Fjárhagsáætlun Hafnarfjarðarkaupstaðar og fyrirtækja hans 2020 og 2021-2023
Síðast tekið fyrir á fundi fyrir 3 árum síðan.
Bæjarráð nr. 3534
5. desember, 2019
Annað
Fyrirspurn
Guðmundur Sverrisson rekstrarstjóri mætir til fundarins.
3. liður úr fundargerð bæjarráðs 21. nóvember sl. „Tillaga 1 - Nýting skattstofna Framlögð fjárhagsáætlun sýnir að staða bæjarsjóðs er ekki sterk. Við slíkar aðstæður er eðlilegt að ákvörðun sem tekin var árið 2016 um lækkun á útsvarshlutfalli sé endurskoðuð. Útsvarið er veigamesti tekjustofn sveitarfélaga og mikilvægt að það sé nýtt til að sinna þjónustu við íbúana. Því leggja fulltrúar Samfylkingarinnar til að Hafnarfjarðarbær nýti leyfilegt útsvarshlutfall til að styrkja stöðu bæjarsjóðs og bæta þjónustu. Tillögunni verði vísað til bæjarráðs. Fulltrúar Samfylkingar og Bæjarlistans samþykkja fyrirliggjandi tillögu 1 en fulltrúar meirihluta Sjálfstæðisflokks og Framsóknar og óháðra greiða atkvæði á móti tillögunni. Tillagan er því felld. Fulltrúi Samfylkingarinnar lýsir vonbrigðum með að ekki sé vilji til að endurskoða útsvarsprósentu til hækkunar á sama tíma og lögð er til hækkun á gjaldskrám fyrir eldri borgara og öryrkja, og leigu í félagslegu húsnæði, langt umfram það sem skýr tilmæli eru um frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga í tengslum við lífskjarasamninga. Útsvarið er veigamesti tekjustofn sveitarfélaga sem eðlilegt er að nýta til að sinna þjónustu við íbúana, ekki síst þá hópa sem umræddar hækkanir varða. Adda María Jóhannsdóttir Meirihluti Sjálftæðisflokks og Framsóknar bóka eftirfarandi: Framlögð fjárhagsáætlun sýnir að rekstur Hafnarfjarðarbæjar gengur vel og að fjárhagur bæjarfélagsins er traustur. Auk þess heldur skuldaviðmiðið áfram að lækka. Meirihlutinn hafnar þeirri tillögu fulltrúa Samfylkingarinnar um að hækka útsvarið upp í leyfilegt hámark. Slíkt hefði í för með sér tekjuskerðingu fyrir bæjarbúa eða með öðrum orðum; útborguð laun íbúa bæjarfélagsins lækka. Slíkt er ekki samræmi við stefnu núverandi meirihluta sem hefur það markmið að létta undir með fjölskyldufólki og jafnframt að tryggja að allar gjaldskrár sem snerta viðkvæmustu hópa samfélagsins séu ávallt þær lægstu á höfuðborgarsvæðinu. Sigurður Þ. Ragnarsson leggur fram svohljóðandi bókun: Fulltrúi Miðflokksins telur eðlilegt að sveitarfélagið nýti útsvarsskattstofn sinn að fullu þ.e. 14,52% í stað 14,48% eins og nú er. Bæjarfélaginu munar talsvert um þá fjármuni sem fást með þessu meðan kostnaður launþegans er algjörlega óverulegur. Því telur fulltrúi Miðflokksins eðlilegt að nýta útsvarið að fullu. Guðlaug Kristjánsdóttir leggur fram svohljóðandi bókun: Fulltrúi Bæjarlistans ítrekar afstöðu sína frá umræðu um fjárhagsáætlun fyrir árið 2019, þar sem gagnrýnd var sú ákvörðun meirihlutans að auka lántökur og halda til streitu lækkun útsvars og fasteignaskatta og þar með varpa kostnaði af rekstri bæjarins inn í framtíðina. Á síðasta kjörtímabili var áætlað sérstaklega fyrir umframgreiðslum inn á lán og hins vegar áskilið að mögulegar ófyrirséðar umframtekjur færu í sama farveg. Fulltrúi Bæjarlistans saknar slíkrar ráðdeildar í meðferð meirihluta Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks og óháðra. Það er ekki ábyrgt að afsala sér tekjum í nútíma en varpa þess í stað álögum inn í