Fjárhagsáætlun Hafnarfjarðarkaupstaðar og fyrirtækja hans 2019 og 2020-2022
Síðast tekið fyrir á fundi fyrir 4 árum síðan.
Bæjarstjórn nr. 1820
6. febrúar, 2019
Annað
Fyrirspurn
2.liður úr fundargerð bæjarráðs frá 31.janúar sl. Bæjarráð samþykkir fyrirliggjandi viðauka við fjárhagsáætlun 2019 og vísar til afgreiðslu í bæjarstjórn. Fulltrúar Samfylkingarinnar og Viðreisnar sitja hjá.
Fulltrúar Samfylkingarinnar og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi bókun:
Undirrituð gera athugasemd við að verið sé að leggja fram viðauka vegna endurbóta á St. Jó. á þessum tímapunkti. Innan við tveir mánuðir eru síðan fjárhagsáætlun var samþykkt þar sem einungis var gert ráð fyrir átta milljónum í framkvæmdir á árinu 2019. Fulltrúar minnihlutans gerðu við það athugasemdir strax við fyrri umræðu um miðjan nóvember. Það hefði öllum mátt vera ljóst að meira þyrfti að leggja í endurbætur á húsinu á þessu ári. Adda María Jóhannsdóttir Jón Ingi Hákonarson
Fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Framsóknar og óháðra leggja fram svohljóðandi bókun:
Lögð er áhersla á að breytingin á fjárhagsáætlun sem nú er gerð með fyrirliggjandi viðauka leiðir ekki til hækkunar á fjárfestingaáætlun heldur er einungis um tilfærslu milli verkefna á framkvæmdasviði að ræða. Viðauki er gerður og lagður fram til útskýringar á þeirri tilfærslu.
Svar

Til máls tekur Rósa Guðbjartsdóttir. Einnig tekur til máls Friðþjófur Helgi Karlsson. Rósa Guðbjartsdóttir kemur til andsvars.

Til máls tekur Guðlaug Kristjánsdóttir. Þá tekur til máls Sigurður Þ. Ragnarsson. Rósa Guðbjartsdóttir kemur til andsvars. Ágúst Bjarni Garðarsson kemur til andsvars.

Adda María Jóhannsdóttir tekur til máls. Ágúst Bjarni Garðarsson kemur
til andsvars. Adda María Jóhannsdóttir svarar andsvari. Ágúst Bjarni Garðarsson kemur til andsvars öðru sinni. Adda María Jóhannsdóttir svarar andsvari í annað sinn. Ágúst Bjarni Garðarsson kemur að stuttri athugasemd. Sömuleiðis kemur Adda María Jóhannsdóttir að stuttri athugasemd.

Bæjarstjórn samþykkir fyrirliggjandi viðauka við fjárhagsáætlun 2019 með 6 greiddum atkvæðum, en 5 sitja hjá.

Adda María Jóhannsdóttir leggur fram svohljóðandi bókun:

Fulltrúar flokka sem sitja í minnihluta í bæjarstjórn leggja fram eftirfarandi bókun:

Sumarið 2017 samþykkti bæjarstjórn Hafnarfjarðar drög að kaupsamningi um 85% hlut að fasteigninni Suðurgötu 41, St. Jósefsspítala. Kaupverðið var 100 milljónir króna, með þeirri kvöð að í húsinu yrði starfrækt almannaþjónusta í a.m.k. 15 ár frá undirritun samnings. Í frummatsskýrslu á ástandi hússins dags. 27. mars 2017 er gert ráð fyrir að kostnaðurinn við að koma húsnæðinu í stand fyrir sams konar starfsemi og þar var áður sé um 225 milljónir króna.

