Fjárhagsáætlun Hafnarfjarðarkaupstaðar og fyrirtækja hans 2016
Síðast tekið fyrir á fundi fyrir 7 árum síðan.
Bæjarstjórn nr. 1757
9. desember, 2015
Annað
‹ 9
10
Fyrirspurn
1.liður úr fundargerð UMFRAM frá 2.des. sl. Fjárfestingaáætlun tekin fyrir að nýju.
Fulltrúar Samfylkingar og áheyrnarfulltrúi Vinstri grænna leggja fram eftirfarandi bókun: "Samkvæmt fjárfestingaáætlun á að hefja undirbúning að byggingu á íþróttahúsi á Ásvöllum strax á næsta ári. Áætlaðar eru 50 milljónir í það verkefni árið 2016 og stefnt er að því að húsið verði tekið í notkun árið 2017. Heildarkostnaður við þessa framkvæmd verður væntanlega á bilinu 350 - 400 milljónir en ekkert kostnaðarmat liggur þó fyrir. Á sama tíma leggur meirihlutinn til mikinn niðurskurð á fjármagni til leik- og grunnskólastarfs sem meðal annars birtist í lokun leikskóladeilda en einnig eru boðaðar hækkanir á matarverði til eldri borgara og hækkanir á húsleigu til öryrkja svo eitthvað sé nefnt. Fulltrúar minnihlutans í Umhverfis- og framkvæmdaráði gagnrýna þessa forgangsröðun verkefna af hálfu meirihlutans og leggja til að frekar verði forgangsraðað í þágu grunnþjónustu í bænum."
Fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Bjartrar framtíðar leggja fram eftirfarandi bókun: "Með fjárfestingaráætlun 2016 eru tekin mikilvæg skref til þess að hefja uppbyggingu innviða í bænum og þjónustu þar sem þörf er orðin brýn. Íþróttahús við Ásvelli mun nýtast sameiginlega í skólastarfi þriggja skólahverfa. Jafnframt er meginverkefni ársins 2016 að ljúka byggingu 4 deilda leikskóla við Bjarkavelli, sem fyrirhugað er að taka í notkun haustið 2016 og í undirbúningi er hönnun grunn- og leikskóla í Skarðshlíð, þar sem framkvæmdahraði mun fylgja uppbyggingu í hverfinu. Hönnun á nýju hjúkrunarheimili sem reist verður á Sólvangsreitnum er í undibúningi en gert er ráð fyrir að framkvæmdir hefjist haustið 2016. Fjármögnun nýs hjúkrunarheimilis er þríhliða samningur við ríkið og íbúðalánasjóð og kemur því ekki inn sem liður í fjárfestingaáætlun næsta árs. Í samgöngumálum verður lögð áhersla á að bæta hjólasamgöngur og gönguleiðir skólabarna og aldraðra auk þess sem undirbúningur á endurhönnun á Kaldárselsvegi og undirbúningur fyrir lagningu Ásvallabrautar heldur áfram. Umhverfismál fá aukið fjármagn þar sem í fyrsta skipti er sérstaklega ráðstafað fjármagni til fjárfestinga í umhverfispott sem síðan verður úthlutað úr til verkefna sem tengjast uppbyggingu á opnum svæðum og öðrum verkefnum sem auka lífsgæði íbúa hvað varðar hreyfingu og útivist."
Umhverfis- og framkvæmdaráð samþykkir fyrirliggjandi fjárfestingaráætlun með 3 samhljóða atkvæðum og vísar henni til afgreiðslu í bæjarstjórn.
Fulltrúar Samfylkingar sitja hjá við afgreiðslu málsins.