framtíðina á formi skulda. Ábyrgara væri að fullnýta skattstofna í rauntíma í ljósi núverandi rekstraraðstæðna bæjarsjóðs. Tillaga 2 - Gjaldskrár Fulltrúar Samfylkingarinnar leggja til að fallið verði frá gjaldskrárhækkunum umfram það sem mælst er til í yfirlýsingu Sambands íslenskra sveitarfélaga í tengslum við lífskjarasamninga. Samkvæmt tillögum sem fram koma í fjárhagsáætlun mun heimaþjónusta aldraðra og öryrkja hækka um 24% og ferðaþjónusta aldraðra um rúm 100%. Fulltrúar Samfylkingarinnar leggja til að gjaldskrárhækkanir á næsta ári styðji við lífskjarasamninga og verði ekki umfram 2,5%. Tillagan verði tekin til umfjöllunar í fjölskylduráði og bæjarráði. Meirihluti Sjálfstæðisflokks og Framsóknar bóka eftirfarandi við tillögu 2: Mikilvægt er að halda því til haga að þrátt fyrir þær leiðréttingar sem kynntar hafa verið verður gjaldskrá Hafnarfjarðarbæjar í þessum tveimur liðum, sem tillaga fulltrúa Samfylkingarinnar fjallar um, áfram sú lægsta þegar horft er til annarra sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu og Akureyrar. Þrátt fyrir að það sé skoðun meirihlutans að mikilvægt sé að ráðast í þær leiðréttingar sem kynntar hafa verið til að viðhalda góðu þjónustustigi til framtíðar, notendum öllum til hagsbóta, teljum við rétt vísa tillögunni til fjölskylduráðs og óska eftir ítarlegri upplýsingum, hvað varðar fjölda notenda, fjölda ferða og fjölda þeirra sem eru undir tekjuviðmiðum. Afgreiðslu tillögunnar er því frestað til næsta fundar. Tillaga 3 Niðurgreiðsla á strætókortum Fulltrúar Samfylkingarinnar ítreka og endurflytja tillögu um niðurgreiðslu á strætókortum fyrir börn að 18 ára aldri. Mikilvægt er að jafna og auðvelda aðgengi ungmenna að tómstundum. Með því að niðurgreiða strætókort hvetjum við einnig til aukinnar notkunnar á almenningssamgöngum og styðjum við umhverfissjónarmið. Fyrir liggur kostnaðarmat á tillögunni og því leggjum við til að skoðaðir verði möguleikar á nýtingu og útfærslu hennar. Tillagan verði tekin til umfjöllunar í umhverfis- og framkvæmdaráði og bæjarráði Afgreiðslu á tillögu 3 er frestað milli funda. Tillaga Viðreisnar vegna vinnu við fjárhagsáætlun Hafnarfjarðar: Ráðning verkefnastjóra til að flýta fyrir innleiðingu Barnasáttmála Sameinuðuþjóðanna og Heimsmarkmiðanna (bæjarráð) Bæjarráð felur bæjarstjóra að taka saman upplýsingar vegna fyrirliggjandi tillögu um ráðningu verkefnastjóra til að flýta fyrir innleiðingu Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og Heimsmarkmiðanna.“
Fyrirspun frá fulltrúa Samfylkingar Öddu Maríu Jóhannsdóttur vegna fasteignagjalda: 1) Hvaða forsendur og útreikningar liggja að baki þeirri fullyrðingu að "hækkanir séu almennt á bilinu 0,1% - 3,5%" 2) Hver er meðalbreytingin í einbýli og fjölbýli - skipt eftir matshverfum. Einnig er óskað eftir meðaltali og staðalfráviki fyrir hvert hverfi, flokkað eftir fjölbýli og sérbýli.“ 3) Hversu hátt hlutfall íbúðareigna hækka um meira en 2,5% - skipt eftir fjölbýlum og sérbýlum.
Lagðar fram tillögur að óverulegum breytingum á fjárhagsáætlun 2020
