Ársreikningur bæjarsjóðs Hafnarfjarðar og fyrirtækja hans 2015, síðari umræða
Síðast tekið fyrir á fundi fyrir 8 árum síðan.
Bæjarstjórn nr. 1764
27. apríl, 2016
Annað
‹ 7
8
Fyrirspurn
2.liður úr fundargerð BÆJH frá 7.apríl sl. Lagður fram ársreikningur bæjarsjóðs Hafnarfjarðar og fyrirtækja hans 2015. Rósa Steingrímsdóttir sviðsstjóri fjármálasviðs og Guðmundur Sverrisson rekstrastjóri, mættu á fundinn.
Bæjarráð vísar ársreikningnum til fyrri umræðu í bæjarstjórn.
Til máls tekur bæjarstjóri Haraldur L. Haraldsson.
Til máls tekur bæjarfulltrúi Gunnar Axel Axelsson.
Til máls tekur bæjarfulltrúi Rósa Guðbjartsdóttir.
Samþykkt með 11 samhljóða atkvæðum að vísa ársreikningi bæjarsjóðs Hafnarfjarðar til síðari umræðu í bæjarstjórn.
Svar

Til máls tekur bæjarfulltrúi Rósa Guðbjartsdóttir.

Til máls tekur Adda María Jóhannsdóttir.

Við fundarstjórn tekur 1. varaforseti Adda María Jóhannsdóttir.

Til máls tekur bæjarfulltrúi Guðlaug Kristjánsdóttir.

Við fundarstjórn tekur forseti Guðlaug Kristjánsdóttir

Til máls tekur bæjarfulltrúi Ófeigur Friðriksson. Til andsvars kemur Rósa Guðbjartsdóttir. Bæjarfulltrúi Ófeigur Friðriksson svarar andsvari.

Til máls tekur bæjarfulltrúi Sverrir Garðarsson. Við fundarstjórn tekur 1. varaforseti Adda María Jóhannsdóttir. Til andsvars kemur Guðlaug Kristjánsdóttir. Bæjarfulltrúi Sverrir Garðarsson svarar andsvari.

Við fundarstjórn tekur forseti Guðlaug Kristjánsdóttir

Til máls tekur bæjarfulltrúi Ófeigur Friðriksson. Við fundarstjórn tekur 1. varaforseti Adda María Jóhannsdóttir. Til andsvars kemur bæjarfulltrúi Guðlaug Kristjánsdóttir. Bæjarfulltrúi Ófeigur Friðriksson svarar andsvari. Til andsvars öðru sinni kemur bæjarfulltrúi Guðlaug Kristjánsdóttir. Til andsvars kemur bæjarstjóri Haraldur L. Haraldsson. Bæjarfullrúi Ófeigur Friðriksson svarar andsvari. Til andsvars öðru sinni kemur bæjarstjóri Haraldur L. Haraldsson. Bæjarfulltrúi Ófeigur Friðriksson svarar andsvari öðru sinni. Við fundarstjórn tekur forseti Guðlaug Kristjánsdóttir. Til andsvars kemur bæjarfulltrúi Ólafur Ingi Tómasson. Bæjarfulltrúi Ófeigur Friðriksson svarar andsvari. Til andsvars öðru sinni kemur bæjarfulltrúi Ólafur Ingi Tómasson.

Við fundarstjórn tekur 1. varaforseti Adda María Jóhannsdóttir.

Til máls tekur bæjarfulltrúi Guðlaug Kristjánsdóttir.

Við fundarstjórn tekur forseti Guðlaug Kristjánsdóttir

Til máls tekur bæjarfulltrúi Adda María Jóhannsdóttir.

Ársreikningur fyrir árið 2015 er samþykktur með 11 samhljóða atkvæðum.