6.liður úr fundargerð bæjarstjórnar frá 28.okt. sl. 3.liður úr fundargerð BÆJH frá 22.okt. sl. Rósa Steingrímsdóttir sviðsstjóri fjármálasviðs kom á fundinn.
Bæjarráð vísar fyrirliggjandi fjárhagsáætlun bæjarsjóðs Hafnarfjarðar og stofnana hans 2016 til fyrri umræðu í bæjarstjórn.
Gunnar Axel Axelsson kvaddi sér hljóðs undir fundarstjórn forseta. Gunnar Axel Axelsson lagði til að fresta umræðu um fjárhagsáætlun um viku. Fundarhlé gert kl. 17:50 Fundi framhaldið kl. 18:18
Forseti bar upp þá dagskrártillögu að fresta umræðu um fjárhagsáætlun um viku. Óskað var eftir nafnakalli: Gunnar Axel Axelsson já Adda María Jóhannsdóttir já Einar Birkir Einarsson nei Helga Ingólfsdóttir nei Kristinn Andersen nei Ófeigur Friðriksson já Ólafur Ingi Tómasson nei Skarphéðinn Orri Björnsson nei Sverrír Garðarson já Unnur Lára Bryde nei Guðlaug Kristjánsdóttir nei
Framkomin dagskrártillaga var felld með 7 atkvæðum gegn 4.
Haraldur L. Haraldsson bæjarstjóri tók til máls. Ófeigur Friðriksson tók til máls og lagði fram bókun fulltrúa minnihlutans: Fulltrúar minnihlutans lögðu til á fundi bæjarstjórnar þann 16. september sl. að settir yrðu á samráðshópar á hverju sviði með þátttöku fulltrúa starfsmanna, þjónustunotenda og hagsmunaaðila til að yfirfara tillögur ráðgjafafyrirtækjanna sem ráðin voru til þess að gera úttekt á rekstri bæjarins. Markmiðið með tillögunni var að tryggja almenna og lýðræðislega umfjöllun og auka samráð um gerð fjárhagsáætlunar. Þeirri tillögu höfnuðu fulltrúar meirihlutans.
Með því að leggja fram áætlun sem enga umfjöllun hefur fengið í þeim ráðum og nefndum sem fara með viðkomandi málaflokka og takmarka alla upplýsingagjöf til bæjarstjórnar og um leið bæjarbúa teljum við augljóst að meirihluti Bjartrar framtíðar og Sjálfstæðisflokks ætli að koma í veg fyrir eðlilega og lýðræðislega umræðu um stefnumótun í málefnum sveitarfélagsins.
Með vinnubrögðum sínum gerir meirihlutinn undirrituðum bæjarfulltrúum ókleift að taka þátt í umræðunni og gegna þeim skyldum sem við erum kjörin til, m.a. til aðhalds og eftirlits.
Undir þetta rita: Gunnar Axel Axelsson Adda María Jóhannsdóttir Sverrir Garðarsson Ófeigur Friðriksson
Haraldur L. Haraldsson bæjarstjóri kom í andsvar. Kristinn Andersen 2. varaforseti tók við stjórn fundarins. Guðlaug Kristjánsdóttir tók til máls. Guðlaug Kristjánsdóttir tók við stjórn fundarins á ný. Sverrir Garðarson tók til máls. Kristinn Andersen tók til máls og lagði fram bókun fulltrúa Sjálfstæðisflokks og Bjartrar framtíðar: Drög að fjárhagsáætlun hafa verið unnin af kostgæfni og eru nú lögð fram tímanlega eins og lög gera ráð fyrir. Sérstaklega er starfsfólki Hafnarfjarðarbæjar þökkuð mikil og góð undirbúningsvinna fyrir þau drög sem liggja fyrir. Nú taka kjörnir fulltrúar við frekari vinnslu og gerð endanlegrar fjárhagsáætlunar, í nefndum og ráðum bæjarins, sem ljúka skal fyrir miðjan desember. Á þeim tíma mun m.a. bæjarstjóri boða til íbúafundar í Hafnarfirði til að ræða og fara yfir rekstur og fjárhag bæjarins. Gott svigrúm gefst því fyrir þá vinnu sem nú fer í hönd.