1.liður úr fundargerð fjölskylduráðs 4. desember sl. Tillögur Samfylkingarinnar við fyrri umræðu um fjárhagsáætlun 2020: Tillaga 2 - Gjaldskrár Fulltrúar Samfylkingarinnar leggja til að fallið verði frá gjaldskrárhækkunum umfram það sem mælst er til í yfirlýsingu Sambands íslenskra sveitarfélaga í tengslum við lífskjarasamninga. Samkvæmt tillögum sem fram koma í fjárhagsáætlun mun heimaþjónusta aldraðra og öryrkja hækka um 24% og ferðaþjónusta aldraðra um rúm 100%. Fulltrúar Samfylkingarinnar leggja til að gjaldskrárhækkanir á næsta ári styðji við lífskjarasamninga og verði ekki umfram 2,5%. Tillagan verði tekin til umfjöllunar í fjölskylduráði og bæjarráði. Fulltrúi Samfylkingar segja já, fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Framsóknar og óháðra segja nei, fulltrúi Viðreisnar situr hjá. Tillagan er felld með þremur atkvæðum gegn einu. Fulltrúar meirihluta, Sjálfstæðisflokks og Framsóknar og óháðra, leggja fram eftirfarandi bókun: Við hér í Hafnarfirði erum með lægstu gjaldskrána þegar borin eru saman sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu. Gjaldskráin er í ellefu liðum. Leiðrétting nær til þriggja liða gjaldskrár: Heimaþjónusta, ellilífeyrisþegar og öryrkjar - hver klst. Í dag er hver klst. Á 610 krónur. Frá 1. janúar 2020 mun hver klst. Kosta 757 krónur. Meðaltal af gjaldskrá Kópavogs, Reykjavíkur og Hafnarfjarðar er 841 króna. Til að tryggja að Hafnarfjörður verður áfram með lægstu gjaldskrána þá er tekið 90% af meðaltalinu og fæst þá 757 krónur hver klst. Heimaþjónusta, aðrir - hver klst. Í dag er hver klst. 800 krónur. Frá 1. janúar 2020 mun hver klst. Kostar 930 krónur. Meðaltal af gjaldskrá Kópavogs, Reykjavíkur og Hafnarfjarðar er 1033 krónur. Til að tryggja að Hafnarfjörður verður áfram með lægstu gjaldskrána er tekið 90% af meðaltalinu og og fæst þá 930 krónur hver klst. Ferðaþjónusta aldraðra - hver ferð. Í dag kostar hver ferð 240 krónur. Frá 1. janúar 2020 mun hver ferð kosta 470 krónur. Viðmiðið er fullt strætógjald. Til samanburðar má geta það að í Kópavogi kostar hver ferð 500 krónur fyrstu 16 ferðirnar og 1000 krónur eftir það. Í Reykjavík kostar hver ferð 1185 krónur. Ef tekið er dæmi um einstakling sem nýtir sér fulla heimaþjónustu, 6 tímar á mánuði, og fulla akstursþjónstu, 8 ferðir á mánuði, þá eykst greiðsluþátttaka hans um 2802 kr. á mánuði. Meirihlutinn leggur á það ríka áherslu að þjónustigið sé hátt á fjölskyldu- og barnamálasviði og kostnaður fyrir notendur sé sá lægsti þegar sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu eru borin saman. Það heldur sér þrátt fyrir leiðréttingu á gjaldskrá. Vísað í bæjarráð. Fulltrúi Samfylkingarinnar óskar bókað: Samfylkingin harmar að fjölskylduráð skuli ekki taka mið af tilmælum Sambands íslenskra sveitarfélaga um að gjaldskrár hækki ekki umfram 2,5% á næsta ári til að leggja sitt af mörkum til lífskjarasamninganna. Samfylkingin styður því ekki tillögur meirihlutans um gjaldskrárhækkanir á heimaþjónustu fyrir aldraða og öryrkja upp á 24,5% og akstursþjónustu upp á rúmlega 100%. Fulltrúi Miðflokksins óskar bókað: Nú liggur fyrir að meirihluti Sjálfstæðisflokks og Framsóknar og óháðra hefur samþykkt að seilast í vasa þeirra sem minnst hafa. Sem dæmi hækkar dæmigerður einstaklingur sem þarf á þrifum að halda frá félagsþjónustu (aldraður eða öryrki) um tæpar 1000 krónur á mánuði. Það er langt umfram það sem gert hefur verið ráð fyrir í lífskjarasamningunum. Þessi viðkvæmi þjóðfélagshópur er ekki aflögufær með meiri hækkanir en lífskjarasamningarnir kveða á um.
Svar

Fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Framsóknar bóka eftirfarandi:
Hafnarfjörður er með lægstu gjaldskrána þegar borin eru saman sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu. Gjaldskráin er í ellefu liðum. Leiðrétting nær til þriggja liða gjaldskrár. Meirihlutinn leggur á það ríka áherslu að þjónustustigið sé hátt á fjölskyldu- og barnamálasviði og kostnaður fyrir notendur sé sá lægsti þegar sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu eru borin saman. Það heldur sér þrátt fyrir leiðréttingar á gjaldskrá sviðsins. Að öðru leyti tekur meirihluti bæjarráðs undir afgreiðslu fjölskylduráðs frá því 4. desember þar sem finna má frekari upplýsingar, dæmi og tölur. Tillögunni hafnað.

Jón Ingi Hákonarson fulltrúi Viðreisnar leggur fram svohljóðandi bókun:
Fulltrúi Viðreisnar harmar þá ákvörðun meirihlutans að vilja ekki leiðrétta gjaldskrá vegna leigubílaaksturs eldri borgara í minni skrefum.

Adda María Jóhannsdóttir fulltrúi Samfylkingarinnar leggur fram svohljóðandi bókun:
Fulltrúi Samfylkingarinnar ítrekar bókun sem lögð var fram af fulltrúa Samfylkingarinnar í fjölskylduráði þann 4. desember sl. og harmar að fjölskylduráð skuli ekki taka mið af tilmælum Sambands íslenskra sveitarfélaga um að gjaldskrár hækki ekki umfram 2,5% á næsta ári til að leggja sitt af mörkum til lífskjarasamninganna. Samfylkingin styður því ekki tillögur meirihlutans um gjaldskrárhækkanir á heimaþjónustu fyrir aldraða og öryrkja upp á 24,5% og akstursþjónustu upp á rúmlega 100%.

Fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Framsókn bóka eftirfarandi:
Sama tillaga var til umræðu og afgreiðslu á fundi umhverfis- og framkvæmdaráðs í gær, þann 4. desember. Meirihluti bæjarráðs tekur undir bókun meirihlutans í ráðinu. Frístundabíllinn hefur nú það hlutverk að jafna aðgengi barna að íþróttum og tómstundum í bæjarfélaginu og er góð reynsla og ánægja af því verkefni, bæði meðal foreldra og barna. Hjá Strætó er almennt fargjald fyrir börn og ungmenni að 17 ára aldri 235 kr. Með afsláttarkorti og hóflegri notkun, eða 30 ferðum á mánuði, er gjaldið undir 100 krónum á ferð og því ekki um íþyngjandi gjald að ræða. Líkt og hér kemur fram að ofan er nú þegar um að ræða verulega niðurgreiðslu á fargjöldum fyrir þennan hóp. Tillögunni er því hafnað.

Fulltrúi Samfylkingarinnar tekur undir og ítrekar bókun sem lögð var fram af fulltrúa Samfylkingarinnar í umhverfis- og framkvæmdaráði og lýsir vonbrigðum með að ekki sé vilji til að skoða möguleika á útfærslu að niðurgreiðslu á strætókortum til barna og ungmenna. Sú aðgerð væri mikilvægt skref í að auka aðgengi að tómstundum ásamt því að stuðla að aukinni notkun á almenningssamgöngum og styðja þar með við umhverfissjónarmið. Það er miður að fulltrúar meirihluta Sjálfstæðisflokks og Framsóknar og óháðra hafni jafnvel því að skoða mögulega útfærslu á að taka slíkt verkefni upp í áföngum. Bent er á til samanburðar að í greinargerð með fjárhagsáætlun fyrir árið 2020 kemur fram að heildarkostnaður við frístundaakstur, sem ætlaður er nemendum í 1.-4. bekk, verði 35 m.kr. á meðan full niðurgreiðsla á strætókortum fyrir öll börn frá 6-17 ára (eða alls 12 árganga) er áætluð tæpar 80 m.kr.

Meirihluti Sjálfstæðisflokks og Framsóknar bóka eftirfarandi:
Á undanförnum vikum hefur gerð þjónustustefnu og nýrrar menningarstefnu verið undirbúin á þjónustu- og þróunarsviði og er þar verið að skoða hvernig heimsmarkmiðin verði tengd inn í þá stefnumótun. Gert er ráð fyrir utanaðkomandi ráðgjöf við innleiðingu heimsmarkmiðanna inn í stefnur bæjarins. Gerð verður nánari grein fyrir stöðu þessara verkefna á fundi bæjarráðs innan fárra vikna. Sams konar vinna hefur verið í gangi innan fjölskyldu- og barnamálasviðs varðandi innleiðingu Barnasáttmálans þar sem unnið er að því að skilgreina starfshlutfall til verkefnisins innan fjárheimildar sviðsins. Tillögunni um ráðningu sérstaks verkefnastjóra vegna þessa er því hafnað þar sem undirbúningur við kortlagningu og frekari innleiðingu heimsmarkmiðanna er á fullri ferð nú þegar.

Fulltrúi Viðreisnar fagnar því að vinna við innleiðingu Heimsmarkmiðanna og Barnasáttmálans sé í fullum gangi en hvetur til þess að þessi mál verði sett í enn meiri forgang á nýju ári.

Fulltrúi Samfylkingarinnar þakkar framlögð svör um fasteignagjöld en lýsir vonbrigðum með að ekki sé hægt að fá betri upplýsingar um áhrif breytts fasteignamats áður en fjárhagsáætlun er samþykkt.

Bæjarráð vísar tillögu að breytingum á fjárhagsáætlun til bæjarstjórnar.