Bæjarfulltrúi Rósa Guðbjartsdóttir leggur fram eftirfarandi bókun bæjarfulltrúa Sjálfstæðisflokks og Bjartrar framtíðar:
"Tímamót í rekstri Hafnarfjarðarbæjar, viðspyrnu náð og bjart framundan.
Ársreikningur 2015 endurspeglar langvarandi erfiðleika í fjárhag Hafnarfjarðarbæjar og lítið svigrúm til að mæta ófyrirséðum útgjöldum. Í ljósi þeirrar stöðu var á árinu ráðist í gagngera endurskoðun á rekstri bæjarins á grunni ítarlegrar greiningar, til að tryggja stöðugleika í rekstri hans. Niðurstaða ársins 2015 sýnir glöggt hve nauðsynlegar og tímabærar þær aðgerðir voru.
Frávik frá fjárhagsáætlun ársins 2015 skýrast aðallega af kjarasamningum um launahækkanir sem reyndust umfram áætlanir, en einnig af endurkröfu um áður innheimt útsvar. Samtals drógu þessir tveir þættir reksturinn niður um tæpan einn milljarð króna.
Frá árinu 2008 hefur einungis þrisvar verið afgangur af rekstrinum. Samtals nam rekstrartapið á þessum árum rúmum 12 milljörðum króna. Rekstrarafgangur ársins 2013 skýrist einkum af tvennu. Annars vegar gengishagnaði sem var 852 milljónir króna. vegna erlendra lána og eftirá greidds útsvars, sem reyndist ranglega innheimt, að upphæð 412 milljónir króna eða samtals 1.264 milljónir króna. Bærinn þurfti á árinu 2015 að endurgreiða þessa álagningu útsvars með vöxtum, eða samtals 423 milljónir króna sem skýrir að hluta hallann sem varð árið 2015.
Afborganir skulda hafa á þessu átta ára tímabili verið fjármagnaðar með nýjum lánum og sölu eigna. Nýjum meirihluta var ljóst að þannig gæti það ekki haldið áfram. Með hliðsjón af því var ráðist í heildarúttekt á rekstri Hafnarfjarðarbæjar, sem hafði það að markmiði að snúa við þeirri óheillaþróun í rekstri bæjarsjóðs sem verið hafði undangengin ár og tryggja að afborganir lána og nýframkvæmdir væru fjármagnaðar með afgangi í rekstri.
Í fjárhagsáætlun ársins 2016 og þriggja ára áætlun bæjarins koma þessi markmið skýrt fram, þ.e. gert er ráð fyrir rekstrarafgangi á árinu 2016 og árunum þar á eftir. Jafnframt að veltufé frá rekstri verði nógu mikið til að standa undir nýframkvæmdum og greiðslu afborgana. Engar lántökur eru fyrirhugaðar hjá bænum. Gangi þetta eftir stendur rekstur Hafnarfjarðarbæjar á tímamótum. Sögu rekstrartaps undanfarinna ára og fjármögnun afborgana lána með nýjum lántökum er lokið. Það eru bjartir tímar framundan í Hafnarfirði."

