Skólaskipan í Suðurbæ
Síðast tekið fyrir á fundi fyrir 8 árum síðan.
Bæjarstjórn nr. 1762
16. mars, 2016
Annað
Fyrirspurn
2.liður úr fundargerð fræðsluráðs frá 9.mars sl. Lögð fram umbeðin úttekt á leikskólaplássum í Suðurbæ.
Guðmundi Sverrissyni, sérfræðingi á hagdeild bæjarins, þökkuð kynningin á minnisblaðinu sem lagt var fram.
Fulltrúar Samfylkingar og Vinstri grænna óska bókað og leggja fram tillögu: "Í niðurstöðum úttektar þeirrar sem hér er lögð fram kemur fram að miðað við núverandi fjölda barna á leikskólaaldri í Suðurbæ sé þörf fyrir 240 leikskólapláss í hverfinu. Þar sem núverandi fjöldi leikskólaplássa er langt undir skilgreindri þörf þurfa um 48% leikskólabarna úr Suðurbæ nú þegar að sækja leikskóla utan hverfisins. Er hlutfall barna sem sækja leikskóla utan hverfis hvergi hærra en í þessu umrædda hverfi. Í úttektinni kemur einnig fram að í skólahverfi Víðistaðaskóla séu leikskólapláss umfram skilgreinda þörf 216 talsins og því umtalsvert meira svigrúm til fækkunar leikskólaplássa þar án þess að þjónustu verði raskað. Nú þegar þessar niðurstöður liggja fyrir hlýtur öllum að vera ljós sú staðreynd að ekkert svigrúm er til fækkunar leikskólaplássa í Suðurbæ líkt og gengið er út frá í fjárhagsáætlun og samþykkt var af meirihluta bæjarstjórnar þann 9. desember sl. Gerum við því að tillögu okkar að sú ákvörðun verði tafarlaust dregin til baka. Þannig verður dregið úr þeirri óvissu sem umræða um mögulega lokun annars tveggja leikskóla í Suðurbæ hefur skapað fyrir fjölskyldur með ung börn í hverfinu. Þar sem fjöldi leikskólaplássa í hverfinu er nú þegar langt undir skilgreindri þörf teljum við jafnframt mjög brýnt að hugað verði að fjölgun þeirra í hverfinu og lagðar verði fram skýrar áætlanir þess efnis eins fljótt og hægt er.
Adda María Jóhannsdóttir Sverrir Garðarsson"
Tillagan er borin upp til atkvæða. Tillagan er felld með þremur atkvæðum meirihlutans en tveir fulltrúar minnihlutans greiða henni atkvæði.
Bókun frá fulltrúum Sjálfstæðisflokks og Bjartrar framtíðar: "Bent er á að gott hefði verið að tillagan hefði verið lögð fram fyrir fundinn en ákvörðun um lokun starfsstöðvarinnar við Hlíðarbraut var tekin eftir ítarlega hagkvæmniúttekt í aðdraganda fjárhagsáætlunar fyrir árið 2016. Hafnarfjörður hefur verið skilgreindur sem eitt leikskólahverfi og eru næg leikskólapláss til í bænum. Minnisblaðið sem nú liggur fyrir ráðinu sýnir að Vallahverfið og Suðurbær eru með fæstu plássin miðað við fjölda barna á leikskólaaldri. Það er vilji meirihlutans að veita þjónustuna sem næst heimilum barna og niðurstöður minnisblaðsins verða nýttar til frekari ákvörðunar um aukna þjónustu í leikskólamálum."
Bókun frá fulltrúum Samfylkingar og Vinstri grænna: "Viðbrögð fulltrúa meirihluta Sjálfstæðisflokks og Bjartrar framtíðar við þessari tillögu fulltrúa Samfylkingar og Vinstri grænna um að fyrri ákvörðun um að loka starfsstöð Brekkuhvamms við Hlíðarbraut verði dregin til baka sýna svo ekki verður um villst að úttektin sem hér um ræðir var leikaraskapur og ekki til neins annars ætluð en tefja málið og draga úr samtakamætti foreldra í Suðurbæ. Eðlilegra hefði verið að vinna slíka úttekt áður en ákveðið var að loka starfsstöðinni. Við hörmum þá stöðu sem upp er komin enda ljóst að veruleg þörf er á leikskólaplássum í þessu hverfi eins og fulltrúar minnihlutans hafa ítrekað bent á.
Adda María Jóhannsdóttir Sverrir Garðarsson"
Bókun frá fulltrúum Sjálfstæðisflokks og Bjartrar framtíðar: "Ákvörðun um lokun starfsstöðvarinnar var tekin eftir ítarlega greiningu, á vinnufundum fræðsluráðs á síðasta ári, á fjölda leikskólaplássa, þar sem við blasti töluverð fækkun barna á leikskólaaldri og við því þurfti að bregðast. Áréttað er að það er vilji meirihlutans að veita þjónustuna sem næst heimilum barna og munum við beita okkur fyrir því að nýta niðurstöðu þessarar úttektar til frekari ákvörðunar um aukna þjónustu í leikskólamálum. Önnur ummæli í bókun minnihlutans eru ekki svaraverð."
Svar

