Ársreikningur bæjarsjóðs Hafnarfjarðar og fyrirtækja hans 2014 - síðari umræða
Síðast tekið fyrir á fundi fyrir 9 árum síðan.
Bæjarstjórn nr. 1744
29. apríl, 2015
Annað
‹ 7
8
Fyrirspurn
2. liður úr fundargerð BÆJH frá 13. apríl sl. Lögð fram drög að ársreikngur bæjarsjóðs Hafnarfjarðar og fyrirtækja hans árið 2014. Fjármálastjóri mætti á fundii og fór yfir ársreikninginn. Bæjarráð vísar fyrirliggjandi drögum að ársreikningi til fyrri umræðu í bæjarstjórn. Bæjarstjóri Haraldur L. Haraldsson tók til máls, þá Guðrún Ágústa Guðmundsdóttir, Rósa Guðbjartsdóttir og Adda María Jóhannsóttir.
Bæjarstjórn Hafnarfjarðar samþykkti með 11 samhljóða atkvæðum að vísa ársreikningnum til síðari umræðu.
Ársreikningur bæjarsjóðs Hafnarfjarðar og fyrirtækja hans 2014 tekinn til síðari umræðu ásamt framlagðri endurskoðunarskýrslu KPMG endurskoðenda bæjarins.
Svar

Bæjarstjóri Haraldur L. Haraldsson tók til máls, þá Gunnar Axel Axelsson, síðan bæjarstjóri Haraldur L. Haraldsson, þá Gunnar Axel Axelsson og bæjartjóri Haraldur L. Haraldsson.

Guðlaug Kristjánsdóttir tó þessu næsti til máls og tók 2. varaforseti Kristinn Andersen við stjórn fundarins á meðan.

Guðlaug Kristjánsdótir tók við stjórn fundarins að nýju.

Rósa Guðbjartsdóttir tók síðan til máls, þá Einar Birkir Einarsson og Helga Ingólfsdóttir.

Rósa Guðbjartsdóttir tók þessu næst til máls og lagði fram eftirfaraandi bókun bæjarfulltrúar Sjálfsstæðisflokks og Bjartrar framtíðar:

Fjárhagsstaðan þröng - aðhaldsaðgerða þörf

Ársreikningur Hafnarfjarðarbæjar fyrir árið 2014 sýnir að fjárhagsstaða sveitarfélagsins er áfram erfið og að mikilvægt er að minnka útgjöld og greiða niður skuldir. Rekstarniðurstaða ársins, A- og B-hluta, var jákvæð um einungis 76 milljónir króna, sem er ekki í samræmi við aðlögunaráætlun sem gerð var með samningi við eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga. Þetta getur haft þau áhrif að vextir hækki tímabundið þar sem veltufé frá rekstri nær ekki þeim viðmiðunum sem sett voru sem skilyrði í samningum um endurfjármögnun erlendra lána. Rekstrarniðurstaða A-hluta var neikvæð um 492 millj. kr. Samanborið við að fjárhagsáætlun gerði ráð fyrir jákvæðri niðurstöðu að upphæð 216 millj. kr.

Rekstrarniðurstaða ársins var jákvæð um 76 milljónir króna en áætlun gerði ráð fyrir rekstrarafgangi að fjárhæð 619 milljónir. Þetta frávik má m.a. rekja til hækkunar á lífeyrisskuldbindingu sveitarfélagsins, um 928 milljónir króna, sem er 515 milljónir umfram áætlun. Einnig hefur ráðgjafa- og lántökukostnaður vegna endurfjármögnunar, alls 156 milljónir króna, sem ekki var gert ráð fyrir í áætlunum, áhrif á niðurstöðuna.

Óvenjulegir liðir eru gjaldfærsla vegna niðurstöðu dóms Hæstaréttar frá 5. mars 2015 að sveitarfélaginu beri að greiða ríkinu fjármagnstekjuskatt 15% en ekki 10% eins og gert hafði verið ráð fyrir í reikningum sveitarfélagsins auk vaxta vegna sölu á eignarhlut í HS Orku hf. á árinu 2008 að fjárhæð 333 milljóna króna.