Sverrir Garðarson tók til máls. Haraldur L. Haraldsson bæjarstjóri tók til máls. Sverrir Garðarson kom í andsvar.
Bæjarstjórn samþykkir að vísa fyrirliggjandi fjárhagsáætlun Hafnarfjarðarkaupstaðar og fyrirtækja hans 2016 til síðari umræðu með 7 atkvæðum, 4 sitja hjá.
Tillaga til bæjarstjórnar: Bæjarfulltrúar Samfylkingar og VG leggja til að tillaga um lokun starfsstöðvar Brekkuhvamms við Hlíðarbraut verði dregin til baka og þess í stað fundnar leiðir til að fækka plássum í hverfum sem betur þola slíka framkvæmd. Með því móti myndu sparast um 30 milljónir króna á ársgrundvelli, sem er sá hluti áætlaðs 43 milljóna króna sparnaðar sem tengist fækkun leikskólaplássa og er óháð því hvar sú fækkun á sér stað. Þannig væri komið í veg fyrir þá þjónustuskerðingu sem fækkun leikskólaplássa mun að óbreyttu hafa í för með sér og komið til móts við eindregnar óskir foreldra í Suðurbæ um að frekar verði unnið að því að fjölga leikskólaplássum í þeim bæjarhluta en fækka þeim. Þá verði jafnframt unnið að áætlun um byggingu nýs leikskóla við Öldugötu í samræmi við gildandi skipulag svæðisins og skilgreinda þörf fyrir aukin fjölda leikskólaplássa í Suðurbæ.
.
Svar

Helga Ingólfsdóttir bæjarfulltrúi vék af fundi kl. 18:30 og í hennar stað kemur Pétur Gautur Svavarsson varabæjarfulltrúi.

Til máls tekur Rósa Guðbjartsdóttir bæjarfulltrúi og lagði fram breytingartillögur bæjarfulltrúa Bjartar framtíðar og Sjálfstæðisflokks á fjárhagsáætlun:

Þús.kr.
A hluti
Tillögur
Lækkun tekna v/matur aldraðra, skv.tillögu fjölskylduráðs 13.900
Íþróttasamningar, hækkun vegna endurskoðunar samninga 10.000
Innri endurskoðun 2.500
Aukið framlag til jólaþorps vegna raunkostnaðar í ár 2.000
Samstarf sveitarfélaga, nýr samn.samþ. í Bæjarráði 500
Endurreiknað og/eða leiðréttingar
Laun endurreiknuð í kjölfar kjarasamninga -71.644
Fasteignagjöld endurreiknuð í álagningarkerfi 4.552
Afsláttur fasteignagjalda endurreiknaður í álagningarkerfi 12.000
Rekstur á spjaldtölvum, vantaði í fyrri umræðu 2.600
Ýmsar smávægilegar leiðréttingar, innsláttur ofl. 4.890
Fjárfesting Bláfjallasvæði, vantaði í fyrri umræðu 4.823
Tekjur vegna safna -1.000
Vaxtaútreikningur endurreiknað 2.874
A hluti samtals, hækkun -12.005

B hluti
Endurreiknað og/eða leiðréttingar
Vaxtagjöld og verðbætur endurreiknað -30.868
Laun endurreiknuð og færð launahækkun Höfnin 6.760
Höfnin, leiðrétt yfirfærsla frá áætlunarskjali Hafnarinnar -17.460
Ýmsar smávægilegar leiðréttingar 544
B hluti samtals, hækkun -41.024

