Uppsagnir starfsfólks, fyrirspurn fulltrúa Samfylkingar og VG
Síðast tekið fyrir á fundi fyrir 8 árum síðan.
Bæjarráð nr. 3412
16. júlí, 2015
Annað
Fyrirspurn
Lögð fram eftirfarandi beiðni bæjarfulltrúa Samfylkingar og Vinstri grænna um upplýsingar sem send var í tölvupósti 13. júlí sl. með ósk um svar sólarhring fyrir fund:
Hversu mörgum starfsmönnum hefur verið sagt upp eða verið tilkynnt um uppsögn í tengslum við þær skipulagsbreytingar sem meirihluti Bjartrar framtíðar og Sjálfstæðisflokks hafa boðað? Hvers vegna var starfsfólki aðeins tilkynnt munnlega um fyrirhugaðar uppsagnir en ekki með formlegum hætti? Hver er meðalaldur þeirra sem ákveðið hefur verið að segja upp störfum, flokkað eftir sviðum? Hversu margir af þeim sem ákveðið hefur verið að segja upp störfum eiga innan við 10 ár í áætluð starfslok, m.v. 67 ára lífaldur og/eða fullan rétt til töku lífeyris. Hver er meðalstarfsaldur þeirra sem ákveðið hefur verið að segja upp störfum, flokkað eftir sviðum? Hversu margir af þeim sem ákveðið hefur verið að segja upp störfum hafa starfað í 20 ára eða meira fyrir Hafnarfjarðarbæ? Hver er áætlaður heildarkostnaður vegna greiðslu biðlauna þeirra sem ákveðið hefur verið að segja upp störfum? Hver er áætlaður heildarkostnaður vegna greiðslu launa í uppsagnarfresti þeirra sem ákveðið hefur verið að segja upp störfum? Hvaða skipulagsbreytingar kalla á flutning starfsfólks á milli sviða og hvar hafa þær verið samþykktar?
Svar

Bæjarstjóri skýrði frá því að starfsmannamálin væru enn í vinnslu hjá bæjarstjóra, mannauðs- og sviðsstjórum og spurningunum yrði svarað þegar þau væru til lykta leidd.


Fulltrúar Samfylkingar og VG óska bókað:
Engin svör voru lögð fram á fundinum við spurningum bæjarfulltrúa til bæjarstjóra. Fulltrúar minnihlutans hafa ekki verið upplýstir um uppsagnirnar, umfang þeirra og framkvæmd, heldur hafa þeir þurft að lesa um þær í fjölmiðlum. Það erfitt að sjá hvernig kjörnir fulltrúar eiga að geta sinnt hlutverki sínu við slíkar aðstæður.
Á fundinum upplýstist að ekki lægi enn fyrir endanlegt umfang uppsagna og fjöldi þeirra sem færðir verða til í starfi. Engin greining liggur heldur fyrir um áætlaðan kostnað vegna breytinganna, m.a. vegna greiðslu launa í uppsagnarfresti og vegna biðlauna.
Engin svör komu fram um hvers vegna starfsfólki var aðeins tilkynnt munnlega um fyrirhugaðar uppsagnir en ekki með formlegum hætti.

Fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Bjartrar framtíðar óska bókað:
Aðkoma kjörinna fulltrúa að starfsmannamálum takmarkast í samræmi við samþykktir bæjarins við ráðningu bæjarstjóra og aðra starfsmenn í æðstu stjórnunarstöður. Komið hefur fram á fundinum að bæjarstjóri mun gera kjörnum fulltrúum grein fyrir stöðunni þegar hún liggur endanlega fyrir.