Hraun vestur, gjótur, deiliskipulag
Síðast Frestað á fundi fyrir 1 ári síðan.
Skipulags- og byggingarráð nr. 710
11. ágúst, 2020
Annað
Fyrirspurn
Tekin fyrir á ný tillaga að uppbyggingu á reit sem liggur að Reykjavíkurvegi, Hjallahrauni og Helluhrauni. Tillaga Tendru arkitekta dags. 28. maí 2020 að deilskipulagi reits sem nær til lóða við Reykjavíkurveg 60-62 og Hjallahrauns 2-4 lögð fram auk greinargerðar deiliskipulagsins dags. 28. maí 2020 og umsögnum frá Veðurvaktinni og Verkfræðistofu VSÓ. Tillaga að deiliskipulagi var samþykkt á fundi skipulags- og byggingarráðs 2. júní s.l. og að málsmeðferð yrði í samræmi við 1.mgr. 43.gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Erindinu var jafnframt vísað til staðfestingar í bæjarstjórn. Bæjarstjórn staðfesti erindið þann 10. júní. Deiliskipulagið var auglýst frá 25/6 - 6/8. Engar athugasemdir bárust.
Svar

Skipulags- og byggingaráð samþykkir fyrirliggjandi deiliskipulabreytingu og vísar henni til bæjarstjórnar til staðfestingar.

Fulltrúi Bæjarlistans bókar eftirfarandi:
Þrátt fyrir ítrekaðar viðvaranir minnihlutans ætlar meirihluti Sjálfstæðismanna og Framsóknar að þröngva í gegn nýju deiliskipulagi fyrir reitinn Hraun vestur. Samkvæmt þessu nýja deiliskipulagi er byggingamagnið á reitnum stórlega aukið og gert ráð fyrir 490 íbúðum eða um 1.400 íbúum á þessum litla reit. Um þetta er ekki samstaða meðal bæjarbúa. Engar haldbærar skýringar hafa fengist hjá meirihlutanum varðandi ástæðu fyrir þessari breytingu. Enginn skilur hvað meirihlutanum gengur til enda hefur hann ekki haft fyrir því að efna til kynningarfundar um málið. Augljóst er að meirihlutinn lætur ekkert stoppa sig í þessum ásetningi, hvorki Skipulagsstofnun eða skynsamleg rök frá bæjarbúum. Athugasemdum og ábendingum hefur meirihlutinn svarað á þann hátt að þar hljóti að liggja að baki annarleg sjónarmið og örvænting. Þetta er nú öll fagmennskan.

Meirihluti Sjálfstæðisflokks og Framsóknar bóka eftirfarandi:

Hér er um að ræða nýja deiliskipulagstillögu og var íbúafundur haldinn um málið þann 9. júlí kl. 17. Fundinum var einnig streymt á vef bæjarfélagsins auk þess sem engar athugasemdir bárust við fyrirliggjandi tillögu. Það sem fram kemur því í bókun fulltrúa Bæjarlistans er því efnislega rangt en slíkt kemur því miður ekki á óvart og er í raun framhald af því sem verið hefur.

Fyrirliggjandi deiliskipulagstillaga opnar á fjölbreytta byggð íbúðar-, verslunar- og þjónustuhúsnæðis. Tillagan fellur vel að markmiðum svæðisskipulags höfuðborgarsvæðisins þar sem meginstefnan er uppbygging og þétting byggðar við miðkjarna og önnur samgöngumiðuð þróunarsvæði og að hlutfall íbúðabyggðar á þeim svæðum vaxi úr 30% í 66%. Landsvæðið liggur að fyrirhugðuðum samgönguás Borgarlínu sem styrkir markmið svæðisskipulagsins og þéttingu byggðar. Fyrirliggjandi deiliskipulagstillaga gerir ráð fyrir að með bættum almenningssamgöngum muni þeim bílastæðum, sem tillagan gerir ráð fyrir ofanjarðar fækka til að auka umhverfisgæði á útivistarsvæði.

Þá er deiliskipulagstillagan í samræmi við þá framtíðarsýn og hugmyndir sem settar eru fram í rammaskipulagsdrögum fyrir Hraun vestur. Í greinargerð aðalskipulagsins er gerð góð grein fyrir leik- og grunnskólum ásamt opnum grænum svæðum. Gert er ráð fyrir uppbyggingu á öllu svæðinu, Hraun vestur, geti tekið allt að 20 árum og gera má ráð fyrir ýmsum breytingum á því tímabili er varðar samgöngur og samfélag sem getur haft áhrif á skipulag framtíðar.