Fatlað fólk, íbúðir, fyrirspurn
Síðast tekið fyrir á fundi fyrir 5 árum síðan.
Bæjarstjórn nr. 1810
5. september, 2018
Annað
Fyrirspurn
Íbúðir fyrir fatlað fólk Tillaga frá fulltrúum Samfylkingarinnar Í lögum um málefni fatlaðs fólks er kveðið á um rétt fatlaðs fólks til búsetuúrræða í samræmi við þarfir og óskir eins og kostur er. Í ljósi langra biðlista og langs biðtíma fatlaðs fólks eftir húsnæði við hæfi felur bæjarstjórn Fjölskylduráði að hefja þegar í stað athugun á því hvernig hægt sé að vinna bug á þeim bráðavanda sem blasir við í þessum málaflokki. Athuguninni skal lokið fyrir fyrir lok október svo hægt verði að gera ráð fyrir fjármögnun verkefnisins í fjárhagsáætlun næsta árs.
Greinargerð: Allir eiga rétt á þaki yfir höfuðið og fatlað fólk á rétt á búsetuúrræðum í samræmi við þarfir og óskir eins og kostur er líkt og kveðið er á um í lögum um málefni fatlaðs fólks. Það er á ábyrgð bæjarstjórnar að leysa húnsæðisþörf þess fólks sem þarfnast aðstoðar við húsnæðisöflun. Bæjarstjórn á einnig að hafa frumkvæði að því að leysa úr húsnæðisvanda þessa hóps. Skv. svörum Fjölskyldusviðs við fyrirspurn fulltrúa Samfylkingarinnar í Fjölskylduráði eru 56 einstaklingar á biðlista eftir húsnæði fyrir fatlað fólk í Hafnarfirði. Af þessum 56 eru 28 einstaklingar í brýnni þörf og gætu flutt inn í nýja íbúð strax í dag. Í sama svari Fjölskyldusviðs kemur einnig fram að flestir einstaklingar á biðlistanum hafi sótt um íbúð fyrir 5 árum og að meðalbiðtími eftir íbúð sé 6 ár. Þessi staða er óásættanleg og löngu tímabært að bæjarstjórn taki á vandanum. Mikilvægt er að þessi vinna hefjist sem fyrst og að henni ljúki tímanlega fyrir gerð fjárhagsáætlunar næsta árs svo hægt verði að fjármagna þær lausnir sem Fjölskylduráð leggur til strax á næsta ári.
Svar

Til máls tekur Friðþjófur Helgi Karlsson. Til andsvars kemur Rósa Guðbjartsdóttir. Friðþjófur Helgi svarar andsvari.

Einnig tekur til máls Sigurður Þ. Ragnarsson.

Þá tekur Helga Ingólfsdóttir til máls.

Adda María Jóhannsdóttir kemur til andsvars við ræðu Helgu.

Til máls tekur Jón Ingi Hákonarson.

Einnig tekur til máls Guðlaug Kristjánsdóttir.

Forseti ber upp þá tillögu sem liggur fyrir fundinum fá fulltrúum Samfylkingarinnar og er hún samþykkt samhljóða með 11 greiddum atkvæðum.

Helga Ingólfsdóttir leggur fram svohljóðandi bókun fyrir hönd meirihlutans:

Bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokks og Framsókn og óháðra taka undir bókun Fjölskylduráðs frá 31. ágúst 2018 og leggja áherslu á að lögð verði fram áætlun um fjölgun íbúða fyrir fatlaða á næsta fundi ráðsins, bæði sértæk búsetuúrræði og almennar íbúðir í félagslega íbúðakerfinu.

Sigurður Þ. Ragnarsson leggur einnig fram svohljóðandi bókun:

Bókun frá bæjarfulltrúa Miðflokksins:
Bæjarfulltúi Miðflokksins lýsir þungum áhyggjum yfir þeim alvarlega hússnæðisvanda sem við blasir gagnvart fötluðu fólki. Tæplega 30 manns eru í brýnum vanda og þetta fólk má þola að bíða að meðaltali í 6 ár eftir úrlausn sinna mála.
Ennfremur búa um 40 bæjarbúar við það að vera hússnæðislausir nú þegar og slíkt er algjörlega óviðunandi.
Setja verður þessi mál í algjöran forgang t.d. með stofnun starfshóp sem færþað hlutverk að finna lausn á bráðasta vandanum en lagaskylda hvílir á herðum sveitarfélagsins að finna úrlausnir í þessum efnum, jafnvel þó það sé til bráðabirgða.