Miðbær, deiliskipulag, endurskoðun
Síðast tekið fyrir á fundi fyrir 2 árum síðan.
Skipulags- og byggingarráð nr. 684
24. september, 2019
Annað
Fyrirspurn
Tekin til umræðu skýrsla starfshóps um deiliskipulag miðbæjar Hafnarfjarðar. Lagðar fram hugmyndir þriggja hönnunarhópa og mat á þeim. Auk þess lögð fram bókun bæjarstjórnar frá 18.9.2019. Bæjarstjórn samþykkti samhljóða framlengdan frest til athugasemda/viðbóta til og með 4. október nk.
Svar

Skipulags- og byggingarráð leggur til að framkomnar hugmyndir þriggja hönnunarhópa verði birtar og bendir á að þær hugmyndir sem hér liggja fyrir eru alfarið hugmyndir þessara þriggja arkitektastofa, án forskriftar frá bæjarfélaginu. Engin skipulagstillaga liggur fyrir af hálfu bæjarfélagsins, enda sú vinna ekki formlega hafin.

Fulltrúi Samfylkingarinnar í Skipulags- og byggingarráði Hafnarfjarðar leggst gegn því að stuðst verði við framlagðar tillögur um deiliskipulag miðbæjar Hafnarfjarðar af eftirtöldum ástæðum: Framlagðar tillögur eru ekki unnar með virku samráði við íbúa Hafnarfjarðar. Fyrirhuguð uppbygging sjómegin við Fjarðargötu mun skyggja á Hafnarfjarðarhöfn og hafa mikil áhrif á bæjarmyndina. Frekari landfylling mun rýra bæjarmynd Hafnarfjarðar og lífsgæði íbúa. Samfylkingin leggur áherslu á að ferlið við endurskoðun miðbæjarskipulagið verði hafið að nýju þar sem megináherslan verði lögð á virkt íbúasamráð frá upphafi. Fulltrúar Bæjarlistans og Viðreisnar taka undir síðustu setningu bókunar Samfylkingarinnar.

Fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Framsóknar bóka eftirfarandi:

Mikilvægt er að halda því til haga að hér eru einungis hugmyndir þriggja arkitektastofa að ræða. Engin skipulagstillaga liggur fyrir að hálfu bæjarins, enda sú vinna ekki hafin. Drög að skýrslu starfshóps um skipulag miðbæjarins, sem þverpólitísk samstaða var um að stofna og setja af stað, hefur legið til umsagnar á vef Hafnarfjarðarbæjar frá 20. ágúst sl. og verður þar til og með 4. október 2019. Starfshópurinn, sem hefur breiða skírskotun, m.a. fulltrúa íbúa, hefur lagt mikla áherslu á það í allri vinnu sinni að ekki verði ráðist í frekari landfyllingar að svo stöddu og að fram komi tillögur að því hvernig vernda megi bæjarmyndina og styðja við viðhald og endurbyggingu gamalla húsa í miðbæ Hafnarfjarðar. Sérstakur íbúafundur var auk þess haldinn þann 17. september sl. um málið og verður áfram stuðlað að góðu samtarfi og samtali við íbúa bæjarfélagsins.