Alls mismunur milli umræðna, hækkun -53.029



Til máls tekur Gunnar Axel Axelsson bæjarfulltrúi. Adda María Jóhannsdóttir 1. varaforseti tók við fundarstjórn. Guðlaug Kristjánsdóttir forseti tók við fundarstjórn. Haraldur L. Haraldsson bæjarstjóri kom að andsvari. Gunnar Axel Axelsson, bæjarfulltrúi svarar andsvari. Adda María Jóhannsdóttir 1. varaforseti tók við fundarstjórn. Guðlaug Kristjánsdóttir bæjarfulltrúi tók til máls. Til andsvars kom Gunnar Axel Axelsson, bæjarfulltrúi. Guðlaug Kristjánsdóttir, bæjarfulltrúi svaraði andsvari. Til andsvars öðru sinni kemur Gunnar Axel Axelsson bæjarfulltrúi. Guðlaug Kristjánsdóttir bæjarfulltrúi svaraði andsvari öðru sinni. Gunnar Axel Axelsson bæjarfulltrúi kom með stutta athugasemd. Guðlaug Kristjánsdóttir forseti tók við fundarstjórn. Adda María Jóhannsdóttir, bæjarfulltrúi tók til máls. Til andsvars kemur bæjarfulltrúi Ólafur Ingi Tómasson. Adda María Jóhannsdóttir bæjarfulltrúi svarar andsvari. Til andsvars öðru sinni kemur Ólafur Ingi Tómasson. Adda María Jóhannsdóttir svarar andsvari öðru sinni. Ólafur Ingi Tómasson gerði stutta athugasemd. Adda María Jóhannsdóttir gerði stutta athugasemd. Einar Birkir Einarsson, bæjarfulltrúi tók til máls. Til andsvar kom bæjarfulltrúi Gunnar Axel Axelsson. Svar við andsvari veitir bæjarfulltrúi Einar Birkir Einarsson. Til andsvars öðru sinni kemur bæjarfulltrúi Gunnar Axel Axelsson. Svar við andsvari veitir Einar Birkir Einarsson öðru sinni. Gunnar Axel Axelsson kemur með stutta athugasemd. Einar Birkir Einarsson kemur með stutta athugasemd. Adda María Jóhannsdóttir kemur til andsvars. Einar Birkir Einarsson svarar andsvari. Adda María Jóhannsdóttir svarar andsvari öðru sinni. Adda María Jóhannsdóttir 1. varaforseti tók við fundarstjórn. Sverrir Garðarsson, bæjarfulltrúi kemur til andsvars. Ófeigur Friðriksson bæjarfulltrúi tekur til máls. Guðlaug Kristjánsdóttir forseti tók við fundarstjórn. Ólafur Ingi Tómasson, bæjarfulltrúi tók til máls. Gunnar Axel Axelsson bæjarfulltrúi tók til máls. Til máls tekur Haraldur L. Haraldsson bæjarstjóri. Gunnar Axel Axelsson kom til andsvars. Haraldur L. Haraldsson bæjarstjóri svaraði andsvari. Gunnar Axel Axelsson kom til andsvars öðru sinni. Haraldur L. Haraldsson, bæjarstjóri svaraði andsvari öðru sinni. Sverrir Garðarsson bæjarfulltrúi kom til andsvars. Haraldur L. Haraldsson, bæjarstjóri svaraði andsvari. Adda María Jóhannsdóttir kom til andsvars. Kristín María Thoroddsen tók til máls. Adda María Jóhannsdóttir kom í andsvar. Kristín María Thoroddsen svarar andsvari. Gunnar Axel Axelsson kom til andsvars. Kristín María Thoroddsen svarar andsvari.
Til máls tekur Einar Birkir Einarsson og leggur fram eftirfarandi tillögu vegna leikskóla í Suðurbæ "Bæjarstjórn Hafnarfjarðarbæjar samþykkir að vísa því til fræðsluráðs að setja á stað vinnu sem felst í úttekt leikskólamála í Öldutúnsskólahverfinu, þar sem farið verði yfir þörf á leikskóla í þessum bæjarhluta meta þá kosti sem mögulegir eru í leikskólamálum í hverfinu."
Gunnar Axel Axelsson kemur til andsvars. Einar Birkir Einarsson svarar andsvari. Til andsvars öðru sinni kemur Gunnar Axel Axelsson. Gunnar Axel Axelsson kom í pontu og ræddi fundarstjórn. Einar Birkir Einarsson kom í pontu og ræddi fundarstjórn. Gunnar Axel Axelsson kom í pontu og ræddi fundarstjórn. Til máls tekur Einar Birkir Einarsson og dregur tillögu sína til baka.