Tekjur námu 19.648 milljónum króna sem er 418 milljónum umfram áætlun. Laun og launatengd gjöld eru stærsti útgjaldaliður sveitarfélagsins og námu 9.985 milljónum króna sem er 442 milljónum krónum hærri en áætlun gerði ráð fyrir. Annar kostnaður var 7.163 milljónir sem er 230 milljónum króna umfram áætlun. Hagnaður fyrir fjármagnsliði og óreglulega liði nam 1.634 milljónum króna. Fjármagnsliðir námu 1.226 milljónum króna sem er 67 milljónum umfram áætlun. Veltufé frá rekstri nam um 1.593 milljónum króna sem er 478 milljónum lægra en áætlun gerði ráð fyrir.
Rekstur málaflokka gekk vel og var í takt við áætlun. Stjórnendur stofnana eiga hrós skilið fyrir hvernig til hefur tekist við að halda fjárhagsáætlunum. Stærsti málaflokkurinn er fræðslu- og uppeldismál en til hans var varið um 8.748 milljónum króna. Til félagsþjónustu var varið um 2.637 milljónum króna og til æskulýðs- og íþróttamála var varið um 1.599 milljónum króna. Heildareignir í lok árs námu samtals 48.198 milljónum króna og hafa þær lækkað um 285 milljónir milli ára og heildarskuldir og skuldbindingar námu samtals 39.766 milljónum króna.

Endurskoðendur reikninga bæjarins vekja sérstaka athygli á veltufjárhlutfalli og skuldastöðu sveitarfélagsins og er mikilvægt að taka þeim ábendingum alvarlega. Neikvæð rekstrarniðurstaða A-hluta bæjarsjóðs upp á 492 milljónir króna og veltufjárhlutfall 0,23% er óásættanlegt. Einnig eru fjármagnsgjöld verulega íþyngjandi en þau nema 6,2% af tekjum sveitarfélagsins, eða um 1.2 milljarði króna, sem er afar hátt hlutfall. Meirihluti Sjálfstæðisflokks og Bjartrar framtíðar telur að góðar forsendur séu fyrir því að snúa fjármálum bæjarins til betri vegar verði rétt að málum staðið og tekið á hlutunum af ábyrgð og festu. Meðal annars er mikilvægt að styrkja stoðirnar, laða að fyrirtæki og íbúa til að auka umsvif og þar með tekjur bæjarins. Stærsta viðfangsefnið í stjórnun sveitarfélagsins á næstunni verður þó að ná betri tökum á útgjöldum og niðurgreiðslu skulda. Vonir eru bundnar við að rekstrarúttekt á stofnunum bæjarins og tillögur í kjölfar hennar muni hafa jákvæð áhrif á fjárhag Hafnarfjarðarbæjar til framtíðar. Mikilvægt er að skapa svigrúm til lækkunar á gjöldum og álögum sveitarfélagsins, viðhalda eða auka þjónustu og hefja uppbyggingu fyrir eigið fé til hagsbóta fyrir bæjarbúa alla."

Rósa Guðbjartsdóttir
Kristinn Andersen
Skarphéðinn Orri Björnsson
Kristín Thoroddsen
Helga Ingólfsdóttir
Guðlaug Kristjánsdóttir
Einar Birkir Einarsson

Gunnar Axel Axelsson tók þá til máls og lagði fram eftirfarandi bókun bæjarfulltrúa Samfylkingar og Vinstri hreyfingarinnar græns framboða:

"Ársreikningur ársins 2014 staðfestir þann mikla árangur sem náðst hefur í rekstri bæjarins eftir efnahagshrun. Lykilinn að þeim árangri er markviss fjármálastjórn síðustu ára, farsæl endurfjármögnun og heildarendurskipulagning á rekstri sveitarfélagsins á öllum sviðum. Síðast en ekki síst má þakka árangurinn samhentum hópi stjórnenda og starfsmanna Hafnarfjarðarbæjar.

Ef undanskilin eru áhrif óreglulegra liða er ársreikningur fyrir árið 2014 í meginatriðum í góðum takti við fjárhagsáætlun ársins. Veigamestu frávikin frá fjárhagsáætlun liggja í áhrifum kjarasamninga sem gerðir voru á síðustu ári og dómi hæstaréttar um greiðslu fjármagnstekjuskatts.

