Breytingar í rekstri Hafnarfjarðarbæjar -samráð og lýðræðisleg vinnubrögð
Síðast tekið fyrir á fundi fyrir 8 árum síðan.
Bæjarstjórn nr. 1751
16. september, 2015
Annað
Fyrirspurn
Tillaga til bæjarstjórnar: Fulltrúar Samfylkingar og Vinstri grænna leggja til að við umfjöllun og vinnu við skoðun þeirra tillagna rekstrarúttektar sem ekki hafa verið settar í framkvæmd verði horft til aukins samráðs og lýðræðislegra vinnubragða. Við leggjum því til að settir verði á samráðshópar á hverju sviði með þátttöku fulltrúa starfsmanna, þjónustunotenda og hagsmunaaðila eftir því sem við á. Öll starfandi fagráð, þ.e. fræðsluráð, fjölskylduráð, skipulags- og byggingaráð og umhverfis -og framkvæmdaráð fái það verkefni að ákvarða hvaða aðilar skuli tilnefna fulltrúa í samráðshópana og gera tillögu um endanlega skipun þeirra til bæjarstjórnar. Hóparnir starfi í framhaldinu undir viðkomandi fagráði og skili greinargerð þangað með umsögn við hverja tillögu. Viðkomandi fagráði verði síðan falið að ljúka yfirferð tillagnanna og ákveða hverjar skuli sendar bæjarstjórn til afgreiðslu eða eftir atvikum forsetanefnd ef þær kalla á breytingar á samþykktum. Greinargerð: Fulltrúar Samfylkingar og Vinstri grænna hafa verið ósáttir við vinnubrögð þau sem viðhöfð hafa verið við rekstrarúttekt og meðferð meirihlutans á þeim tillögum sem komu frá ráðgjöfum sem hana unnu. Skort hefur á lýðræðislega umræðu og ekkert samráð verið haft, hvorki við sérfræðinga á viðkomandi sviðum, fagráð sveitarfélagsins né bæjarbúa. Það er þó enn ráðrúm til að gera bragabót á með því að taka þær tillögur sem ekki hafa enn verið settar í framkvæmd til lýðræðislegrar umfjöllunar. Til þess að svo megi verða er mikilvægt að hafa aðkomu starfsfólks sviðanna, þjónustunotenda og annarra hagsmunaaðila.
Svar

Adda María Jóhannsdóttir tók til máls, Guðlaug Kristjánsdóttir tók þá til máls og tók 1. varaforseti Elva Dögg Ásudóttir Kristinsdóttir við stjórn fundarins á meðan, Adda María Jóhannsdóttir kom að andsvari, Guðlaug Kristjánsdóttir svaraði andsvari, Adda María Jóhannsdóttir kom að andsvari öðru sinni.

Forseti Guðlaug Kristjánsdóttir tók við stjórn fundarins að nýju.

Rósa Guðbjartsdóttir tók þá til máls og lagði til að tillögunni yrði vísað til bæjarráðs.
Gunnar Axel Axelsson tók síðan til mál, Guðlaug Kristjánsdóttir kom að andsvari við ræðu Gunnars Axels Axelssonar og tók 1. varaforseti Elva Dögg Ásudóttir Kristinsdóttir við stjórn fundarins á meðan. Gunnar Axel Axelsson svaraði andsvari, Guðlaug Kristjánsdóttir kom að andsvari öðru sinni, Gunnar Axel Axelsson svaraði andsvari öðru sinni, Guðlaug Kristjánsdóttir kom að stuttri athugasemd. Kristinn Andersen kom einnig að andsvari við ræðu Gunnars Axels Axelssonar, Gunnar Axel Axelsson svaraði andsvari. Einar Birkir Einarsson kom sömuleiðis að andsvari við ræðu Gunnars Axels Axelssonar, Gunnar Axel Axelsson svaraði andsvari.

Guðlaug Kristjánsdóttir tók síðan til máls öðru sinni, Gunnar Axel Axelsson kom að andsvari, Guðlaug Kristjánsdóttir svaraði andsvari, Gunnar Axel Axelsson kom að andsvari öðru sinni, Guðlaug Kristjánsdóttir svaraði andsvari öðru sinni, Gunnar Axel Axelsson kom að stuttri aathugasemd.

Forseti Guðlaug Kristjánsdóttir tók við stjórn fundarins að nýju.

Adda María Jóhannsdóttir tók þessu næst til máls öðru sinni.

Einar Birkir Einarsson tók þá til máls.

Gert var fundarhlé kl. 16:37 - 17:12

Bæjarstjórn Hafnarfjarðar samþykkti með 7 samhljóða atkvæðum sð vísa fyrirliggjandi tillögu til bæjarráðs. Bæjarfulltrúar Samfylkingar og Vinstri grænna sitja hjá.

Gert var fundarhlé kl. 17:16 - 17:32

Gunnar Axel Axelsson lagði fram eftirfarandi bókun bæjarfulltrúa Samfylkingar og Vinstri grænna:

"Bæjarfulltrúar Samfylkingar og VG harma að meirihlutinn skuli ekki geta tekið undir framkomna tillögu. Með samþykkt hennar væri komið til móts við auknar og augljósar kröfur almennings um aukið lýðræði, samráð og virkt samtal um mikilvæg mál sem snerta líf og hagsmuni bæjarbúa.

Með samhljóða samþykkt tillögunnar hefði bæjarstjórn getað tekið jákvætt skref í átt til betri vinnubragða í bæjarstjórn þannig að allir kjörnir fulltrúar gætu unnið saman í þágu bæjarbúa.
Það er skylda okkar að skapa vettvang fyrir slíkt samtal við bæjarbúa, við fagfólk á ólíkum sviðum, við starfsfólk og stjórnendur og milli kjörinna fulltrúa. Út á það gengur nútíma lýðræði og framlög tillaga."

Gert var stutt fundarhlé.

Rósa Guðbjartsdóttir kom að eftirfarandi bókun bæjarfulltrúa Sjálfstæðisflokks og Bjartrar framtíðar:

"Bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokks og Bjartrar framtíðar ítreka það sem komið hefur fram á fundinum að tillögur ráðgjafa vegna rekstrarúttektar séu í faglegri og lýðræðislegri umfjöllun. Það er sá farvegur sem málið er statt í núna.
Úttektarskýrslurnar voru lagðar fyrir bæjarráð á fundi þann 16. júlí síðastliðinn. Sumar tillögur ráðgjafa eru í vinnslu í stjórnsýslu bæjarins og verður vísað til viðeigandi ráða eftir eftir eðli máls. Bæjarráð mun fara yfir stöðu tillagna á næsta fundi sínum og hvernig útfærslu og þær munu fá á komandi vikum.
Hvert og eitt ráð eða nefnd getur svo metið hvort víkka þarf út hefðbundinn samráðsvettvang (t.d. ráðgjafaráð í málefnum fatlaðra, áheyrnarfulltrúar foreldra í fræðsluráði, fulltrúar skólasamfélagsins o.s.frv.) í hverju máli fyrir sig.
Ákveðið var síðastliðið haust að fá utanaðkomandi aðila til að framkvæma rekstrarúttekt fyrir Hafnarfjarðarbæ. Þessi ákvörðun var tekin samhljóða í bæjarstjórn. Minnihluti bæjarstjórnar dró sig úr vinnu við yfirferð tillagna ráðgjafa þegar þær voru lagðar fram og koma nú fram með yfirlýsingar um ólýðræðsleg vinnubrögð sem ekki er fótur fyrir enda var haft fullt samráð við bæjarstjórn á öllum stigum málsins."