Fjárhagsáætlun Hafnarfjarðarkaupstaðar og fyrirtækja hans 2020 og 2021-2023
Síðast tekið fyrir á fundi fyrir 3 árum síðan.
Bæjarstjórn nr. 1836
13. nóvember, 2019
Annað
‹ 4
5
Fyrirspurn
1.liður úr fundargerð bæjarráðs frá 31.október sl. Tillaga að fjárhagsáætlun Hafnarfjarðarkaupstaðar og fyrirækja hans 2020 til 2023 lögð fram. Einnig er lögð fram gjaldskrá 2020.
Rósa Steingrímsdóttir sviðsstjóri fjármálasviðs mætir til fundarins og einnig Sigurjón Ólafsson sviðsstjóri þjónustu- og þróunarsviðs.
Bæjarráð vísar fyrirliggjandi tillögu að fjárhagsáætlun Hafnarfjarðarkaupstaðar og fyrirtækja hans 2020 og 2021-2023 til fyrri umræðu í bæjarstjórn.
Svar

Til máls tekur Rósa Guðbjartsdóttir.

Einnig tekur til máls Adda María Jóhannsdóttir og leggur fram svohljóðandi tillögur að breytingum á fjárhagsáætlun:

Tillögur Samfylkingarinnar við fyrri umræðu um fjárhagsáætlun 2020

Tillaga 1 - Nýting skattstofna
Framlögð fjárhagsáætlun sýnir að staða bæjarsjóðs er ekki sterk. Við slíkar aðstæður er eðlilegt að ákvörðun sem tekin var árið 2016 um lækkun á útsvarshlutfalli sé endurskoðuð. Útsvarið er veigamesti tekjustofn sveitarfélaga og mikilvægt að það sé nýtt til að sinna þjónustu við íbúana. Því leggja fulltrúar Samfylkingarinnar til að Hafnarfjarðarbær nýti leyfilegt útsvarshlutfall til að styrkja stöðu bæjarsjóðs og bæta þjónustu.
Tillögunni veðri vísað til bæjarráðs.

Tillaga 2 - Gjaldskrár
Fulltrúar Samfylkingarinnar leggja til að fallið verði frá gjaldskrárhækkunum umfram það sem mælst er til í yfirlýsingu Sambands íslenskra sveitarfélaga í tengslum við lífskjarasamninga. Samkvæmt tillögum sem fram koma í fjárhagsáætlun mun heimaþjónusta aldraðra og öryrkja hækka um 24% og ferðaþjónusta aldraðra um rúm 100%. Fulltrúar Samfylkingarinnar leggja til að gjaldskrárhækkanir á næsta ári styðji við lífskjarasamninga og verði ekki umfram 2,5%.
Tillagan verði tekin til umfjöllunar í fjölskylduráði og bæjarráði.

Tillaga 3 ? Niðurgreiðsla á strætókortum
Fulltrúar Samfylkingarinnar ítreka og endurflytja tillögu um niðurgreiðslu á strætókortum fyrir börn að 18 ára aldri. Mikilvægt er að jafna og auðvelda aðgengi ungmenna að tómstundum. Með því að niðurgreiða strætókort hvetjum við einnig til aukinnar notkunnar á almenningssamgöngum og styðjum við umhverfissjónarmið. Fyrir liggur kostnaðarmat á tillögunni og því leggjum við til að skoðaðir verði möguleikar á nýtingu og útfærslu hennar.
Tillagan verði tekin til umfjöllunar í umhverfis- og framkvæmdaráði og bæjarráði.

Tillaga 4 - Frístundastyrkir eldri borgara
Fulltrúar Samfylkingarinnar leggja til að frístundastyrkur eldri borgara verði hækkaður til samræmis við frístundastyrk barna og ungmenna eins og samþykkt var í bæjarstjórn þann 17. janúar 2018. Skv. minnisblaði sviðsstjóra fjölskyldusviðs sem lagt var fram á fundi ráðsins þann 15. febrúar 2019 kemur fram að hækkun frístundastyrks eldri borgara úr 4.000 kr. á mánuði í 4.500 kr. á mánuði kosti tæplega 1,2 milljónir króna á ársgrundvelli. Óskað er eftir að bæjarstjórn taki afstöðu til tillögunnar við afgreiðslu fjárhagsáætlunar.
Tillögunni verði vísað til fjölskylduráðs.

Tillaga 5 - Uppbygging leikskóla í Öldutúnsskólahverfi
Fulltrúar Samfylkingarinnar telja að næstu framkvæmdir við fjölgun leikskólaplássa eigi að vera í Öldutúnsskólahverfi. Við teljum það ekki rétta forgangsröðun að fjölga plássum í Norðurbænum þar sem nú þegar eru of mörg pláss miðað við fjölda barna, á meðan pláss vantar í Öldutúnsskólahverfi. Leikskólaþjónusta á að vera nærþjónusta og styðja þannig við hugmyndir um þéttingu byggðar og umhverfissjónarmið. Fulltrúar Samfylkingarinnar leggja því til að fallið verði frá því að fjölga vistunarplássum á Hjalla og þess í stað hafinn undirbúningur að uppbyggingu á leikskóla í Öldutúnsskólahverfi.
Tillagan verði tekin til umfjöllunar í fræðsluráði.