Borin er upp til atkvæða tillaga bæjarfulltrúa Samfylkingar og VG um breytingu á fjárhagsáætlun. Bæjarfulltrúar minnihluta óska eftir nafnakalli við atkvæðagreiðsluna.
Kristín Thoroddsen nei
Ófeigur Friðriksson já
Ólafur Ingi Tómasson nei
Pétur Gautur Svavarsson nei
Rósa Guðbjartsdóttir nei
Sverrir Garðarsson já
Unnur Lára Bryde nei
Adda María Jóhannsdóttir gerir grein fyrir atkvæði sínu segir já
Einar Birkir Einarsson gerir grein fyrir atkvæði sínu, segir nei
Guðlaug Kristjánsdóttir nei
Gunnar Axel Axelsson gerir grein fyrir atkvæði sínu, segir já

Tillagan er felld með 7 atkvæðum gegn 4.

Borin er upp til atkvæða tillaga bæjarfulltrúa Bjartrar framtíðar og Sjálfstæðisflokks til breytinga á fjárhagsáætlun.

Samþykkt með 7 atkvæðum 4 sátu hjá.

Fjárhagsáætlun 2016 með breytingum borin upp til atkvæða og er samþykkt með 7 atkvæðum gegn 4.

Fjárhagsáætlun til 3ja ára, 2017 til 2019 samþykkt með 7 atkvæðum gegn 4.

Til máls tekur Rósa Guðbjartsdóttir og leggur fram eftirfarandi bókun bæjarfulltrúa Bjartrar framtíðar og Sjálfstæðisflokks:

"Bjartari tímar framundan
- miklar umbætur í rekstri
Fjárhagsáætlun Hafnarfjarðarbæjar fyrir árin 2016 - 2019 ber þess merki að mikill viðsnúningur er að verða í rekstri sveitarfélagsins. Umbætur sem staðið hafa yfir í kjölfar rekstrarúttektar undanfarna mánuði eru að skila góðum árangri og gangi þessi áætlun eftir er ljóst að búið er að ná tökum á erfiðri fjárhagsstöðu bæjarins og bjartara framundan á komandi árum.

Í frumvarpinu er lögð áhersla á ábyrga fjármálastjórn, óbreytt þjónustustig og forgangsröðun í þágu barnafjölskyldna í bænum. Markmiðið er að Hafnarfjörður sé ábyrgur, aðgengilegur og áhugaverður framtíðarbær.

Helstu niðurstöður fjárhagsáætlunar 2016
Hafnarfjörður er þriðja stærsta sveitarfélag landsins með heildarútgjöld upp á um 21,9 milljarða króna. Áætluð laun og launatengd gjöld eru um 10,6 milljarðar króna og fjármagnskostnaður um 2,1 milljarður króna, eða sem nemur 9,6% af heildartekjum sveitarfélagsins.

Rekstrarniðurstaða A og B hluta er jákvæð um 361 milljónir króna og rekstrarniðurstaða A hluta jákvæð um 14,9 milljónir króna sem er viðsnúningur frá áætlun fyrra árs þar sem niðurstaðan var neikvæð um 333 milljónir króna.

Heildareignir samstæðunnar eru áætlaðar um 47,9 milljarðar króna í árslok 2016. Skuldir og skuldbindingar eru áætlaðar um 40,3 milljarðar króna og eigið fé um 7,6 milljarðar króna
Áætlað veltufé frá rekstri A hluta er um 2,4 milljarðar króna og samantekið fyrir A og B hluta 3,3 milljarðar króna sem er tæplega 15% af heildartekjum.