Sú ríka áhersla sem lögð hefur verið á vandaða áætlanagerð og eftirfylgni við hana hefur gert það að verkum að fjárhagsáætlun sveitarfélagsins hefur orðið sífellt sterkara stjórntæki í rekstri sveitarfélagsins. Mikilvægt er að haldið verði áfram á þeirri braut. Skuldaviðmið Hafnarfjarðarbæjar hefur lækkað hratt síðustu ár, er komið niður í 176% árið 2014 samanborið við 192% árið 2013. Hæst var skuldaviðmiðið 274% árið 2009.

Verkefnið framundan er að byggja áfram á þeim góða grunni sem byggður hefur verið síðustu ár, halda áfram að greiða niður skuldir og nýta þau fjölmörgu tækifæri sem eru til sóknar og uppbyggingar í bæjarfélaginu.

Framtíðarhorfur Hafnarfjarðarbæjar eru að mörgu leyti mjög góðar. Miklar eignir sveitarfélagsins í tilbúnum íbúða- og atvinnulóðum skapar sveitarfélaginu vaxtarskilyrði sem sem gefa tilefni til að ætla að reglulegar tekjur bæjarins geti vaxtið hratt næstu ár, samhliða því að tekjur af lóðarsölu geti runnið til þess að greiða niður skuldir enn hraðar en fyrri áætlanir hafa gert ráð fyrir.

Aukin umsvif í atvinnulífinu og áhugi fyrirtækja á að flytja starfsemi sína í Hafnarfjörð eru ekki síður merki um bjartar framtíðarhorfur. Ákvörðun Icelandair um að byggja nýtt húsnæði undir veigamikinn hluta af sinni starfssemi í Hafnarfirði, samningur Hafnarfjarðarhafnar við Eimskipafélagið um stóraukin umsvif fyrirtækisins í Hafnarfjarðarhöfn og flutningur Valitor í Hafnarfjörð eru dæmi um þá sterku stöðu sem bærinn er í og þau sóknarfæri sem til staðar og byggja á markvissri uppbyggingu nauðsynlegra innviða í Hafnarfirði sl. ár.
Þrátt fyrir þann mikla árangur sem náðst hefur í rekstri bæjarins á undanförnum árum og staðfestur er í ársreikningum síðustu tveggja ára er mikilvægt að haldið verði áfram á þeirri braut, jafnvægi verði tryggt í rekstri og að veltufé sé nægjanlegt til að sveitarfélagið sé í stakk búið til að halda áfram að greiða markvisst niður skuldir og fjármagna nauðsynlegar framkvæmdir með sem hagkvæmustum hætti.

Framtíðarhorfur sveitarfélagsins byggja þó ekki síst á því fjölbreytta og góða samfélagi sem Hafnarfjörður er og þeirri samfélagsgerð sem mótast hefur í bænum á löngum tíma. Mikilvægt er að hlúa að henni og rækta það sem einkennt hefur Hafnarfjörð og gert það að verkum að fólk hefur valið sér bæinn sem varanlegum stað til búsetu. Þar er brýnt að horfa sérstaklega til þjónustu við barnafólk og gjaldtöku vegna hennar, koma til móts við fjölskyldur með ung börn, stíga markviss skref í þá átt að brúa bilið milli fæðingarorlofs og leikskóla, samþætta og bæta heimaþjónustu við aldraða, ráðast í löngu tímabærar umbætur í aðbúnaði fólks á hjúkrunarheimilum og efla almenningssamgöngur, svo einhverjar af þeim áskorunum sem við stöndum frammi fyrir séu nefndar. Framfarir og umbætur í þjónustu við íbúana eru í senn forsenda þess að Hafnarfjörður veðri áfram eftirsóttur staður til að búa á og staðsetja og reka atvinnufyrirtæki."

Gunnar Axel Axelsson
Adda María Jóhannsdóttir
Ófeigur Friðriksdóttir
Elva Dögg Ásudóttir Kristinsdóttir


Bæjarstjórn Hafnarfjarðar samþykkti fyrirliggjandi ársreikning bæjarstjóðs Hafnarfjarðar og fyrirtækja hans 2014 með 11 samhljóða atkvæðum.