Mönnun í leik- og grunnskólum Hafnarfjarðar, fyrirspurn
Síðast tekið fyrir á fundi fyrir 5 árum síðan.
Bæjarstjórn nr. 1814
31. október, 2018
Annað
Fyrirspurn
Til umræðu. 1.liður úr fundargerð fræðsluráðs frá 29.okt. sl. Gögn og minnisblað með samantekt svara við fyrirspurn Sigurðar Þ. Ragnarssonar um mönnun í leik- og grunnskólum lögð fram.
Lögð fram fyrirspurn
Sigurður Þ. Ragnarsson tekur til máls og leggur frma svohljóðandi fyrirspurn:
Bæjarfulltrúi Miðflokksins leggur fram eftirfarandi fyrirspurnir. 1. Þekktur er landlægur mönnunarvandi réttindafólks í leik- og grunnskólum landsins. Athygli vekur að árið 2016 (nýrri tölur liggja ekki fyrir) var hlutfall leiðbeinenda í grunnskólum Hafnarfjarðar 8% á meðan hlutfallið var 3% í Kópavogi. Því er spurt. a) Hvernig sundurliðast heildarfjöldi grunnskólakennara og leiðbeinenda í grunnskólum Hafnarfjarðar skólaárið 2018-2019 sundurliðað eftir skólum (bæði fjöldi og hlutfall). Hver er heildarfjöldi annars starfsfólks sundurliðað eftir skólum. Fram komi nemendafjöldi í hverjum skóla. b) Hversu margir sem annast kennslu í grunnskólum Hafnarfjarðar (grunnskólakennarar og leiðbeinendur) eru í hlutastarfi (1-49%) (50-74%) (75-99%)(100%)? c) Hve margir af starfandi leiðbeinendum innan grunnskóla Hafnarfjarðar hafa lokið háskólaprófi, sundurliðað eftir skólum (hlutfall og fjöldi)? d) Eru öll stöðugildi í grunnskólum bæjarins mönnuð? Vantar fólk? e) Hvað eru eða hyggjast fræðsluyfirvöld gera til að fjölga réttindafólki í grunnskólum bæjarins? 2. Í 9. gr. laga nr. 87/2008 segir í 2. tl. (lög um menntun og ráðningu kennara og skólastjórnenda við leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla): *Að lágmarki 2/3 hlutar stöðugilda við kennslu, umönnun og uppeldi barna í hverjum leikskóla skulu teljast til stöðugilda leikskólakennara. Því er spurt. a) Hvernig sundurliðast heildarfjöldi leikskólakennara og annara starfsmanna í leikskólum Hafnarfjarðar (bæði fjöldi og hlutfall). Hver er heildarfjöldi uppeldismenntaðra starfsmenna (aðrir en leikskólakennarar). b) Hvað eru eða hyggjast fræðsluyfirvöld gera til að fjölga leikskólakennurum á leikskólum bæjarins svo lagaskylda sé uppfyllt [2/3]? c) Eru öll stöðugildi í leikskólum bæjarins mönnuð? Vantar fólk?
Til máls tekur Adda María Jóhannsdóttir. Til andsvars kemur Sigurður Þ. Ragnarsson.
Friðþjófur Helgi Karlsson tekur til máls.
Bæjarstjórn samþykkir samhljóða að vísa framkomnum fyrirspurnum til fræðsluráð.
Fulltrúar minnihluta fræðsluráðs leggja fram eftirfarandi bókun; Það er alvarleg þróun að frá 2016 skuli leiðbeinendum í grunnskólum Hafnarfjarðar hafa fjölgað um 100%, eða úr 8% í tæp 16% á tveimur skólaárum. Ljóst er að þróunin er algjörlega óviðunandi og að huga þarf sérstaklega að starfsaðstöðu og starfskjörum í þessum skólum. Þá vekja tveir grunnskólar athygli fyrir hátt hlutfall leiðbeinenda, Víðistaðaskóli og Hraunvallaskóli. Af þeim sem annast kennslu í þessum skólum (kennarar leiðbeinendur) eru 23,7% leiðbeinendur í Víðistaðaskóla og 23,1% í Hraunvallaskóla. Á sama tíma er þetta hlutfall áberandi lægst í Hvaleyrarskóla 6,1% og í Áslandsskóla 7,8%. Eru fjölmennir skólar síður eftirsóknarverðir hjá kennurum? Þá vekur athygli að fjöldi leiðbeinenda án háskólaprófs raðast á þrjá skóla, 5 í Hraunvallaskóla, 2 í Setbergsskóla og 1 í Víðistaðaskóla. Í öðrum skólum eru allir leiðbeinendur með háskólapróf sem er góðs viti. Að því er varðar leikskólana vekur athygli að hlutfall leikskólakennara er 29% en lagaskylda gerir ráð fyrir að þeir skuli vera 66%. Hér er langt í land og fagnaðarefni að boðið sé uppá námssamninga fyrir þá sem vilja afla sér menntunar, nú alls 14 starfsmenn. Ef Hafnarfjörður vill taka forystu á þessu sviði verður að gera starfsumhverfi og starfskjör starfsfólks á leikskólum þannig að fleiri fáist til að fara á námssamninga og afla sér viðeigandi menntunar. Enn fremur vekur athygli að enn hefur ekki tekist að manna öll störf á leikskólum bæjarins en 7 stöðugildi eru ómönnuð í tveimur leikskólum. Alvarleg staða sem bitnar á því starfsfólki sem fyrir er.
Undir þetta rita fulltrúar minnihlutans í fræðsluráði, Bjarney Grendal Jóhannesdóttir, Vaka Ágústsdóttir, Sigrún Sverrisdóttir og Birgir Örn Guðjónsson.
Svar

