Uppbygging íþróttamannvirkja, aðstaða til knattspyrnuiðkunar
Síðast tekið fyrir á fundi fyrir 6 árum síðan.
Bæjarstjórn nr. 1788
21. júní, 2017
Annað
Fyrirspurn
Lögð fram tillaga bæjarfulltrúa Sjálfstæðisflokks: Uppbygging íþróttamannvirkja - aðstaða til knattspyrnuiðkunar Lagt er til að Hafnarfjarðarbær fjármagni og framkvæmi uppbyggingu aðstöðu til iðkunar knattspyrnu í bæjarfélaginu á árunum 2018-2021. Byggð verði knatthús að Kaplakrika og á Ásvöllum samkvæmt tillögum Fimleikafélags Hafnarfjarðar og knattspyrnufélagsins Hauka. Gert er ráð fyrir að árlega fari 300-400 milljónir króna af eigin fé sveitarfélagsins, í framkvæmdirnar næstu fjögur árin. Markmiðið er að bæta aðstöðu til knattspyrnuiðkunar ungmenna í sveitarfélaginu í takti við áherslur ÍBH, ört vaxandi fjölgun iðkenda og heilsustefnu Hafnarfjarðarbæjar. Greinargerð: Á þingi ÍBH sem haldið var í maí sl. var samþykkt ný forgangsröðun íþróttamannvirkja og áætlun um uppbyggingu næstu fimm árin. Þar er lagt til að reistir verði yfirbyggðir knattspyrnuvellir á íþróttasvæðunum við Kaplakrika og Ásvelli. Eins og kom fram í úttekt sem íþróttafulltrúi Hafnarfjarðarbæjar lagði fyrir bæjarráð 18. maí sl. er brýn þörf á bættri aðstöðu til knattspyrnuiðkunar á báðum stöðum á veturna. Þar kemur fram að hátt í tvö þúsund börn og ungmenni æfa knattspyrnu í Hafnarfirði og fer iðkendum ört fjölgandi, bæði vegna fjölgunar íbúa og sífellt vaxandi áhuga á íþróttinni. Nú er svo komið að aðkallandi er að bæjarfélagið byggi upp og efli aðstöðu til knattspyrnuiðkunar í takti við íbúaþróun, uppbyggingu nýrra hverfa og almennt aukinn áhuga á knattspyrnuiðkun jafnt á meðal karla sem kvenna. Góður árangur knattspyrnulandsliðanna undanfarin ár og misseri hefur þar mikil áhrif á. Hafnarfjörður státar almennt af góðri aðstöðu til íþróttaiðkunar. Uppbygging á aðstöðu til knattspyrnuiðkunar er mikilvægur þáttur í því að efla og styðja við þann uppgang sem blasir við innan íþróttagreinarinnar um land allt.
Lagt er til að tillögunni verði vísað til fjárhagsáætlunargerðar 2018.
Svar

Til máls tekur bæjarfulltrúi Rósa Guðbjartsdóttir.

Til máls tekur bæjarfulltrúi Gunnar Axel Axelsson. Til andsvars kemur bæjarfulltrúi Rósa Guðbjartsdóttir. Bæjarfulltrúi Gunnar Axel Axelsson svarar andsvari. Til andsvars kemur bæjarfulltrúi Ólafur Ingi Tómasson. Bæjarfulltrúi Gunnar Axel Axelsson svarar andsvari

Til máls tekur bæjarfulltrúi Elva Dögg Ásudóttir Kristinsdóttir. Til andsvars kemur bæjarfulltrúi Unnur Lára Bryde. Til andsvars kemur Ólafur Ingi Tómasson. Bæjarfulltrúi Elva Dögg Ásudóttir Kristinsdóttir svarar andsvari. Til andsvars öðru sinni kemur bæjarfulltrúi Ólafur Ingi Tómasson. Bæjarfulltrúi Elva Dögg Ásudóttir Kristinsdóttir svarar andsvari öðru sinni. Bæjarfulltrúi Ólafur Ingi Tómasson kemur að stuttri athugasemd.

Til máls tekur bæjarfulltrúi Einar Birkir Einarsson. Til andsvars kemur bæjarfulltrúi Gunnar Axel Axelsson. Bæjarfulltrúi Einar Birkir Einarsson svarar andsvari. Til andsvars öðru sinni kemur bæjarfulltrúi Gunnar Axel Axelsson. Til andsvars kemur bæjarfulltrúi Rósa Guðbjartsdóttir. Til andsvars kemur bæjarfulltrúi Elva Dögg Ásudóttir Kristinsdóttir. Til andsvars kemur bæjarfulltrúi Ólafur Ingi Tómasson.

