Hækkun á frístundastyrkjum
Síðast tekið fyrir á fundi fyrir 4 árum síðan.
Bæjarstjórn nr. 1821
20. febrúar, 2019
Annað
Fyrirspurn
3.liður úr fundargerð fjölskylduráðs frá 15.febrúar sl. Fundinn sátu Valgerður Sigurðardóttir og Þórarinn Þórhallsson fulltrúar öldungaráðs.
Fjölskylduráð vill að frístundastyrkur sé í samræmi við frístundastyrk ungmenna. Samþykkt að kanna svigrúm til hækkunar á frístundastyrk um mitt ár 2019.
Bókun frá fulltrúa Samfylkingarinnar: Fulltrúi Samfylkingarinnar lýsir yfir vonbrigðum að ekki hafi reynst unnt að ljúka málinu á fundinum í dag. Hringlandaháttur hefur einkennt málið síðan fræðsluráð samþykkti á hækkun frístundastyrknum einróma á fundi sínum 5. des. 2018 en meirihluti bæjarstjórnar vísaði tillögunni til baka í fræðsluráð þann 12. des. 2018. Mikilvægt er að fjölskylduráð tefji ekki hækkun til barna og ungmenna svo þau standi jafnfætis börnum og ungmennum í öðrum sveitarfélögum.
Svar

Til máls tekur Adda María Jóhannsdóttir. Til máls tekur einnig Kristín María Thoroddsen. Til andsvars kemur Adda María Jóhannsdóttir.

Til máls tekur Guðlaug Kristjánsdóttir. Til andsvars kemur Rósa Guðbjartsdóttir. Næst kemur til andsvars Adda María Jóhannsdóttir. Guðlaug Kristjánsdóttir svarar andsvari. Kristín María Thoroddsen kemur til andsvars.

Friðþjófur Helgi Karlsson tekur til máls. Til andsvars kemur Ólafur Ingi Tómasson. Friðþjófur Helgi Karlsson svarar andsvari.

Til máls tekur Helga Ingólfsdóttir. Adda María Jóhannsdóttir kemur til andsvars. Helga Ingólfsdóttir svarar andsvari. Adda María Jóhannsdóttir kemur til andsvars öðru sinni.

Adda María Jóhannsdóttir kemur að svohljóðandi bókun:

Við fjárhagsáætlunargerð í nóvember sl. lögðu fulltrúar Samfylkingarinnar í bæjarstjórn Hafnarfjarðar til að frístundastyrkir yrðu hækkaðir a.m.k. til jafns við nágrannasveitarfélögin. Tillögunni var vísað til fræðsluráðs sem samþykkti einróma hækkun á frístundastyrkjum um 500 kr. á mánuði þann 5. desember sl. Á bæjarstjórnarfundi einungis sjö dögum síðar lagði formaður sama ráðs til að málinu yrði vísað aftur til ráðsins til kostnaðargreiningar og frekari úrvinnslu. Þaðan var tillagan send fjölskylduráði til umfjöllunar sem hefur nú ákveðið að taka sér tíma fram á mitt ár þegar kanna á svigrúm til hækkunar.

Fulltrúar Samfylkingarinnar lýsa vonbrigðum með þá málsmeðferð sem tillagan hefur fengið. Bent var á það með bókun í bæjarstjórn strax í desember, þegar málinu var vísað aftur inn í fræðsluráð, að með því að fresta afgreiðslu tillögunnar kæmist hún ekki á fjárhagsáætlun og því engin trygging fyrir því að frístundastyrkir yrðu hækkaðir á þessu ári. Í dag hefur verið fullyrt að af hækkuninni verði. Við leggjum traust okkar á það en sú málsmeðferð sem aðrar tillögur okkar hafa fengið gefa ekki tilefni til bjartsýni. Staðreyndin er að tillögum fulltrúa Samfylkingarinnar í fjárhagsáætlunarvinnunni hefur öllum verið ýmist hafnað eða þær fastar í ráðum og nefndum í einhvers konar úrvinnsluferli og alls óljóst um afdrif þeirra. Það er afar dapurt þegar uppruni tillagna verður til þess að tefja fyrir góðum málum í þágu bæjarbúa.

Adda María Jóhannsdóttir
Friðþjófur Helgi Karlsson


Rósa Guðbjartsdóttir kemur að svohljóðandi bókun:

Frístundarstyrkur til barna, ungmenna og eldri borgara var hækkaður um 33% árið 2018 og til stendur að gera enn betur eins og kveðið er skýrt á um í málefnasamningi núverandi meirihluta. Áfram verður unnið á þeirri braut að gera sem flestum kleift að stunda íþróttir og aðrar tómstundir.
Hafnarfjörður er eitt fárra sveitarfélaga sem býður eldri borgurum frístundastyrk og hefur hann notið mikilla vinsælda.

Fyrir liggur tillaga um hækkun á frístundastyrk til ungmenna og eldri borgara sem lögð var fram í bæjarstjórn þegar vinna við fjárhagsáætlun 2019 var á lokastigi og fær því nú á nýju fjárhagsári umræðu í viðeigandi ráðum. Til stendur að hækka styrkinn á fjórða ársfjórðungi um 500 krónur og unnið er að kostnaðarmati.

Fundarhlé gert kl. 15:17
Fundi fram haldið kl. 15:22

Adda María Jóhannsdóttir kemur að svohljóðandi bókun:

Bókun fulltrúa meirihlutans staðfestir að uppruni tillagna skiptir máli, enda er tillöguflytjenda ekki getið í bókuninni. Þá er einnig rangt með farið að tillagan hafi verið lögð fram á lokastigum fjárhagsáætlunarvinnu þegar hún var sannarlega lögð fram við fyrri umræðu, enda höfðu fulltrúar minnihlutans litla aðkomu að vinnunni fram að því.

Adda María Jóhannsdóttir
Friðþjófur Helgi Karlsson