Starfshópur um Ásvelli 2018
Síðast tekið fyrir á fundi fyrir 4 árum síðan.
Bæjarráð nr. 3533
21. nóvember, 2019
Annað
Fyrirspurn
Lögð fram skýrsla starfshópsins.
Svar

Skýrsla starfshópsins lögð fram. Starfshópurinn hefur nú lokið störfum og bæjarráð þakkar honum fyrir sín störf.

Adda María Jóhannsdóttir leggur fram svohljóðandi bókun:

Skýrsla starfshóps um uppbyggingu á Ásvöllum er að mörgu leyti vel unnin og greinargott plagg. Í umræðum um uppbyggingu íþróttamannvirkja í bæjarfélaginu hefur mikilvægi uppbyggingar á Ásvöllum verið flestum ljós og brýnt að bæta þar aðstöðu til knattspyrnuiðkunar innanhúss. Engu að síður eru atriði í skýrslu hópsins um uppbyggingu á svæðinu sem undirrituð vill vekja athygli á.

Í skýrslunni er talað um að Haukar samþykki að leggja til hluta af sínu svæði til íbúðauppbyggingar sem komi á móti framlagi Hafnarfjarðarbæjar til uppbyggingar á knatthúsi á Ásvöllum. Undirrituð setur spurningamerki við þessa framsetningu, þ.e. sú ráðstöfun að ágóði sem hlýst af íbúðauppbyggingu í bæjarfélaginu sé eyrnarmerktur uppbyggingu íþróttamannvirkis á ákveðnu svæði. Í því samhengi má velta fyrir sér aðstöðumun milli íþróttafélaga þar sem fá eru í þeirri stöðu að geta notað land sem skiptimynd fyrir uppbyggingu íþróttamannvirkja.

Uppbygging íþróttamannvirkja er pólitísk ákvörðun og peningarnir sem í það fara koma úr bæjarsjóði með einum eða öðrum hætti. Íbúðauppbygging á umræddu svæði mun vissulega skila tekjum til bæjarsjóðs rétt eins og íbúðauppbygging á öðrum stöðum í bæjarfélaginu. Verði tekin pólitísk ákvörðun um að fara í uppbyggingu á knatthúsi á Ásvöllum fyrir ríflega 2 milljarða á það að vera óháð innstreymi tekna í bæjarsjóð af lóðasölu og ber því að taka ákvörðunina á þeim forsendum.

Annað sem ekki er tekið til í skýrslunni en mikilvægt er að huga að lýtur að skipulagsmálum. Þannig eru ekki tilgreind möguleg áhrif uppbyggingar af 100 íbúðum á þessu svæði á leik- og grunnskóla í hverfinu sem margir eru komnir að þolmörkum varðandi nemendafjölda. Ekki er heldur gerð úttekt á umferðarflæði vegna fyrirhugaðrar byggðar sem mun auka umferðarþunga við íþróttasvæðið þar sem m.a. fjöldi skólabarna er á ferð á degi hverjum. Mikilvægt er að allir innviðir séu teknir til skoðunar áður en endanleg ákvörðun verður tekin um tillögur hópsins.