Til máls tekur Sigurður Þ. Ragnarsson. Til andsvars kemur Ágúst Bjarni Garðarsson. Sigurður Þ. Ragnarsson svarar andsvari. Ágúst Bjarni kemur til andsvars öðru sinni.

Til máls tekur Kristin María Thoroddsen. Til andsvars kemur Sigurður Þ. Ragnarsson.

Til máls tekur Guðlaug Kristjánsdóttir. Til andsvars kemur Sigurður Þ. Ragnarsson. Guðlaug svarar andsvari.

Til máls öðru sinni tekur Kristín María Thoroddsen. Til andsvars kemur Sigurður Þ. Ragnarsson. Kristín María svarar andsvari.

Sigurður Þ. Ragnarsson kemur að svohljóðandi bókun:

Bókun frá bæjarfulltrúa Miðflokksins, Sigurði Þ. Ragnarssyni:
Leiðbeinendum í grunnskólum Hafnarfjarðar hefur nú fjölgað ár frá ári og hefur fjöldi þeirra tvöfaldast á síðustu tveimur skólaárum. Sé miðað við hlutfall réttindakennara árið 2017 er Hafnarfjörður nú undir landsmeðaltali sem er 92,5%. Hlutfallið fyrir Hafnarfjörð er 88,5%. Þetta er þveröfugt við Reykjavík (96,1%), Kópavog (93,9%), Garðabæ (97,1%) og Mosfellsbæ (95,0%) sem öll eru yfir landsmeðaltali.
Það er nauðsynlegt að Hafnarfjörður setji sér metnaðarfulla stefnu til að ná megi landsmeðaltali og helst stefnu sem setur Hafnarfjörð í forystu á þessu sviði.

Kristín María Thoroddsen kmeur að svohljóðandi bókun:

Mér sárnar fyrir hönd embættismanna bæjarins, fyrir hönd leikskólakennara, grunnskólakennara, leiðbeinenda og annarra starfsfólks í leik og grunnskólum Hafnarfjarðar sú umræða sem farið hefur af stað í fjölmiðlum á síðasta sólahring, þar sem gert er lítið úr því mikla starfi sem þar fer fram. Ljóst er að staðan á landsvísu er ekki góð en varla hægt að kenna stefnu meirihluta bæjarstjórnar Hafnarfjarðar um það. Ég sem formaður fræðsluráðs mun leggja mitt af mörkum við að bera kennsl á tækifærin til að auka vellíðan starfsfólks og barna. Og áfram verði unnið að úrbótum miðað við hugmyndir þeirra starfshópa sem er í gangi.