Hraun vestur, deiliskipulag
Síðast tekið fyrir á fundi fyrir 3 árum síðan.
Bæjarstjórn nr. 1841
5. febrúar, 2020
Annað
Fyrirspurn
„Bæjarstjórn Hafnarfjarðar samþykkir framlagða tillögu rammaskipulags Hraun vestur, dags. 15. maí 2018, og að tillagan hljóti meðferð sem rammahluti aðalskipulags við endurskoðun aðalskipulags 2020, í samræmi við 4. mgr. 28. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.“
Oddvitar Samfylkingar, Viðreisnar og Bæjarlistans
Svar

Til máls taka Guðlaug Kristjánsdóttir, Adda María Jóhannsdóttir og Ingi Tómasson. Þá kemur Guðlaug til andsvars við ræðu Inga. Ingi svarar þá andsvari. Guðlaug kemur að andsvari öðru sinni sem Ingi svarar öðru sinni. Einnig kemur Adda María til andsvars við ræðu Inga sem Ingi svarar. Adda María kemur þá til andsvars öðru sinni sem Ingi svarar öðru sinni og þá næst kemur Adda María að stuttri athugasemd. Þá kemur Stefán Már Gunnlaugsson til andsvars við ræðu Inga sem Ingi svarar. Stefán kemur þá næst til andsvars öðru sinni sem Ingi svarar einnig öðru sinni.

Forseti ber fyrirliggjandi tillögu upp til atkvæða. Er tillgan felld með 4 atkvæðum frá bæjarfulltrúum Samfylkingar, Bæjarlistans og Viðreisnar, sem greiða atkvæði með tillögunni, en 7 bæjarfulltrúar greiða atkvæði gegn tillögunni, þ.e. fulltrúar Sjálfstæðisflokks, Framsóknar og óháðra og Miðflokksins.

Adda María kemur að svohljóðandi bókun:

Fulltrúar Samfylkingar, Viðreisnar og Bæjarlistans leggja fram eftirfarandi tillögu:

Það eru mikil vonbrigði að fulltrúar meirihluta Sjálfstæðisflokks og Framsóknar og óháðra hafi fellt tillögu að rammaskipulagi fyrir Hraun vestur sem upphaflega var samþykkt í Skipulags- og byggingarráði þann 15. maí 2018 og lagt fram í bæjarstjórn þann 23. maí 2018. Rammaskipulagið var unnið í breiðri sátt allra flokka og lóðarhafa, og kynnt á fjölmennum íbúafundi í Bæjarbíói. Með þessu er ljóst að fulltrúar meirihlutans hafa engan hug á að fylgja þeirri heildarsýn sem rammaskipulagið byggði á. Um leið er framtíðarsýn fyrir hverfið Hraun-vestur með öllu óljós en miðað við framlagðar tillögur eru líkur á að þar verði byggt mun meira og hærra en rammaskipulagið gerði ráð fyrir. Sú kynning sem átt hefur sér stað um hverfið þarfnast endurskoðunar ef það er raunveruleg ætlun núverandi meirihluta enda er skýrt að sú aukning á byggingarmagni verði á kostnað inngarða sem hverfi undir bílastæði og að innviðir í hverfinu, m.a. leik- og grunnskólar, verði ekki nægilegir.

Við gagnrýnum þau vinnubrögð sem viðhöfð hafa verið í ferlinu þar sem þverpólitísk sátt og samráð við íbúa og lóðarhafa er að engu haft.

Adda María Jóhannsdóttir
Stefán Már Gunnlaugsson
Jón Ingi Hákonarson
Guðlaug Svala Kristjánsdóttir

Fundarhlé kl. 16:01. Fundi framhaldið kl. 16:09.

Ágúst Bjarni Garðarsson kemur að svohljóðandi bókun:

Fulltrúar Sjálfstæðisflokks, Framsóknarflokks og Miðflokks bóka eftirfarandi.

Tillaga Samfylkingar, Viðreisnar og Bæjarlistans er bæði vanhugsuð og sett fram í fullkomnu ábyrgðarleysi. Í formála rammaskipulagsins leggja höfundar áherslu á að rammaskipulagið hafi ekki lögformlegt gildi og hlutverk þess sé að gefa leiðbeinandi sýn um þróun skipulagssvæðisins. Einnig að endanlegar útfærslur, landnýting og byggingarmagn verði lögformlega ákvarðað í deiliskipulagi.