Á árinu 2016 er ráðgert að greiða niður eldri lán og skuldbindingar sem nemur 600-800 milljónum króna
Áætlaðar fjárfestingar á árinu eru 925 milljónir króna og áætluð sala iðnaðarlóða fyrir 200 milljónir króna

Fjölskylduvænar áherslur:
Fjárheimild vegna fræðslu- og uppeldismála hækkar um 644 milljónir króna á milli ára eða um 7%, og til æskulýðs- og íþróttamála um 136 milljónir króna, þar vega þyngst áhrif kjarasamninga. Leikskólagjöld verða óbreytt annað árið í röð og skref tekin í lækkun inntökualdurs barna með breyttum innritunarreglum. Fjárveiting vegna niðurgreiðslu vegna íþrótta- og tómstundaiðkunar barna aukin og heimilt verður í fyrsta sinn að nýta niðurgreiðslur vegna ástundunar utan bæjarmarkanna. Áframhaldandi áhersla verður á bættan námsárangur í læsi og stærðfræði auk þess sem áframhaldandi tæknivæðing mun eiga sér stað í leik- og grunnskólum. Laun til nemenda í Vinnuskólanum hækka sem nemur um 13%.

Fjárfestingar aukast úr 750 milljónum króna í 928 milljónir króna milli ára. Auk þess er gert ráð fyrir að hefja undirbúning að framkvæmdum nýs grunnskóla á Völlum og byggingu hjúkrunarheimilis við Sólvang.

Áætlunin sem hér er lögð fram er ábyrg, hagsýn og horfir til framtíðar. Í henni er lagður grunnur að fjárhagslegri endurreisn sveitarfélagsins sem bæjarbúar munu njóta góðs af."

Fundarhlé gert kl. 00:54, fundi framhaldið kl. 01:15.

Til máls tekur Gunnar Axel Axelsson og leggur fram eftirfarandi bókun bæjarfulltrúa Samfylkingar og VG:

"Skorið niður í grunnþjónustu
Bæjarfulltrúar Samfylkingar og VG fagna því sem fram kemur í fjárhagsáætlun næsta árs og staðfestir þann viðsnúning sem varð á fjármálum sveitarfélagsins á síðasta kjörtímabili undir forystu Samfylkingar og Vinstri grænna.

Átakalínurnar í bæjarstjórn Hafnarfjarðar í dag snúast fyrst og fremst um ólíka forgangsröðun flokkanna. Meirihluti Bjartrar framtíðar og Sjálfstæðisflokks fer fram með markvissann niðurskurð í grunnþjónustu með lokun leikskóla og leikskóladeilda, fækkun leik- og grunnskólakennara, fækkun starfsfólks í félagsþjónustu, hækkun á húsaleigu til fatlaðs fólks og niðurskurð í félagsþjónustu á sama tíma og byggingu hjúkrunarheimils er frestað en lagt til að ráðist verði í byggingu og rekstur nýrra íþróttamannvirkja upp á hundruð milljóna króna. Þá er gert ráð fyrir nýjum samningum við íþróttafélögin sem í einstökum tilvikum munu leiða til verulegrar hækkunar á beinum fjárframlögum.

Vegið að starfsemi leik- og grunnskóla
Í fjárhagsáætlun meirihlutans er verulega vegið að leik- og grunnskólum með niðurskurði. Lagt er til að almenn kennsluúthlutun í leikskólum lækki um 67%. Í reynd þýðir það fækkun um sem nemur 7,8 stöðugildum í kennslu á leikskólastigi. Þá er gert ráð fyrir 1,8 stöðugilda fækkun í eldhúsum leikskóla. Sömuleiðis verður starfsfólki í afleysingum í leikskólum fækkað umtalsvert eða um 5,6 stöðugildi.

Gert er ráð fyrir að dregið verði úr kennsluúthlutun í grunnskólum bæjarins um 3%. Í reynd þýðir það fækkun kennara sem nemur 13 stöðugildum strax frá næsta hausti.

Ómögulegt er að sjá hvernig þessu verði náð án þess að skerða þjónustu við leik- og grunnskólabörn.