Bæjarfulltrúi Adda María Jóhannsdóttir leggur fram eftirfarandi bókun bæjarfulltrúa Samfylkingar og Vinstri grænna:
"Frá hruni hefur verið unnið markvisst að því að skapa jafnvægi í rekstri Hafnarfjarðarbæjar. Markvissar aðgerðir áranna eftir hrun og endurfjármögnun langtímalána skiluðu miklum árangri sem birtist meðal annars í jákvæðri afkomu árið 2013. Í stað þess að halda áfram þeirri vinnu hefur meirihluti Bjartrar framtíðar og Sjálfstæðisflokks nú eytt næstum tveimur árum í að reyna að sannfæra bæjarbúa um að vinna við að endurreisa fjárhag bæjarins sé rétt að byrja og forsaga málsins hafi ekkert með hrun íslensks efnahagslífs að gera. Það kemur eflaust fáum á óvart að fulltrúar Sjálfstæðisflokksins vilji ekki kannast við hrunið, orsakir þess eða afleiðingar en það vekur að sama skapi undrun margra að fulltrúar Bjartrar framtíðar skuli taka fullan þátt í þeim áróðri og því leikriti sem sett hefur verið á fjalirnar hér í bæjarstjórn síðustu tvö ár.
Fyrir ári síðan var hér til umræðu ársreikningur fyrir árið 2014. Var þá gert mikið úr því að veltufé frá rekstri næði ekki þeim viðmiðunum sem sett voru sem skilyrði lánasamninga og gæti leitt til hærri vaxtagreiðslna fyrir bæjarsjóð. Nú bregður svo við eftir nær tveggja ára valdatíð meirihluta Bjartrar framtíðar og Sjálfstæðisflokks og tveggja ára taprekstur á bæjarsjóði að veltufé frá rekstri árið 2015 reynist enn lægra og langt undir fyrrnefndum viðmiðum. Ekki er þó minnst einu orði á þessa staðreynd né heldur neikvæð áhrif þessa á vaxtabyrði sveitarfélagsins.
Á árunum eftir hrun var lögð höfuðáhersla á að standa vörð um velferðar- og grunnþjónustuna. Á öllum sviðum bæjarins var tekið mið af breyttum aðstæðum í þjóðfélaginu og starfsemin skipulögð út frá því. Opnunartímum var breytt, starfsstöðvar sameinaðar, verkefni endurskipulögð og dregið úr yfirbyggingu og kostnaði við stjórnun. Með nýjum meirihluta fylgdi stefnubreyting sem endurspeglast í harkalegum niðurskurði í grunnþjónustu, fækkun starfsmanna í leik- og grunnskólum og lokun leikskólaúrræða á sama tíma og yfirbygging er aukin. Kostnaðarsömum uppsögnum reyndra lykilstarfsmanna á síðasta ári hefur verið fylgt eftir með fjölgun starfa í yfirstjórn og dæmalausri launahækkun bæjarstjóra. Allt tal um að þær aðgerðir eigi að skila bæjarfélaginu fjárhagslegum ávinningi dæmir sig sjálft.
Á sama tíma og skorið er niður í viðhaldi og ekki er brugðist við ábendingum embættismanna um að eignir bæjarins standi undir skemmdum vegna viðhaldsleysis er fjármunum varið til nýframkvæmda sbr. byggingu nýrra íþróttahúsa bæði á Kaplakrika og Ásvöllum. Þrátt fyrir að full samstaða sé innan bæjarstjórnar og sameiginlegur skilningur á mikilvægi þess að tryggja góða aðstöðu til íþróttaiðkunar og almennrar heilsueflingar fyrir bæjarbúa er erfitt að sjá hvernig hægt er að réttlæta slíkar ákvarðanir á sama tíma og ekki fást peningar til að mæta uppsafnaðri viðhaldsþörf þeirra fasteigna sem nú þegar eru í eigu og rekstri bæjarins.
Það vekur athygli að á sama tíma og ráðist er í harkalegan niðurskurð í grunnþjónustu sveitarfélagsins, sbr. lokun fjögurra leikskólaúrræða og þjónustuskerðingu í ákveðnum hverfum bæjarins eru samþykkt áform um að hefja einkarekstur grunnskóla sem kallar á umtalsverð viðbótarútgjöld fyrir bæjarfélagið. Miðað við fyrirliggjandi útreikninga fræðslusviðs mun Hafnarfjarðarbær greiða ríflega 150 milljónir króna til rekstur nýs einkarekins grunnskóla en sparnaður á móti í núverandi skólakerfi er áætlaður að hámarki 50 milljónir en í versta falli enginn. Mismunurinn verður aðeins fjármagnaður með auknum álögum á skattgreiðendur í Hafnarfirði eða enn frekari niðurskurði í rekstri þeirra grunnskóla sem eru fyrir starfandi í sveitarfélaginu og Hafnarfjarðarbær rekur."