Síðla hausts 2017 var ákveðið að útfæra nánar hugmyndir um lífsgæðasetur í húsinu og er nú svo komið að verið er að ganga frá fyrstu leigusamningum fyrir starfsemi í húsinu. Sú starfsemi kallar á frekari breytingar en frummatsskýrsla gerði ráð fyrir. Engu að síður lá kostnaðaráætlun ekki fyrir fyrr en nú í janúar þegar fundargerðir framkvæmdahóps um verkefnið voru kynntar í bæjarráði þann 17. janúar, og gerir ráð fyrir að kostnaður við endurbætur sé um 450 milljónir króna.

Fulltrúar minnihlutans hafa gert athugasemdir við að verið sé að leggja fram viðauka vegna endurbóta á St. Jó. á þessum tímapunkti. Innan við tveir mánuðir eru síðan fjárhagsáætlun var samþykkt þar sem einungis var gert ráð fyrir átta milljónum í framkvæmdir á árinu 2019. Fulltrúar minnihlutans gerðu við það athugasemdir strax við fyrri umræðu um miðjan nóvember. Það hefði öllum mátt vera ljóst að meira þyrfti að leggja í endurbætur á húsinu á þessu ári.

Í nóvember sl. samþykkti Bæjarstjórn Hafnarfjarðar samhljóma tillögu lagða fram af bæjarfulltrúa Framsóknar og óháðra um gerð verklagsreglna til að tryggja faglega umgjörð og að viðeigandi ráðstafanir séu gerðar þegar ráðist er í umfangsmiklar og kostnaðarsamar framkvæmdir eins og fram kemur í greinargerð með tillögunni, og sömuleiðis að „opinberar framkvæmdir á vegum bæjarfélagsins standist áætlanir.“ Það er þó ljóst að til þess að standast áætlanir þarf fyrst að gera áætlanir, annað ber ekki vott um ábyrga fjármálastjórn.

Adda María Jóhannsdóttir
Friðþjófur Helgi Karlsson
Guðlaug Kristjánsdóttir
Jón Ingi Hákonarson
Sigurður Þ. Ragnarsson


Fundarhlé gert kl. 17:40
Fundi fram haldið kl. 17:50

Rósa Guðbjartsdóttir leggur fram svohljóðandi bókun f.h. Sjálfstæðisflokks og Framsóknar og óháðra:
Við kaup bæjarins á St Jósefsspítala var lagt fram frummat á lágmarkskostnað til að koma húsnæðinu í notkun. Þar var skýrt tekið fram að inn í matið var ekki gert ráð fyrir breyttri starfsemi í húsinu frá því sem verið hafði en verkefnastjórn um St. Jósefsspítala sem skipuð var í kjölfarið lagði til að komið yrði á fót Lífsgæðasetri. Umhverfis- og skipulagsþjónusta hefur síðan gert kostnaðaráætlun fyrir endurbætur á hverri hæð hússins með tilliti til þeirrar starfsemi sem nú er fyrirhuguð þar. Í frummatinu var heldur ekki lagt mat á kostnað við endurnýjaðar brunavarnir, aðgengi fyrir fatlaða og fleira til að uppfylla nútímakröfur í byggingum. Lagfæringar á húsinu hafa miðað að því að hægt verði að leigja út fyrsta áfanga í vor og að húsið verði sjálfbært þegar allar hæðirnar verða komnar í notkun. Allir fjármunir til framkvæmdanna hafa verið einróma samþykktir í bæjarstjórn Hafnarfjarðar þar til nú. Lögð er áhersla á að ekkert hefur verið framkvæmt umfram fjárheimildir og ákvarðanir um næstu skref og áfanga í verkefninu verða teknar með sama hætti og nú er gert. Lögð er áhersla á að breytingin á fjárhagsáætlun sem nú er gerð með fyrirliggjandi viðauka leiðir ekki til hækkunar á fjárfestingaráætlun heldur er einungis um tilfærslu milli verkefna á framkvæmdasviði að ræða. Fulltrúar meirihlutans telja mikilvægt að slíkar breytingar séu lagðar fram í viðauka svo þær séu öllum ljósar, þótt það verklag hafi ekki alltaf verið viðhaft.