Til máls tekur bæjarfulltrúi Helga Ingólfsdóttir.

Við fundarstjórn tekur 1. varaforseti Adda María Jóhannsdóttir.
Við fundarstjórn tekur forseti Guðlaug Kristjánsdóttir.

Til máls tekur bæjarfulltrúi Margrét Gauja Magnúsdóttir. Til andsvars kemur bæjarfulltrúi Helga Ingólfsdóttir. Bæjarfulltrúi Margrét Gauja Magnúsdóttir svarar andsvari. Til andsvars öðru sinni kemur bæjarfulltrúi Helga Ingólfsdóttir. Bæjarfulltrúi Margrét Gauja Magnúsdóttir svarar andsvari öðru sinni. Bæjarfulltrúi Helga Ingólfsdóttir kemur að stuttri athugasemd. Til andsvars kemur bæjarfulltrúi Ólafur Ingi Tómasson. Bæjarfulltrúi Margrét Gauja Magnúsdóttir svarar andsvari.

Til máls tekur bæjarfulltrúi Adda María Jóhannsdóttir. Til andsvars kemur bæjarfulltrúi Ólafur Ingi Tómasson. Bæjarfulltrúi Adda María Jóhannsdóttir svarar andsvari. Bæjarfulltrúi Ólafur Ingi Tómasson kemur til andsvars öðru sinni. Bæjarfulltrúi Adda María Jóhannsdóttir svarar andsvari öðru sinni.

Við fundarstjórn tekur 1. varaforseti Adda María Jóhannsdóttir.

Til máls tekur bæjarfulltrúi Guðlaug Kristjánsdóttir. Bæjarfulltrúi Guðlaug Kristjánsdóttir leggur fram eftirfarandi bókun bæjarfulltrúa Bjartrar framtíðar:
"Björt framtíð í Hafnarfirði setur íþróttir og tómstundir barna í forgang og fagnar þeim krafti sem einkennir hafnfirsk félagasamtök.Björt framtíð í Hafnarfirði getur ekki tekið þátt í fyrirliggjandi tillögu. Ástæður þess eru eftirfarandi:
-Tillöguna skortir nauðsynleg fylgigögn, svo sem kostnaðarmat og greinargerð um afleiddan rekstrarkostnað sem af byggingunum myndi hljótast. Þannig er ekki hægt að átt sig á því hvort tilgreindar upphæðir næstu 4 ár dugi til að fullgera verkið. Fljótlegur samanburður við vinnugögn Íþróttabandalags Hafnarfjarðar benda reyndar til þess að tilgreindar tölur séu ofáætlaðar. Þetta þarfnast nánari skoðunar og undirbúnings. Ábyrg fjármálastjórn krefst þess að allar hliðar séu skoðaðar og undirbúningur vandaður, sérlega þegar meirihluti bæjarstjórnar á í hlut.
-Tillagan gengur út á að binda stóran hluta framkvæmdafjár bæjarins til næstu fjögurra ára, að minnsta kosti. Hafa þarf í huga að Hafnarfjörður stendur frammi fyrir gríðarlegri uppsafnaðri þörf á viðhaldsframkvæmdum á eignum bæjarins eftir langvarandi fjárhagsvanda frá hruni. Þar má nefna skólahús, skóla- og leikskólalóðir, strætóstoppistöðvar, hjólreiðstíga, safnakost bæjarins o.s.frv., o.s.frv.
-Björt framtíð í Hafnarfirði leggur ríka áherslu á að framkvæmdafé bæjarins sé ráðstafað með heildarforgangsröðun, þvert á málaflokka, í huga. Fjölmargar framkvæmdir bæjarins kalla á aukið fjármagn og nauðsynlegt er að fyrir liggi útfærð áætlun áður en bæjarstjórn ákveður að ráðstafa takmörkuðu framkvæmdafé fyrirfram áður en heildstæð skoðun hefur átt sér stað, sem og umræða um hana.
-Íþróttabandalag Hfj hélt faglegt þing fyrir réttum mánuði síðan og hefur nýverið lagt fram tillögur um framtíðaruppbyggingu og forgangsröðun sem bærinn á eftir að ræða við bandalagið. Björt framtíð í Hafnarfirði ber virðingu fyrir samtali bæjarins við Íþróttabandalagið og vill klára það áður en bæjarstjórn tekur af skarið um næstu skref í byggingaframkvæmdum eða setur í loftið óútfærð loforð.
-Fyrir liggur ákvörðun bæjarstjórnar um að breyta samkomulagi við Íþróttabandalag Hafnarfjarðar á þann veg að bærinn kosti í framtíðinni uppbyggingu íþróttamannvirkja að fullu. Íþrótta- og tómstundanefnd hefur það mál til umfjöllunar, en sú vinna var sett í farveg nú í júní og er því vart hafin.
-Bæjarfélagið hefur á þessu kjörtímabili gengið í gegnum heildstæða endurskoðun á rekstri bæjarins. Þær aðgerðir hafa skilað stórbættri stöðu í fjármálum Hafnarfjarðar. Einnig hefur farið fram endurskoðun á samningum við íþróttafélögin í bænum. Tillagan sem hér liggur fyrir gengur þvert gegn þeim vinnubrögðum sem lagt var upp með í þessum úttektum og endurskoðun og væri skref aftur á við í samskiptum bæjarins og félagasamtaka.
-Rétt er að árétta að tillagan er samsett úr tveimur aðskildum málum og stangast á við forgangsröðun ÍBH eins og hún var sett fram nú í júní. Björt framtíð í Hafnarfirði vill fjalla um hvern lið á forgangslista ÍBH fyrir sig, enda hvert svæði með sína sérstöðu.
Þessi afstaða Bjartrar framtíðar í Hafnarfirði gagnvart fyrirliggjandi tillögu Sjálfstæðisflokksins er í fullu samræmi við samstarfssáttmála flokkanna tveggja í meirihluta bæjarstjórnar.
Björt framtíð í Hafnarfirði telur það ábyrgðarhlut að láta hanga í loftinu óstaðfest loforð um framkvæmd af þessari stæarðargráðu og mun því ekki ljá tillögunni líf með hjásetu.
Björt framtíð í Hafnafirði hlakkar til samtalsins við Íþróttabandalag Hafnarfjarðar og hvert og eitt íþróttafélag um framtíðarhugmyndir og tillögur að forgangsröðun framkvæmda og mun leggja metnað sinn í að vinna það ferli vel og af heilindum. Með vinsemd og virðingu fyrir öllum íþróttum og tómstundum barna í Hafnarfirði".

