Borgarlína
Síðast tekið fyrir á fundi fyrir 3 árum síðan.
Bæjarstjórn nr. 1798
17. janúar, 2018
Annað
Fyrirspurn
Til umræðu.
Svar

Til máls tekur Gunnar Axel Axelsson og leggur fram eftirfarandi tillögu að ályktun bæjarstjórnar Hafnarfjarðar um eflingu almenningssamgangna og uppbyggingu Borgarlínu.

"Í ljósi aukinnar umræðu um málefni almenningssamgangna og undirbúnings sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu að innleiðingu hágæða almenningssamgangnakerfis áréttar bæjarstjórn Hafnarfjarðar fyrri samþykktir sínar og fullan stuðning bæjaryfirvalda í Hafnarfirði við uppbyggingu Borgarlínu, með það að markmiði að skilja að svo sem kostur er almenna umferð og akstur almenningssamgangna og auka þannig hlutdeild þeirra í daglegum ferðum fólks innan svæðisins.

Skorar bæjarstjórn jafnframt á ríkisstjórn og Alþingi að vinna að framgangi verkefnisins með því að tryggja að í samgönguáætlun næstu 4 ára fáist nægjanlegt fjármagn til að takast á við nauðsynlegar aðgerðir, bæði með auknum fjárveitingum til Vegagerðarinnar vegna endurbóta á stofnbrautum og til að tryggja nauðsynlega aðkomu ríkisins að eflingu almenningssamganga með væntanlegri tilkomu Borgarlínu."

Greinargerð með tillögu að ályktun:

Í gildandi svæðisskipulagi höfuðborgarsvæðisins er gert ráð fyrir að íbúum svæðisins fjölgi um 70 þúsund manns fram til ársins 2040. Markmið svæðisskipulagsins er að þessi fjölgun leiði ekki til samsvarandi aukningar á umferð innan svæðisins. Núverandi ástand stofnbrauta innan svæðisins og óbreyttar ferðavenjur ná ekki að mæta þessu markmiði og þörf er á samstilltum aðgerðum ríkis og sveitarfélaga. Lagfæringar og endurbætur á stofnbrautum til að draga úr töfum og umferðarhnútum, og innleiðing Borgarlínu til að auka hlutdeild almenningssamganga eru nauðsynlegar aðgerðir til að breyta núverandi stöðu og til að mæta vaxandi flutningaþörf innan höfuðborgarsvæðisins.

Til máls tekur Einar Birkir Einarsson.

1. varaforseti Margrét Gauja Magnúsdóttir tekur við fundarstjórn.

Guðlaug Svala tekur til máls. Guðlaug Svala tekur svo aftur við fundarstjórn.

Rósa Guðbjartsdóttir tekur til máls. Til andsvars kemur Adda María Jóhannsdóttir. Rósa svarar andsvari. Til andsvars öðru sinni kemur Adda María. Rósa svarar andsvari öðru sinni. Til andsvars kemur Gunnar Axel Axelsson. Rósa svarar andsvari. Til andsvars öðru sinni kemur Gunnar Axel.

Ólafur Ingi Tómasson tekur til máls. Því næst tekur Margrét Gauja Magnúsdóttir til máls. Ólafur Ingi kemur upp í andsvar.

Til máls tekur Helga Ingólfsdóttir. Næst tekur til máls Adda María Jóhannsdóttir. Þar á eftir tekur Elva Dögg Ásudóttir Kristínardóttir til máls. Rósa Guðbjartsdóttir kemur upp í andsvar. Adda María svarar andsvari.

Fundarhlé kl. 20:23.

Fundi framhaldið kl. 20:52.

Til máls öðru sinni tekur Elva Dögg Ásudóttir Kristínardóttir. Einnig tekur til máls Gunnar Axel Axelsson. Rósa Guðbjartsdóttir svarar andsvari og leggur fram tillögu um að afgreiðslu fyrirliggjandi tillögu verði frestað milli funda. Gunnar Axel svarar andsvari. Rósa kemur öðru sinni upp í andsvar.

Fundarhlé kl. 21:05.

Fundi framhaldið kl. 21:08.

Forseti ber upp til atkvæða framlagða tillögu um að málinu verði frestað milli funda og er tillagan felld með 6 atkvæðum gegn 5.

Forseti ber upp til atkvæða framlagða tillögu að ályktun bæjarstjórnar Hafnarfjarðar um eflingu almenningssamgangna og uppbyggingu Borgarlínu. Er tillagan samþykkt með 6 atkvæðum gegn 5.

Fundarhlé kl. 21:32

Fundi framhaldið kl. 21:55.

Rósa Guðbjartsdóttir leggur fram eftirfarandi bókun fyrir hönd bæjarfulltrúa Sjálfstæðisflokks:

"Bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins eru sammála því að brýnt sé að gera ráð fyrir samgönguás (borgarlínu) í gegnum höfuðborgarsvæðið og styðja að það verkefni verði þróað áfram. Markmiðið er að draga úr umferðarteppum sem skapast á álagstímum og auka hlutdeild almenningssamgangna. Eftir að lega samgönguássins (borgarlínan) hefur verið ákveðin innan bæjarfélaganna komi ríki og sveitarfélög sér saman um hvernig best sé að ná því markmiði, m.a. með bættum stofnbrautum og forgangsakreinum. Það þarf einnig að gera í samráði við íbúa og því er það fagnaðarefni að fyrsta samtal við bæjarbúa í Hafnarfirði eigi sér stað á morgun, fimmtudaginn 18. janúar á íbúafundi sem boðað hefur verið til. Þar verður kynnt staða verkefnisins, þróun þess og hlutverk í því skyni að efla almenningssamgöngur á svæðinu og minnka álag í umferðinni. Ljóst er að mismunandi skilningur og sýn er á verkefnið, jafnt á meðal kjörinna fulltrúa sem og íbúa og því mikilvægt að upplýst umræða og skoðanaskipti eigi sér stað nú þar sem íbúar/skattgreiðendur geta komið að með beinum hætti. Það er í anda lýðræðislegra vinnubragða. Einnig er brýnt að viðræður við ríkið hefjist hið fyrsta svo aðkoma þess liggi fyrir."