Til máls tekur bæjarfulltrúi Gunnar Axel Axelsson. Til andsvars kemur bæjarstjóri Haraldur L. Haraldsson. Gunnar Axel Axelsson svarar andsvari. Til andsvars öðru sinni kemur bæjarstjóri Haraldur L. Haraldsson. Gunnar Axel Axelsson svarar andsvari öðru sinni. Bæjarstjóri Haraldur L. Haraldsson gerir stutta athugasemd.

Til máls tekur bæjarfulltrúi Adda María Jóhannsdóttir og leggur fram eftirfarandi tillögu, fulltrúa Samfylkingar og Vinstri gænna: Nú þegar þessar niðurstöður liggja fyrir hlýtur öllum að vera ljós sú staðreynd að ekkert svigrúm er til fækkunar leikskólaplássa í Suðurbæ líkt og gengið er út frá í fjárhagsáætlun og samþykkt var af meirihluta bæjarstjórnar þann 9. desember sl. Gerum við því að tillögu okkar að sú ákvörðun verði tafarlaust dregin til baka. Þannig verður dregið úr þeirri óvissu sem umræða um mögulega lokun annars tveggja leikskóla í Suðurbæ hefur skapað fyrir fjölskyldur með ung börn í hverfinu.

Til máls tekur bæjarfulltrúi Einar Birkir Einarsson. Til andsvars kemur bæjarfulltrúi Gunnar Axel Axelsson. Bæjarfulltrúi Einar Birkir Einarsson svarar andsvari. Gunnar Axel Axelsson kemur til andsvars öðru sinni.

Við fundarstjórn tekur 2. varaforseti Kristinn Andersen.

Til máls tekur bæjarfulltrúi Guðlaug Kristjánsdóttir.

Gunnar Axel Axelsson bæjarfulltrúi tekur til máls um fundarsköp.

Gunnar Axel Axelsson, bæjarfulltrúi kemur til andsvars. Bæjarfulltrúi Guðlaug Kristjánsdóttir svarar andsvari. Gunnar Axel Axelsson bæjarfulltrúi kemur til andsvars öðru sinni. Guðlaug Kristjánsdóttir, bæjarfulltrúi svarar andsvari öðru sinni. Til andsvars kemur Adda María Jóhannsdóttir, bæjarfulltrúi. Bæjarfulltrúi Guðlaug Kristjánsdóttir svarar andsvari. Til andsvars öðru sinni kemur Adda María Jóhannsdóttir bæjarfulltrúi. Guðlaug Kristjánsdóttir bæjarfulltrúi svarar andsvari öðru sinni. Adda María Jóhannsdóttir gerir stutta athugasemd. Bæjarfulltrúi Guðlaug Kristjánsdóttir gerir stutta athugasemd.