Til andsvars kemur bæjarfulltrúi Margrét Gauja Magnúsdóttir. Bæjarfulltrúi Guðlaug Kristjánsdóttir svarar andsvari. Bæjarfulltrúi Margrét Gauja Magnúsdóttir kemur til andsvars öðru sinni. Bæjarfulltrúi Guðlaug Kristjánsdóttir svarar andsvari öðru sinni. Til andsvars kemur bæjarfulltrúi Gunnar Axel Axelsson. Bæjarfulltrúi Guðlaug Kristjánsdóttir svarar andsvari. Til andsvars öðru sinni kemur bæjarfulltrúi Gunnar Axel Axelsson. Bæjarfulltrúi Guðlaug Kristjánsdóttir svarar andsvari öðru sinni.

Við fundarstjórn tekur forseti Guðlaug Kristjánsdóttir.

Til máls tekur bæjarfulltrúi Gunnar Axel Axelsson.

Til máls tekur Rósa Guðbjartsdóttir.

Fundarhlé kl. 18:42, fundi framhaldi kl. 18:52

Framkomin tillaga borin upp til atkvæða.

Atkvæðagreiðsla fer fram með nafnakalli.
Pétur Gautur Svavarsson, já
Rósa Guðbjartsdóttir, já
Unnur Lára Bryde, já
Adda María Jóhannsdóttir, nei
Einar Birkir Einarsson ,nei
Elva Dögg Ásudóttir Kristinsdóttir, nei
Guðlaug Kristjánsdóttir, nei
Gunnar Axel Axelsson, nei
Helga Ingólfsdótir, já
Margrét Gauja Magnúsdóttir, nei
Ólafur Ingi Tómasson, já

Tillaga er felld 6 bæjarfulltrúar segja nei og 5 bæjarfulltrúar segja já.

