Fjárhagsáætlun Hafnarfjarðarkaupstaðar og fyrirtækja hans 2018 og 2019-2021
Síðast tekið fyrir á fundi fyrir 5 árum síðan.
Bæjarstjórn nr. 1794
8. nóvember, 2017
Annað
‹ 9
10
Fyrirspurn
1.liður úr fundargerð bæjarráðs frá 31.okt. sl. Lögð fram fjárhagsáætlun Hafnarfjarðarkaupstaðar og fyrirtækja hans 2018 og 2019-2020. Rósa Steingrímsdóttir sviðsstjóri fjármálasviðs og Sigurður Haraldsson sviðsstjóri umhverfis- og skipulagsþjónustu mættu til fundarins.

Bæjarráð samþykkir að vísa fjárhagsáætlun 2018 og 2019-2021 til fyrri umræðu í bæjarstjórn með áorðnum breytingum.
Svar

Til máls tekur Haraldur L. Haraldsson. Einnig tekur til máls Rósa Guðbjartsdóttir og Margrét Gauja Magnúsdóttir.

1. varaforseti Kristinn Andersen tekur við fundarstjórn.

Haraldur L. Haraldsson kemur að andsvari við ræðu Margrétar Gauju.

Forseti Guðlaug Kristjánsdóttir tekur við fundarstjórn.

Elva Dögg Ásudóttir Kristinsdóttir tekur til máls.

Forseti ber upp tillögu um að tillaga að fjárhagsáætlun 2018 og 2019 til 2021 verði vísað til annarar umræðu í bæjarstjórn sem fari fram 22. nóvember nk. Er tillagan samþykkt með 11 samhljóða atkvæðum.

Adda María Jóhannsdóttir leggur fram eftirfarandi bókun fyrir hönd bæjarfulltrúa Samfylkingarinnar og Vinstri grænna:

"Fjárhagsáætlun sú sem í dag er lögð fram til fyrri umræðu í Bæjarstjórn Hafnarfjarðar ber þess skýr merki að framundan er kosningavetur enda er stillt upp gífurlegum fjárfestingum sem munu skuldbinda Hafnarfjarðarbæ til framkvæmda nokkur ár fram í tímann.

Frá árinu 2013 hefur afkoma sveitarfélagsins batnað ár frá ári. Það er því ekki rétt sem haldið er fram í fréttatilkynningu sem fulltrúar meirihlutans hafa birt með fjárhagsáætlun að bærinn hafi hafi fyrst skilað jákvæðri rekstrarniðurstöðu árið 2016. Ytri aðstæður hafa sömuleiðis verið hagfelldar og það hefur skilað sér í umtalsvert bættri afkomu allra sveitarfélaga á Íslandi. Þá býr Hafnafjörður vel að miklum eignum í formi íbúða- og atvinnulóða sem í reynd eru forsenda þess að hægt er að ráðast í nýjar fjárfestingar á næstu árum.
Bætt afkoma má þó ekki breytast í fjárhættuspil og áfram er mikilvægt að fara gætilega í rekstri bæjarins. Þær fjárfestingar sem fjárhagsætlunin boðar eru gífurlegar og ljóst að ekki má mikið út af bregða. Í því samhengi má minna á að þó ársreikningur Hafnarfjarðarbæjar hafi verið jákvæður árið 2016 var hann hins vegar neikvæður um ríflega 500 milljónir árið 2015. Rekstur bæjarfélags er alltaf háður ytri aðstæðum og óvissa um ýmsa þætti getur sett strik í reikninginn. Kjarasamningar kennara eru t.a.m. lausir innan skamms og því ákveðinn óvissa um þróun mála á þeim vettvangi.

Það er ástæða til að fagna góðu gengi í rekstri bæjarins. Sérstaklega fögnum við að sjá þar mál sem við höfum lengi talað fyrir, einkum fleiri félagslegum íbúðum, leikskóla í Suðurbæ og fjölgun stöðugilda sálfræðinga.

En um leið og við gleðjumst yfir bættri afkomu verðum við jafnframt að minna okkur á að fara ekki of geyst, og forgangsraða alltaf í þágu almannahagsmuna þegar farið er með fjármuni bæjarbúa."

Bæjarfulltrúar Samfylkingar og Vinstri grænna
Adda María Jóhannsdóttir
Elva Dögg Ásudóttir Kristinsdóttir
Gunnar Axel Axelsson
Margrét Gauja Magnúsdóttir