Til máls tekur bæjarfulltrúi Rósa Guðbjartsdóttir.

Við fundarstjórn tekur forseti Guðlaug Kristjánsdóttir.

Til andsvars kemur bæjarfulltrúi Gunnar Axel Axelsson. Bæjarfulltrúi Rósa Guðbjartsdóttir svarar andsvari. Til andsvars öðru sinni kemur Gunnar Axel Axelsson. Bæjarfulltrúi Rósa Guðbjartsdóttir svarar andsvari öðru sinni. Gunnar Axel Axelsson gerir stutta athugasemd. Rósa Guðbjartsdóttir gerir stutta athugasemd. Til andsvars kemur bæjarfulltrúi Adda María Jóhannsdóttir.

Til máls tekur bæjarfulltrúi Gunnar Axel Axelsson. Til andsvars kemur bæjarfulltrúi Einar Birkir Einarsson. Gunnar Axel Axelsson bæjarfulltrúi svarar andsvari. Til andsvars öðru sinni kemur bæjarfulltrúi Einar Birkir Einarsson. Gunnar Axel Axelsson, bæjarfulltrúi svarar andsvari öðru sinni.

Til máls tekur bæjarfulltrúi Sverrir Garðasson. Til andsvars kemur bæjarfulltrúi Einar Birkir Einarsson.

Til máls tekur málshefjandi Gunnar Axel Axelsson í þriðja sinn. Til andsvars kemur bæjarfulltrúi Rósa Guðbjartsdóttir. Bæjarfulltrúi Gunnar Axel Axelsson svarar andsvari.

Framkomin tillaga er borin undir atkvæði. Bæjarfulltrúi Gunnar Axel Axelsson óskar eftir nafnakalli.

Gunnar Axel Axelsson segir já
Helga Ingólfsdóttir segir nei
Kristinn Andersen segir nei
Ófeigur Friðriksson segir já
Ólafur Ingi Tómasson segir nei
Rósa Guðbjartsdóttir segir nei
Sverrir Garðarsson segir já
Unnur Lára Bryde segir nei
Adda María Jóhannsdóttir segir já
Einar Birkir Einarsson segir nei
Guðlaug Kristjánsdóttir segir nei

Rósa Guðbjarsdóttir bæjarfulltrúi leggur fram eftirfarandi bókun meirihluta Sjálfsstæðisflokks og Bjartrar framtíðar:
Meirihluti bæjarstjórnar hefur undanfarin misseri lagt megináherslu á að lækka innritunaraldur á leikskóla með varanlegum hætti og breyta reglum þar um í því skyni. Jafnframt hefur verið lögð áhersla á að leikskólagjöld hækki ekki og hafa þau verið óbreytt nú þriðja árið í röð. Þá hafa niðurgreiðslur vegna barna hjá dagforeldrum einnig verið auknar umtalsvert, fjölskyldum ungra barna í Hafnarfirði til mikilla hagsbóta.
Ákvarðanir um starfsstöðvar leikskóla voru teknar eftir ítarlega greiningu sem fram fór á vinnufundum fræðsluráðs, á fjölda barna á leikskólaaldri og leikskólaplássa í bænum, og hagkvæmniúttekt í aðdraganda fjárhagsáætlunar fyrir árið 2016.
Hafnarfjörður hefur verið skilgreindur sem eitt leikskólahverfi og eru næg pláss, fyrir börn á leikskólaaldri, til í bænum. Minnisblað sem lagt var fyrir síðasta fund fræðsluráðs, og var til umfjöllunar á þessum fundi, sýnir að Vallahverfið og Suðurbær eru með fæstu plássin miðað við fjölda barna á leikskólaaldri. Það er vilji meirihlutans að veita þjónustuna sem næst heimilum barna og niðurstöður minnisblaðsins verða nýttar til frekari ákvörðunar um aukna þjónustu í leikskólamálum í framtíðinni.