Knatthús í Hafnarfirði
Síðast tekið fyrir á fundi fyrir 6 árum síðan.
Skipulags- og byggingarráð nr. 645
20. mars, 2018
Annað
Fyrirspurn
Tekin fyrir að nýju beiðni fulltrúa Samfylkingar, VG og Bjartrar framtíðar um umræðu um staðsetningu knatthúsa í Hafnarfirði. Afgreiðslu erindisins var frestað á fundi 28.11. 2017 með vísan til þess að lögð yrði fram tillaga að verkefnalýsingu af hálfu fulltrúa Bjartrar Framtíðar, Samfylkingar og VG. Lögð fram greinargerð skipulagsfulltrúa sem óskað var eftir á fundi 9.2. s.l.
Svar

Fulltrúar Bjartrar framtíðar og Samfylkingar leggja fram eftirfarandi bókun:

Fulltrúar Bjartrar framtíðar og Samfylkingar í skipulags og byggingarráði Hafnarfjarðar vilja undirstrika og endurtaka bókun skipulags- og byggingarráðs frá 11.3. 2014 - þar sem að kveðið er á um samkomulag við nærliggjandi lóðarhafa um bílastæðamál osfrv. sjá svohljóðandi bókun:

"Skipulags og byggingarráð samþykkir skipulagstillöguna eins og hún liggur fyrir samkvæmt uppdrætti dags. 5. nóvember 2013. Þeir fyrirvarar eru þó settir að þess sé gætt að lóðafrágangur verði í samræmi við skipulag og að farið verði eftir skiltareglugerð Hafnarfjarðarbæjar við allar nýframkvæmdir.
Áður en framkvæmdir hefjast skal liggja fyrir undirritað samkomulag við nærliggjandi lóðarhafa um samnýtingu á bílastæðum þegar um stórviðburði er að ræða. Þá verði bílastæðaskipulag aðgengilegt á heimasíðu félagsins sem og samkomulag um samnýtingu stæða. Æskilegt er að slíku samkomulagi fylgi bílastæðakort þar sem gestum er leiðbeint hvar hægt sé að leggja bílum og nota almenningssamgöngur þegar um stórviðburði að ræða, sem um leið hvetur gesti á jákvæðan hátt til að nota aðra samgöngukosti en einkabílinn. Gert er ráð fyrir að bílastæðafjöldi samkvæmt tillögunni svari eftirspurn vegna daglegrar notkunar eins og kemur fram í meðfylgjandi greinagerð.
Deiliskipulag þetta hefur gildistímann 12 ár með vísan í 37. grein skipulagslaga þar sem sett er inn ákvæði umframkvæmdatíma svokallaðara þróunarsvæða í þegar byggðu hverfi. Þessi fyrirvari er ma. settur vegna nálægðar við veghelgunarsvæði Reykjanesbrautar og Flatahrauns þar sem nokkur óvissa ríkir um þróun almenninssamgangna (samgönguás höfuðborgarsvæðisins) á næstu árum. Þetta á einkum við um áfanga nr. 8 á skipulagstillögunni dags. 5. nóvember 2013.
Við deiliskipulagsgerð í þegar byggðu hverfi getur sveitarfélag ákveðið að skilgreina afmarkað svæði sem þróunarsvæði þar sem vinna skal hefðbundið deiliskipulag. Í slíkri áætlun skal tilgreina framkvæmdatíma áætlunarinnar sem skal vera a.m.k. fimm ár en ekki lengri en fimmtán ár. Framkvæmdatími áætlunarinnar hefst við gildistöku áætlunarinnar en ef hann er ekki tilgreindur skal miða við fimmtán ár."

Óskað er eftir upplýsingum um stöðu þessara mála þar sem ekki er hægt að gefa út byggingarleyfi fyrr en ofangreint samkomulag liggur fyrir

Jafnframt óska fulltrúar Bjartrar framtíðar eftir óháðri staðavalsgreiningu fyrir Knatthús í Hafnarfirði - samanber meðfylgjandi greinagerð.

Fulltrúi Sjálfstæðisflokksins bókar varðandi bílastæði á Kaplakrika:
"Rétt er að ákvæði um samnýtingu bílastæða áður en framkvæmdir hefjast skuli liggja fyrir og undirritað samkomulag við nærliggjandi lóðarhafa um samnýtingu á bílastæðum hafi verið uppfyllt og rétt er að fylgja því eftir að svo verði áður en framkvæmdir hefjast. Athygliverður er þó áhugi Bjartrar Framtíðar og Samfylkingar á auknum bílastæðum á þessu svæði þar sem sömu fulltrúar hafa lagt áherslu á fækkun bílastæða á uppbyggingar- og þróunarsvæðum. Í því samhengi virðist sem sömu fulltrúar hafi að sama skapi ekki sannfæringu fyrir aukningu á notkun almenningssamgangna sem er miður."

Fulltrúi Sjálfstæðisflokksins bókar varðandi staðavalsgreiningu:
"Töluverð umræða hefur farið fram um byggingu knatthúsa á íþróttasvæðum bæjarins, bæjarráð og bæjarstjórn eru sammála um að slík hús eigi heima á skipulagssvæðum félaganna þar sem öll aðstaða og þjónusta er fyrir hendi sama á við um Íþróttabandalag Hafnarfjarðar sem ályktaði að knatthús yrðu byggð hjá Fimleikafélagi Hafnarfjarðar í Kaplakrika og Knattspyrnufélaginu Haukum á Ásvöllum. Fulltrúi Sjálfstæðisflokksins efar að það sé á hendi skipulags- og byggingarráðs að óska eftir staðarvalsgreiningu sem þessari og leggur til að samþykkt Bjartar Framtíðar verði vísað til umræðu og umsagnar í bæjarráði, umhverfis- og framkvæmdaráði, Íþróttabandalagi Hafnarfjarðar, Knattspyrnufélaginu Haukum og Fimleikafélagi Hafnarfjarðar og vísar jafnframt í bókun sína frá 28. nóv. sl."Gert var stutt fundarhlé.