufjárhlutfalli ár eftir ár og stendur nú í 0,37 fyrir A-hluta og 0,56 fyrir A- og B-hluta, sem lýsir þeirri stöðu að lántöku þurfi til að standa skil á afborgunum, er ekki á sjálfbærri leið. Það stefnir þvert á móti í aukna skuldasöfnun og ósjálfbæran rekstur.
Það er því miður magurt veganesti inn í afleiðingar heimsfaraldurs Covid-19.
Guðlaug Svala Kristjánsdóttir

Fundarhlé kl. 16:52.

Fundi framhaldið kl. 17:01.

Rósa Guðbjartsdóttir kemur að svohljóðandi bókun fyrir hönd Sjálfstæðisflokks og Framsóknar:

Ársreikningur 2019 ber þess merki að stigin hafa verið varfærin og ábyrg skref í rekstri sveitarfélagsins og eru í takti við áætlanir og samæmast markmiðum um ábyrga fjármálastjórn og ígrundaðar ákvarðanir. Afgangur af rekstri A og B hluta bæjarsjóðs nam 1.236 milljónum króna en áætlun með viðaukum gerði ráð fyrir 642 milljóna króna afgangi. A hluti bæjarsjóðs skilaði 426 milljóna króna afgangi en áætlun gerði ráð fyrir halla upp á 45 milljónir króna. Mismun á áætlun og niðurstöðu má meðal annars rekja til þess að gjaldfærsla lífeyrissjóðsskuldbindinga var 392 milljónum króna lægri en gert hafði verið ráð fyrir, auk þess sem fjármagnsliðir voru 245 milljónum króna lægri vegna lægri verðbótaþáttar. Skatttekjur voru hins vegar 94 milljónum króna lægri en áætlun gerði ráð fyrir og framlög Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga voru 46 milljónum undir áætlun. Veltufé frá rekstri nam 3.396 milljónum króna eða 11,9% af heildartekjum. Skuldaviðmið helst óbreytt milli ára og er nú komið í 112%.

Þá skal það leiðrétt sem kemur fram í bókun fulltrúa Miðflokksins varðandi rekstrarniðurstöðu. Hið rétta er að við rekstrarniðurstöðu bætast liðir sem ekki hafa áhrif á fjárstreymi ásamt breytingum á rekstrartengdum eignum og skuldum. Horfa þarf því á handbært fé frá rekstri og er það upphæðin sem verður að duga til að greiða af lánum og í framkvæmdir, ekki einungis rekstrarniðurstaðan sjálf. Sú upphæð nam rúmum þremur milljörðum á árinu 2019.