Þá verður þróunarsjóður leik- og grunnskóla skorin niður um 60 milljónir króna sem jafngildir yfir 50% niðurskurði á milli ára.
Með aðgerðum meirihlutans er í reynd verið að skafa og skera í leik- og grunnskólaþjónustu allra bæjarbúa en ekki er hróflað við einkareknu skólunum. Bærinn er því ekki að efla aðgengi og umfram allt jafnrétti til náms á leik- og grunnskólastigi á meðan grunnþjónusta sem allir bæjarbúar geta gert tilkall til er skert.

Fjórum leikskólaúrræðum lokað á árinu 2015
Á árinu 2015 hefur meirihluti Sjálfstæðisflokks og Bjartrar framtíðar lokað fjórum leikskólaúrræðum. Ungbarnaleikskólanum Bjarma var lokað fyrr á árinu og 5 ára deild í Hvaleyrarskóla einnig. Með þeirri fjárhagsáætlun sem hér liggur fyrir hefur meirihlutinn nú einnig tekið ákvörðun um að loka starfsstöð Brekkuhvamms við Hlíðarbraut og Kaldárselsdeild Víðivalla. Á sama tíma og aukin krafa er um að inntökualdur á leikskóla verði lækkaður hefur núverandi meirihluti því farið í stórfelldar lokanir á leikskóladeildum í stað þess að nýta þau pláss sem fyrir hendi eru til að stíga frekari skref í lækkun inntökualdurs eins og fulltrúar Samfylkingar og Vinstri grænna hafa margsinnis lagt til.

Fulltrúar minnihlutans fagna því þó að dregið hafi verið úr boðaðri hækkun á fæðisgjaldi í leik- og grunnskólum þannig að í stað 8,1% hækkunar mun fæðisgjaldið hækka um 4,5% í samræmi við almenna verðlagshækkun.

Óvissa um nýtt hjúkrunarheimili
Eins og staðan er í dag sker Hafnarfjörður sig úr í samanburði við önnur sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu þegar kemur að aðbúnaði þeirra sem búa á hjúkrunarheimilum og getur ekki boðið bæjarbúum heimili sem stenst þær opinberu kröfur sem gerðar eru í dag. Þrátt fyrir margra ára undirbúningsvinnu og umtalsverða fjárfestingu ákvað nýr meirihluti Bjartrar framtíðar og Sjálfstæðisflokks að fórna þeirri mikilvægu sátt sem myndast hafði um byggingu nýs hjúkrunarheimilis á Völlum og setja verkefnið á byrjunarreit. Ekki liggur fyrir ný kostnaðaráætlun sem tekur mið af þróun byggingakostnaðar og breyttum aðstæðum á byggingamarkaði.Ef haldið hefði verið áfram með byggingu nýs Hjúkrunarheimilis samkvæmt þeirri hönnun sem var lokið snemma árs 2014 væri stefnt að opnun þess í byrjun næsta árs.

Í fjárhagsáætlun er gert ráð fyrir byggingu nýs íþróttahúss á Ásvöllum og að verkefnið hefjist strax á næsta ári. Engin umræða hefur farið um það í bæjarstjórn hvort ráðast eigi í umrædda fjárfestingu eða forgangsröðun framkvæmda almennt. Í fjárhagsáætlun meirihlutans er gert ráð fyrir að verja 350 miljónum króna til verkefnisins sem á að vera lokið á árinu 2017. Engin kostnaðaráætlun fyrir verkefnið liggur þó fyrir.

Þá er gert ráð fyrir sérstakri 40 milljóna króna aukafjárveitingu vegna nýs gervisgrass á Ásvöllum en kostnaðaráætlun vegna verkefnisins sem kynnt var fyrir um ári síðan hljóðaði upp á 65 milljónir króna. Endanlegur kostnaður við lagningu nýs gervigrass á Ásvöllum er því nú áætlaður 105 milljónir króna. Einnig er áætlað að veita 140 milljónum króna til endurnýjunar gervigrass í Kaplakrika á næstu þremur árum.