Adda María Jóhannsdóttir
Friðþjófur Helgi Karlsson

Þá tekur Sigurður Þ. Ragnarsson til máls og leggur fram svohljóðandi tillögur að breytingum á fjárhagsáætlun:

Tillögur bæjarfulltrúa Miðflokksins við gerð fjárhagsáætlunar 2020 og 2021-2023

Tillaga 1

Hundasvæði - aðstaða og þrautabrautir
Bæjarfulltrúi Miðflokksins gerir þá tillögu að sett verði 1 milljón krónur í uppbyggingu hundasvæðisins við Hamranes. Um er að ræða að setja upp þrautabrautir og æfingaaðstöðu fyrir hafnfirska hunda og eigendur þeirra. Auk þess að bæta aðstöðu með uppsetningu skjólveggs. Með þessu tæki Hafnarfjörður ákveðna forystu sveitarfélagnna á höfuðborgarsvæðinu í aðstöðu sem yrði liður í bættri hundamenningu en hundahald er orðið afar fjölmennt útverusport.
Er lagt til að tillagan verði send Umhverfis og framkvæmdaraði til afgreiðslu.

Greinargerð:
Samkvæmt upplýsingum framkvæmdastjóra Heilbrigðiseftirlits Hafnarfjarðar, Garðabæjar og Kópavogs voru í Hafnarfirði skráðir 735 hundar í upphafi þessa árs 2019 en í samlaginu öllu eru alls 2.135 hundar . Árlegt gjald af einum hundi er 12.800 krónur sem þýðir að tekjur Heilbrigðiseftirlitsins af hundahaldi hafnfirskra hundaaeigenda eru kr. 9.408.000.
Einn starfsmaður hjá Heilbrigðiseftirlitinu starfar við hundaeftirlit en gegnir líka öðrum störfum hjá eftirlitinu. Þá sér skrifstofustjóri um innheimtu gjalda og svarar fyrirspurnum vegna hunda og sér um skráningar. Gjaldfærður kostnaður við hundaeftirlit hefur verið um 1,5 stöðugildi á liðnum árum fyrir samlagið allt. Er hlutdeild Hafnfirðinga í áætlaðum heildarkostnaður eftirlitsins sé 8,3 milljónir sem þýðir að gjöld hafnfirskra hundaeigenda skila heilbrigðiseftirlitinu hagnaði uppá 1,1 milljón.
Litlum sem engum fjármunum hefur verið varið við viðhald hundasvæðisins við Hamranes síðustu ár og sjást þess merki. Hér er lagt til að á árinu 2020 verði einni miljón króna varið til svæðisins. Með þessu tæki Hafnarfjörður ákveðna forystu í aðstöðu á höfuðborgarsvæðinu en aðeins í Reyjavík er þrautabrautir að finna. Forysta í þessum málaflokki myndi skila sér í bættri hundamenningu, fækkun óskráðra hunda og vinsældir svæðisins myndu aukast til muna og þar með félagsskapur og samheldni hundaeigenda.

Tillaga 2
Bæjarfulltrúi Miðflokksins leggur til í ljósi lífskjarasamninganna að fyrirhugaðar hækkanir á félagslegri þjónustu við aldraða og öryrkja verði teknar til baka og að hækkanir þeirra verði ekki meiri en lífskjarasamningarnir segja til um eða 2,5%. Fyrirhugaðar hækkanir eru: Hækkun á leigu í félagslegum íbúðum um 21%, hækkun á heimaþjónstu um 24%, hækkun á ferðaþjónustu aldraðra um 104%, hækkun á tímabundinni stoðþjónustu fólks t.d. vegna slysa hækki um 16,1%.
Er lagt til að tillagan verði send fjölskylduráði og umhverfis og framkvæmdaráði til afgreiðslu.

Einnig tekur til máls Helga Björg Arnardóttir.

Einnig Jón Ingi Hákonarson sem kemur að svohljóðandi tillögum að breytingum á fyrirliggjandi áætlun:

Viðreisn gerir sér fullkomlega grein fyrir að ekki er mikið svigrúm til aukinna útgjalda þá viljum við koma eftirfarandi ábendingum að

Tillögur Viðreisnar vegna vinnu við fjárhagsáætlun Hafnarfjarðar
? Tökum hækkun/leiðréttingu á leigubílaakstri eldri borgara á lengri tíma (Fjölskylduráð)
? Finnum leiðir til að auka við sálfræðiþjónustu við börn og unglinga um eitt stöðugildi (Fræðsluráð)
? Fjölgum um 1 stöðugildi á Skipulags og byggingarsviði (Skipulags og byggingaráð)
? Ráðning verkefnastjóra til að flýta fyrir innleiðingu Barnasáttmála Sameinuðuþjóðanna og Heimsmarkmiðanna (bæjarráð)

Forseti ber næst upp tillögu um að framkomnum tillögum að breytingum á fjárhagsáætlun verði vísað til áframhaldandi vinnu við fjárhagsáætlun í þeim ráðum sem þar er vísað til og þær eiga heima. Er það samþykkt samhljóða.

Forseti leggur þá næst til að tillaga að fjárhagsáætlun 2020 og 2021 til 2023 verði vísað til annarrar umræðu í bæjarstjórn sem fari fram 11. desember nk. Er tillagan samþykkt samhljóða.