Iðnskólinn í Hafnarfirði og Tækniskólinn, sameining
Síðast tekið fyrir á fundi fyrir 8 árum síðan.
Bæjarráð nr. 3412
16. júlí, 2015
Annað
Fyrirspurn
Skólameistari Tækniskólans mætir á fundinn. Bæjarstjóri gerir grein fyrir viðræðum við mennta- og menningarmálaráðuneytið.
Svar

Bæjarráð þakkar Jóni B. Stefánssyni skólameistara Tækniskólans fyrir komuna á fundinn.

Fulltrúar Samfylkingar og VG óska bókað:
Fulltrúar Samfylkingar og VG lýsa furðu sinni á að þrátt fyrir skýra afstöðu bæjarstjórnar og ítrekuð mótmæli gegn fyrirhugaðri niðurlagningu Iðnskólans í Hafnarfirði og fullkomnu samráðsleysi ráðuneytis við bæjaryfirvöld, síðast með einróma samþykktri ályktun bæjarstjórnar frá 29. apríl sl. leggi meirihluti Bjartrar framtíðar og Sjálfstæðisflokks til að bæjaryfirvöld tilnefni fulltrúa í starfshóp ráðherra sem augljóslega hefur ekkert annað hlutverk en að ljúka við niðurlagningu Iðnskólans og leggja starfsemi hans inn í Tækniskólann ehf.

Í því sambandi er rétt að benda á ályktun meirihluta skólanefndar Iðnskólans dags. 1. júní sl., þar sem fram kemur að nefndin hafi ekkert tækifæri fengið til að taka afstöðu til málsins, heldur hafi málið verið kynnt nefndinni eftir að ákvörðun ráðherra lá fyrir. Lýsir meirihluti skólanefndar áhyggjum sínum og telur að með þessari ráðstöfun sé framtíð iðnnáms í Hafnarfirði verulega ógnað og þegar til lengdar lætur sé hætt við að iðnnám flytjist frá Hafnarfirði. Undir ályktunina rita fjórir skólanefndarfulltrúar af fimm en formaður nefndarinnar, sem Sjálfstæðisflokkurinn í Hafnarfirði tillnefnir til að gæta hagsmuna sveitarfélagsins í nefndinni, tekur ekki þátt í bókuninni.

Eins og fram kemur í lögfræðiáliti dags. 19. maí sl. sem unnið var fyrir bæjarráð er ákvörðun ráðherra um niðurlagningu Iðnskólans í Hafnarfirði háð samþykkt Alþingis. Sú samþykkt liggur ekki fyrir.

Þá kemur einnig fram í áðurnefndu lögræðiáliti að ráðstöfun húsnæðis skólans til einkaaðila geti talist slík forsendubreyting á áður gerðum samningi frá 18. desember 1998 um þátttöku Hafnarfjarðarbæjar í húsnæðiskostnaði skólans að það geti leitt til þess að ríkinu beri að yfirtaka samningsskulbindingar bæjarins.

Í ljósi framangreinds, þar sem ekki liggur fyrir ákvörðun Alþingis í málinu telja fulltrúar Samfylkingar og VG óeðlilegt að bæjaryfirvöld taki þátt í vinnu við að innleiða ákvörðun ráðherra, þvert á fyrirliggjandi samþykkt bæjarstjórnar í málinu.

Fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Bjartrar Framtíðar óska bókað:
Bæjarfulltrúar Bjartrar framtíðar og Sjálfstæðisflokks harma þær dylgjur sem minnihlutinn setur fram í bókun sinni.
Staða málsins er í óbreyttum farvegi frá síðasta fundi bæjarstjórnar og afstaða bæjarstjórnar sú sama. Varðandi mögulegan starfshóp er beðið svars frá mennta- og menningarmálaráðuneyti um innihald erindisbréfs, ákvörðun um skipun í hópinn bíður þess svars.
Hver sem framvindan verður héðan í frá mun meirihluti bæjastjórnar enn sem fyrr beita sér fyrir öflugu iðnnámi í Hafnarfirði.