Dregið úr hækkun á heimsendum mat aldraðra og öryrkja
Fulltrúar minnihlutans fagna því að meirihlutinn hafi að miklu leyti fallið frá áður boðaðri hækkun á heimsendum mat til aldraðra og öryrkja en við höfum gagnrýnt þær fyrirætlanir harðlega. Í stað 63% hækkunar sem boðuð var í lok október sl. er gerð tillaga um að þjónustan hækki í samræmi við almenna verðlagsbreytingu að viðbættri verðlagsbreytingu síðasta ár, eða um 8,6%.

Fallið frá aukinni skerðingu afsláttar aldraðra og öryrkja af fasteignasköttum
Fulltrúar minnihlutans fagna því jafnframt að meirihlutinn hafi tekið mark á gagnrýni minnihlutans og fallið frá þeirri tillögu að skerða tekjuviðmið sem notuð eru til að ákvarða rétt aldraðra og öryrkja til afsláttar af fasteignasköttum. Tekjuviðmiðin voru eingöngu hækkuð um 2.7% á árinu 2015 og tillaga meirihlutans gerði ráð fyrir að viðmiðin myndu aðeins hækka um 4,5% sem er umtalsvert minna en sem nemur almennum hækkunum launa. Þetta hefur leitt til þess að viðmiðin hafa lækkað að raungildi og þeim sem eiga rétt til afsláttar fækkað samsvarandi. Með sameiginlegri breytingatillögu minnihluta- og meirihluta var brugðist við þessu og réttur aldraðra og öryrkja færður til samræmis við það sem eðlilegt og sanngjarnt getur talist.
Rangfærslur um fjárhag bæjarins

Ljóst er með þeirri fjárhagsáætlun sem lögð hefur verið fram og samþykkt af fulltrúum meirihlutans í bæjarstjórn Hafnarfjarðar í dag að sú mynd sem fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Bjartrar framtíðar hafa reynt að draga upp af slæmri fjárhagsstöðu bæjarins á ekki við rök að styðjast. Framlögð tillaga og útkomuspá fyrir árið 2015 staðfestir að þær áætlanir sem gerðar voru af fyrri meirihluta og byggja m.a. á markvissri hagræðingu í rekstri á síðasta kjörtímabili, forgangsröðun í þágu grunnþjónustu og farsælli endurfjármögnun langtímalána eru að ganga eftir í öllum aðalatriðum og leggja grunn að lækkun skulda og jákvæðum framtíðarhorfum í rekstri sveitarfélagsins. Það verkefni hefði eflaust reynst bæjarstjórn auðveldara á síðasta kjörtímabili ef Sjálfstæðisflokkurinn hefði tekið þátt í því og sýnt bænum og bæjarbúum stuðning. Þeim stuðningi var hins vegar hvergi til að dreifa.

Órökstuddar og tilhæfulausar fullyrðingar formanns bæjarráðs nú í fjölmiðlum um yfirvofandi milljarða halla á rekstri bæjarins á næsta ári vekja einnig óneitanlega upp spurningar um á hvaða vegferð meirihlutinn er í sínum málflutningi varðandi fjármál bæjarins. Það er erfitt að sjá hvernig það getur þjónað hagsmunum Hafnarfjarðarbæjar og bæjarbúa að draga þannig markvisst upp óraunsæja og ósanna mynd af fjárhagslegum málefnum bæjarins og framtíðarhorfum. Tilgangurinn er augljóslega sá að reyna að eigna nýjum meirihluta árangur síðustu ára og þann viðsnúning sem varð í rekstri Hafnarfjarðarbæjar á árunum 2011-2013. Slík pólitík dæmir sig þó sjálf."

Næsti fundur bæjarstjórnar verður 20. janúar 2016, kl. 16:00.

Forseti óskar bæjarfulltrúum og bæjarbúum gleðilegra jóla.