Fundarhlé kl. 18:56, fundi framhaldið kl. 19:07

Til máls tekur bæjarfulltrúi Rósa Guðbjartsdóttir og leggur fram eftirfarandi bókun bæjarfulltrúa Sjálfstæðisflokks:
"Bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins lýsa yfir miklum vonbrigðum með að ekki hafi verið vilji til að vísa tillögu um uppbyggingu fyrir knattspyrnuiðkun í bænum til fjárhagsáætlunargerðar. Heildstæð og ítarleg greining og skoðun á aðstöðu til knattspyrnuiðkunar í Hafnarfirði hefur átt sér stað undanfarin misseri og ár og er tillagan sem liggur fyrir afurð þeirrar vinnu. Hátt í 2000 börn og ungmenni stunda knattspyrnu í bæjarfélaginu og er mikil þörf á bættri aðstöðu hjá báðum félögum eins og gert er grein fyrir í tillögunni. Bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja áherslu á að endurskoðun samnings Hafnarfjarðarbæjar og ÍBH sem samþykkt var á bæjarstjórnarfundi 10. maí sl. gangi hratt fyrir sig. Einnig að gerð verði greining og úttekt á frekari uppbyggingartillögum og framkvæmdaröð sem samþykkt var á síðasta þingi ÍBH. Þótt tillagan hafi ekki verið samþykkt eins og hún liggur fyrir nú verður áfram unnið að framgangi hennar eins og öðrum uppbyggilegum verkefnum í sveitarfélaginu".

Til máls tekur bæjarfulltrúi Gunnar Axel Axelsson og leggur fram eftirfarandi bókun bæjarfulltrúa Samfylkingr og VG:
"Fulltrúar minnihlutans taka ekki þátt í þeirri óábyrgu tillögugerð sem fulltrúar Sjálfstæðisflokksins hafa ákveðið að leggja hér fram í þeim augljóslega tilgangi að slá ryki í augu bæjarbúa og afla sér skammtímavinsælda á mjög svo hæpnum forsendum. Eigi tillaga bæjarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um að ráðast í byggingu tveggja knattspyrnuhúsa í fullri stærð að teljast fjárhagslega raunhæf er ljóst að fjöldi brýnna verkefna í grunnþjónustu bæjarins muni þurfa að víkja á næstu árum. Eðlilegt er að sömu fulltrúar upplýsi bæjarbúa um þá hlið málsins einnig.
Ekkert kostnaðarmat fylgir tillögunni og ekkert liggur fyrir um hvaðan fjármagn til verkefnanna eigi að koma. Ekkert liggur heldur fyrir hvaða áhrif ákvörðun af þessu tagi getur haft á möguleika bæjarins til að ráðast í önnur verkefni, s.s.fjölgun félagslegra húsnæðisúrræða og framkvæmdir í leik- og grunnskólamálum sem nauðsynlegt er að ráðast í á næstu árum ef sveitarfélagið ætlar að standast samanburð við önnur sveitarfélög hvað framboð og gæði grunnþjónustunnar snertir.
Tillagan virðist sömuleiðis ganga þvert á nýlegar samþykktir Íþróttabandalags Hafnarfjarðar um forgangsröðun framkvæmda á sviði íþróttamála. Ef það hefur verið vilji fulltrúa Sjálfstæðisflokksins að ráðast í svo stórfelldar framkvæmdir í knattspyrnumannvirkjum er eðlilegt að spyrja hvers vegna þær áherslur hafa ekki verið kynntar fyrr, a.m.k. áður en fulltrúar íþróttafélaganna í bænum komu saman til ÍBH þings fyrir aðeins örfáum vikum síðan.
Þá er erfitt að sjá hvernig fyrirliggjandi tillaga getur samrýmst yfirlýsingum um nauðsyn þess að greiða niður skuldir bæjarins en samkvæmt fyrirliggjandi upplýsingum má gera ráð fyrir að heildarskuldir og skuldbindingar bæjarins aukist um nokkra milljarða á yfirstandandi rekstrarári.
Í ljósi þess að vinna við gerð fjárhagsáætlunar er í reynd ekki hafin hefur tillagan, ólíkt því sem ætla má af kynningu málsins, sem slík heldur ekkert formlegt gildi frekar en aðrar tillögur eða hugmyndir sem munu verða ræddar í aðdraganda samþykktar fjárhagsætlunar á komandi hausti. Það er því erfitt að sjá hvaða tilgangi þessi málflutningur á að þjóna öðrum en þeim að að stilla íþróttafélögum í bænum upp á móti hvort öðru og teikna upp þá mynd að stuðningur við uppbyggingu í íþróttamálum markist af flokkspólitískum línum.
Að öðru leyti tökum við efnislega undir þau sjónarmið sem fram koma í bókun bæjarfulltrúa Bjartrar framtíðar."