Fækkun barna á leikskólaaldri - viðbrögð
Síðast tekið fyrir á fundi fyrir 9 árum síðan.
Bæjarstjórn nr. 1739
4. febrúar, 2015
Annað
‹ 5
6
Fyrirspurn
5.liður úr fundargerð FRÆH frá 26.jan.sl. Farið yfir stöðuna og gerð tillaga um fyrstu skref til að bregðast við. Lagt fram bréf frá Björgum ehf. dags. 25. janúar s.l. Gert var fundarhlé kl. 10.30. Fundur settur að nýju kl. 16.30. Helga Hrönn Óskarsdóttir tók sæti á fundinum í stað Ingólfs Bjarnasonar.
Fræðsluráð samþykkir að segja upp samningi um rekstur ungbarnaleikskóla í Hafnarfirði við Bjargir ehf. í samræmi við uppsagnarákvæði samningsins með sex mánaða fyrirvara frá og með 31. janúar 2015 að telja og felur bæjarstjóra framkvæmdina. Bæjarstjórn staðfesti síðan uppsögnina.
Í ljósi þess að börnum á leikskólaaldri í Hafnarfirði mun samkvæmt spám um íbúaþróun, fækka um 300 á næstu fimm árum er samningi um rekstur ungbarnaleikskólans Bjarma sagt upp frá og með 31. janúar nk. Við þessa ákvörðun er litið til hagkvæmni rekstrareininga í leikskólum í bæjarfélaginu, en dvalargildið á Bjarma er 17-23% dýrara en á öðrum þjónustureknum leikskólum bæjarins. Ekki hefur heldur alltaf verið hægt að fylla í pláss leikskólans þótt bærinn þurfi, samkvæmt þjónustusamningi, að greiða fyrir allt að 24 börn í átta tíma á dag. Uppsögnin mun ekki hafa nein áhrif á þau börn sem nú eru í Bjarma því þau munu öll fara í aðra leikskóla næsta haust eins og til stóð vegna aldurs þeirra. Samhliða þessu er mögulegt að fjölga plássum á ungbarnadeildum annarra leikskóla bæjarins frá og með næstkomandi hausti ef þörf verður á því að úthluta börnum leikskólaplássi í forgangi og verður því um sömu þjónustu við þennan aldur að ræða og nú er. Starfsfólki Bjarga ehf standa til boða sambærileg störf hjá Hafnarfjarðarbæ ef það óskar þess.
Tillagan er samþykkt með þremur atkvæðum fulltrúa Sjálfstæðisflokks og Bjartrar framtíðar. Fulltrúar Samfylkingar og Vinstri grænna greiða atkvæði gegn tillögunni.
Fulltrúar Samfylkingar og Vinstri grænna leggja fram eftirfarandi bókun;
"Fulltrúar Samfylkingar og VG ítreka fyrri bókanir sínar í þessu máli. Það svigrúm sem skapast við fækkun leikskólabarna á tilteknum aldri hefðum við viljað nýta til að efla leikskólastigið með því að stíga fyrstu skrefin í því að lækka inntökualdur á leikskóla til frambúðar. Ljóst er að vilji meirihlutans er og hefur frá upphafi verið annar. Við getum ekki tekið undir tillögur meirihluta Bjartrar Framtíðar og Sjálfstæðisflokks um minna fjármagn til leikskóla og lokun deilda. Með því teljum við að skref sé stigið afturábak í þessum mikilvæga málaflokki og vegið að grunnstoðum skólakerfisins, þvert á vilja foreldra sem í könnunum hafa sýnt skýran vilja um að inntökualdur á leikskóla verði lækkaður frá því sem nú er. Engar skýrar áætlanir eru um það hvernig þjónustu við börn á þessum aldri verður háttað í framhaldinu. Engar heildstæðar áætlanir hafa verið lagðar fram til að bregðast við því ástandi sem er lýst í tillögum meirihlutans heldur er á þessum tímapunkti aðeins lagt til að segja upp einum stökum þjónustusamningi. Undirrituð furða sig á vinnubrögðum við framlagningu þeirrar tillögu sem hér er til afgreiðslu þar sem takmörkuð gögn hafa verið lögð fram henni til stuðnings. Engin umræða virðist heldur hafa farið fram innan skóla- eða foreldrasamfélags um málið. Ekkert í fundarboði gaf til kynna að afgreiða ætti málið nú. Engin gögn hafa verið lögð fram eða kynnt á formlegum fundum ráðsins og hafa fulltrúar, þar með taldir lögbundnir áheyrnarfulltrúar, því haft takmarkað svigrúm til að kynna sér efnið. Þannig má segja að samráð hafi verið af skornum skammti." Adda María Jóhannesdóttir Gestur Svavarsson
Áheyrnarfulltrúar foreldraráðs leikskóla og grunnskóla leggja fram eftirfaranid bókun;
"Áheyrnarfulltrúar foreldraráðs leikskóla og grunnskóla lýsir yfir áhyggjum sínum vegna vinnubraða varðandi uppsögn samnings við Leikskólann Bjarma og þann fyrirvara sem stjórnendur leikskólans fengu vegna uppsagnar samningsins. Í áframhaldandi vinnu við sparnað í skólamálum skal tryggja að aðilar fá betri fyrirvara vegna niðurskurðar." Helga Hrönn Óskarsdóttir Þórður Ingi Bjarnason
Fulltrúar Bjartrar framtíðar og Sjálfstæðisflokksins leggja fram eftirfarandi bókun;
"Fulltrúar Bjartrar framtíðar og Sjálfstæðisflokksins lýsa yfir vonbrigðum með þá fullyrðingar að ekkert samráð hafi verið haft um þessa ákvörðun. Í undirbúningi fjárhagsáætlunar fyrir árið 2015 voru haldnir 4-5 vinnufundir með öllum kjörnum fulltrúum þar sem fjölmargar hugmyndir að breytingum innan leikskólanna voru skoðaðar í ljósi þess að bregðast þurfti við mikilli fækkun barna á leikskólaaldri í bænum. Þjónusta við foreldra leikskólabarna verður næstu mánuðina óbreytt frá því sem verið hefur og lokun þessa leikskóla hefur engin áhrif á þau börn sem þar eru nú. Ungbarnaplássum við aðra leikskóla verður fjölgað á móti. Fullyrðingum um að vegið sé að grunnstoðum skólakerfisins standast ekki skoðun. Þessi ákvörðun gefur tækifæri til að efla starf leikskólanna í bænum í framtíðinni."
Svar

