Innheimtumál, fyrirspurn
Síðast tekið fyrir á fundi fyrir 9 árum síðan.
Bæjarráð nr. 3402
12. mars, 2015
Annað
Fyrirspurn
Tekið fyrir að nýju og lagt fram umbeðið lögfræðiálit varðandi birtingu upplýsinga.
Svar

Lagt fram eftirfarandi svar við fyrirliggjandi fyrirspurn:
"Á síðasta ári voru fjögur tilvik þar sem þar sem leikskólapláss var afturkallað vegna vanskila. Um var að ræða pláss fyrir tvö fjögurra og tvö fimm ára börn. Á undanförnum árum hefur yfirleitt aðeins verið um örfáa daga að ræða eða 2-4, en í einstaka tilvikum hefur tíminn þó verið lengri. Á síðasta ári komu upp tvö tilvik þar sem um svo stutt tímabil var að ræða, en tvö lengri eða að 15 vikum.

Í samningi sem foreldrar gera um leikskólagjöld kemur fram að þegar tveir mánuðir eru gjaldfallnir sé leikskólavist sagt upp og í framhaldinu verði skuldin send í innheimtu til lögfræðings. Framkvæmdin hefur hins vegar verið sú að samningnum er ekki sagt upp fyrr en vanskil eru að nálgast þrjá mánuði. Uppsagnarbréf eru send út ca. 24. til 28. hvers mánaðar. Þá er listi sendur til Fjölskylduþjónustu Hafnarfjarðar til yfirferðar. Í uppsagnarbréfi er tekið fram að frestur til að ganga frá málinu sé til 15. næsta mánaðar en hann er í raun lengri því leikskólaplássið er ekki afturkallað fyrr en fyrsta dag þar næsta mánaðar. Fyrirkomulagið hefur verið með þessum hætti í a.m.k. 10 ár."

Bæjarráð telur fullt tilefni sé til að breyta þessu verklagi Hafnarfjarðarbæjar og lagt er til að litið verði til fordæmi Reykjavíkurborgar í þessum efnum. Bæjarstjóra falið að setja málið í vinnslu og leggja fram tillögu um breytingar á verklagi fyrir bæjarráð.

Bæjaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokks og Bjartrar framtíðar lögðu fram eftirfarandi bókun:
"Bæjarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokks og Bjartrar framtíðar árétta að verklag við innheimtu gjalda hjá Hafnarfjarðarbæ hefur verið óbreytt undanfarin ár. Það er miður að svo virðist sem ekki séu til skráningar frá síðastliðnum árum á tilvikum eins og að ofan er fjallað um og því erfitt að átta sig á umfangi eða fjölda tilvika sem um ræðir lengra aftur í tímann."

Bæjarráðsfulltrúar Samfylkingar og áheyrnarfulltrúi Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs lögðu fram eftirfarandi bókun:
"Fulltrúar Samfylkingar og Vinstri grænna hafa á síðustu mánuðum ítrekað lagt fram fyrirspurnir um framkvæmd innheimtumála hjá Hafnarfjarðarbæ, m.a. um fjölda tilvika þar sem börnum hefur verið úthýst úr leikskólum vegna vanskila. Þá hefur verið kallað eftir upplýsingum um þá verkferla sem eru í gildi vegna framkvæmd innheimtu leikskólagjalda. Nú hafa þær upplýsingar loksins verið lagðar fram, sem og tillaga að bættu verklagi sem á að koma í veg fyrir að innheimtuaðgerðir bæjaryfirvalda bitni á börnum. Þrátt fyrir að það hafi tekið óeðlilega langan tíma að fá upplýsingarnar er ástæða til að fagna því að þær séu loks fram komnar, sem og tillögur að verklagi sem koma á í veg fyrir að hagsmunir barna verði undir í innheimtuaðgerðum eins og nýleg dæmi eru um."