Kærumál vegna ákvarðana bæjarstjórnar Hafnarfjarðarkaupstaðar
Síðast tekið fyrir á fundi fyrir 4 árum síðan.
Bæjarráð nr. 3528
26. september, 2019
Annað
Fyrirspurn
Lagt fram álit samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytis dags 13. september 2019.
Bókanir og gagnbókanir
  • Sjálfstæðisflokkur, Framsókn
    Álit samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins staðfestir að afgreiðsla bæjarráðs þann 8. ágúst 2018 á rammasamkomulagi um framkvæmdir á Kaplakrika hafi verið í samræmi við heimildir. Auk þess eru engar athugasemdir gerðar við fundarboðun og meðferð málsins á bæjarstjórnarfundi viku síðar. Ráðuneytið gerir heldur ekki athugasemdir við greiðslu á 100 milljónum króna samkvæmt rammasamkomulaginu þann 16. ágúst 2018, þar sem viðauki við fjárhagsáætlun hafi verið samþykktur í bæjarstjórn, 6 dögum síðar, þann 22. ágúst 2018. Ráðuneytið telur þó að réttara hefði verið að staðfesta viðaukann áður en greiðslan fór fram og verður það sjónarmið haft til hliðsjónar við afgreiðslu sambærilegra mála í framtíðinni. Er það mat ráðuneytisins að þessi ágalli hafi engin áhrif á lögmæti greiðslunnar og því sé ekki tilefni til frekari aðgerða í málinu.
  • Bæjar-List, Samfylking
    Álit Sveitastjórnarráðuneytisins staðfestir að rammasamkomulag það sem samþykkt var í bæjarráði í umboði bæjarstjórnar þann 8. ágúst 2018 hafi varðað verulega fjárhagslega hagsmuni sveitarfélagsins og ekki verið í samræmi við fyrirliggjandi fjárhagsáætlun þess. Ekki sé hægt að leggja að jöfnu byggingu nýs knatthúss annars vegar og kaup á fasteignum af íþróttafélagi hins vegar. Auk þess hafi ekki verið tekið á 70 milljón króna mismun milli fyrri og síðari fyrirætlana. Ekki hafi verið til staðar heimild til ráðstöfunar fjármuna á grunni rammasamkomulagsins fyrr en fyrir lægi viðauki staðfestur af bæjarstjórn. Því hafi greiðsla á 100 milljónum króna sem innt var af hendi til FH þann 16. ágúst 2018 verið án heimildar.
  • Miðflokkur
    Bæjarfulltrúi Miðflokksins fagnar að komin sé niðurstaða í þessu kærumáli. Ljóst er að betur hefði mátt standa að þessari stóru ákvörðun á öllum stigum þess enda þótt ráðuneytið sjái ekki ástæðu til inngripa af þess hálfu.