Rósa Guðbjartsdóttir tók til máls, Guðrún Ágústa Guðmundsdóttir kom að andsvari.

Einar Birkir Einarsson tók þá til máls, síðan Adda María Jóhannsdóttir sem lagði fram eftirfarandi breytingartillögu bæjarfulltrúa Samfylkingar og Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs:
"Í fjárhagsáætlun ársins 2015 og greinargerð með henni sem samþykkt var í bæjarstjórn þann 10. desember sl. kemur fram að gert sé ráð fyrir að börnum í leikskólum Hafnarfjarðar muni fækka milli ára og það muni leiða til samsvarandi hagræðis í rekstri leikskólastigsins. Í tillögum meirihluta fræðsluráðs frá 27. nóvember sl. sem samþykktar voru með atkvæðum meirihlutans og liggja til grundvallar útfærslu fjárhagsáætlunar sviðsins kemur fram að gert sé ráð fyrir að leikskólabörnum muni fækka um 120 á milli áranna 2014 og 2015 og heildarsparnaður bæjarins vegna þess verði 73 milljónir króna.
Vísað er til þessa við ákvörðun fræðsluráðs frá 26. janúar sl., þar sem samþykkt var að segja upp samningi um rekstur ungbarnaleikskólans Bjarma. Þá hefur margítrekað komið fram að meirihlutinn telji að svigrúm sé til að fækka umtalsvert leikskólaplássum á næsta ári, með lokunum rekstrareininga, deilda eða öðrum leiðum.
Fulltrúar Samfylkingar og VG leggja til að horfið verði frá fyrrgreindri ákvörðun um samdrátt í rekstri leikskólastigsins frá og með næsta hausti. Í stað lokunar ungbarnaleikskólans og fyrirhugaðrar fækkunar leikskólaplássa leggjum við til að bæjarstjórn samþykki að lækka inntökualdur í áföngum næstu ár og setji sér skýr markmið um að geta boðið foreldrum og börnum í Hafnarfirði upp á val um þjónustu leikskóla eða dagforeldra frá 12 mánaða aldri líkt og vilji flestra foreldra stendur til og mörg önnur sveitarfélög eru byrjuð að vinna að. Eðlilegt er að slíkar breytingar séu gerðar í áföngum og tekið sé mið af mannfjöldaspá sem gerir ráð fyrir að börnum á núverandi inntökualdri muni fækka umtalsvert næstu ár."

Rósa Guðbjartsdóttir kom að andsvari við ræðu Öddu Maríu Jóhannsdóttur, Adda María Jóhannsdóttir svaraði andsvari, Rósa Guðbjartsdóttir kom að andsvari öðru sinni, Adda María Jóhannsdóttir svaraði andsvari. Helga Ingólfsdóttir kom einnig að andsvari við ræðu Öddu Maríu Jóhannsdóttur, Adda María Jóhannsdóttir svaraði andsvari, Helga Ingólfsdóttir kom að andsari öðru sinni, Adda María Jóhannsdóttir svaraði andsvari örðu sinni.

Guðrún Ágústa Guðmundsdóttir tók þessu næst til máls, Einar Birkir Einarsson kom að andsvari, Guðrún Ágústa Guðmundsdóttir svaraði andsvari.

Kristinn Andersen tók þá til máls, síðan Ófeigur Friðriksson, Rósa Guðbjartsdóttir kom að andsvari við ræðu Ófeigs Friðrikssonar.

Guðlaug Kristjánsdóttir tók einnig til máls og tók 1. varaforseti Guðrún Ágústa Guðmundsdóttir við stjórn fundarins á meðan, Adda María Jóhannsdóttir kom andsvari, Guðlaug Kristjánsdóttir svaraði andsvari, Adda María Jóhannsdóttir kom að andsvari öðru sinni.
Guðlaug Kristjánsdóttir tók síðan við stjórn fundarins að nýju.

Bæjarstjóri Haraldur L. Haraldsson tók þessu næst til máls, Adda María Jóhannsdótttir kom að andsvari, bæjarstjóri Haraldur L. Haraldsson svaraði andsvari.

Gengið var til atkvæðagreiðslu og fyrst greidd atkvæði um framkomna breytignartillögu.

Bæjarstjórn Hafnarfjarðar felldi fram komna breytingartillögu með 7 atkvæðum gegn 4.

Bæjarstjórn Hafnarfjarðar staðfesti síðan fyrirliggjandi tillögu fræðsluráðs með 7 atkvæðum gegn 4.

Adda María Jóhannsdóttir gerði grein fyrir atkvæði sínu.