Athygli vekur að tillaga þessi er borin upp tæpum tveimur árum eftir að rammaskipulagið var kynnt í bæjarstjórn. Frá þeim tíma hafa fulltrúar sömu flokka samþykkt að fjölga íbúðum á rammaskipulagssvæðinu um 865 úr 1635 íbúðum í 2500 íbúðir eða um 53%. Eins samþykktu fulltrúar sömu flokka að breyta áherslum rammaskipulagsins um bílastæðamál, í stað sameiginlegrar bílastæðalausnar fyrir hverfið í heild verða bílastæði leyst innan lóðar. Rammaskipulagið gerir ráð fyrir aukinni notkun almenningssamgangna og að bílastæði pr. 100m2 sé 0,65. Þetta og margt annað vilja flutningsmenn tillögunnar festa í aðalskipulagi. Í dag er óraunhæft að ætla að íbúðarkaupendur séu tilbúnir til að fjárfesta í framtíðareign með aðeins 0,65 bílastæði hvað sem síðar verður með breyttum ferðavenjum. Tillagan er til þess fallinn að tefja og flækja allt skipulagsferlið og þar með uppbyggingu á svæðinu. Meirihluti bæjarstjórnar ásamt bæjarfulltrúa Miðflokks eru sammála því sem segir í formála rammaskipulagsins „Hlutverk rammaskipulags er að gefa leiðbeinandi heildarsýn um þróun skipulagssvæðisins".

Fundarhlé kl. 16:12.

Fundi framhaldið kl. 16:34.

Adda María kemur að svohljóðandi bókun:

Hlutverk rammaskipulags er að gefa leiðbeinandi heildarsýn um þróun skipulagssvæðis. Rammaskipulag fyrir Hraun-vestur var samþykkt í skipulags- og byggingaráði vorið 2018 en nú tæpum tveimur árum síðar er ekki meirihlutavilji til að staðfesta það í bæjarstjórn. Öll sú vinna er því fyrir bí og engin heildarsýn lengur fyrir svæðið. Eins og segir í rammaskipulagi um Flensborgarhöfn er rammaskipulag stefnumótandi framtíðarsýn um heildaryfirbragð svæðis. „Í því er gerð grein fyrir öllum helstu efnistökum við uppbyggingu þróunarreita sem síðan verða nánar útfærð í deiliskipulagi. Staðfest rammaskipulag er stjórnsýslulegt tæki sem stýrir deiliskipulagsvinnu á markvissan hátt með skýr markmið og forsendur að leiðarljósi. Samþykkt rammaskipulag skal hljóta meðferð í samræmi við 4. mgr, 28. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Tölulegar stærðir um heildarbyggingarmagn taki mið af rammaskipulagi, þótt endanlegar útfærslur, byggingarmagn, ásýnd og hæðir húsa ákvarðist í deiliskipulagi hverrar lóðar.?
Nú hefur meirihlutinn hafnað framlagðri tillögu um rammaskipulag fyrir Hraun-vestur og því kalla undirrituð eftir framtíðarsýn þeirra varðandi uppbyggingu á svæðinu.

Adda María Jóhannsdóttir
Stefán Már Gunnlaugsson
Jón Ingi Hákonarson
Guðlaug Svala Kristjánsdóttir

Fundarhlé kl. 16:36.

Fundi framhaldið kl: 16:47.

Ágúst Bjarni kemur að svohljóðandi bókun:

Meirihlutinn og bæjarfulltrúi Miðflokksins ítreka fyrri bókun og benda á að margt sem fram kemur í bókun minnihlutans er í samræmi við málflutning og bókarnir meirihlutans og bæjarfulltrúa Miðflokksins. En þar segir m.a.; „Hlutverk rammaskipulags er að gefa leiðbeinandi heildarsýn um þróun skipulagssvæðis.“? „Tölulegar stærðir um heildarbyggingarmagn taki mið af rammaskipulagi, þótt endanlegar útfærslur, byggingarmagn, ásýnd og hæðir húsa ákvarðist í deiliskipulagi hverrar lóðar.“ Áfram verður tekið mið af rammaskipulagi fyrir Hraun Vestur á næstu reitum sem leiðbeinandi heildarsýn við uppbyggingu svæðisins.