Grunnskóli, stofnun skóla, nýr skóli, Framsýn
Síðast tekið fyrir á fundi fyrir 7 árum síðan.
Bæjarstjórn nr. 1768
22. júní, 2016
Annað
Fyrirspurn
1.liður úr fundargerð FRÆH frá 8.júní sl. Þjónustusamningur lagður fram til afgreiðslu. Fulltrúar Framsýnar mæta til fundarins.
Fulltrúar Framsýnar mættu á fundinn og veittu upplýsingar um stöðu innritunar, fyrirhugaða starfsemi og áherslur skólans.
Fræðsluráð samþykkir fyrirliggjandi þjónustusamning og vísar honum til afgreiðslu í bæjarstjórn. Fram kom á fundinum að kostnaðarþætti tillögunnar verður mætt að fullu með breytingum sem verða á fjárhagsáætlun. Breytingarnar eru til komnar vegna minna fjárframlags til Barnaskóla Hjallastefnunnar á yfirstandandi fjárhagsári en áætlanir gerðu ráð fyrir, vegna færri nemenda og vegna þess að miðstig skólans hættir. Gerð verður nánari grein fyrir kostnaðarþætti tillögunnar í viðauka við fjárhagsáætlun 2016 sem lagður verður fram síðar í mánuðinum.
Samþykkt með 3 atkvæðum fulltrúa Sjálfstæðisflokks og Bjartrar Framtíðar, en fulltrúar Vinstri grænna og Samfylkingar greiddu atkvæði á móti.
"Fulltrúar Samfylkingar og Vinstri grænna geta ekki samþykkt tillögu um nýjan einkarekinn grunnskóla í Hafnarfirði. Ljóst er að með þjónustusamningi við skólann aukast útgjöld bæjarins um tugi milljóna. Í gögnum er ekki gerð fullnægjandi grein fyrir húsnæðismálum skólans og óljóst hvort þau uppfylli kröfur grunnskólalaga um aðbúnað, hollustu og öryggi á vinnustað, ekki síst hvað varðar skólalóð. Þá teljum við rekstrarforsendur skólans hæpnar ef miða á við að Hafnarfjarðarbær greiði eingöngu með 45 nemendum þegar forsvarsmenn skólans hafa gert ráð fyrir 120 nemendum til þess að rekstur skólans gangi upp til lengri tíma. Þá má einnig benda á þversagnir í innsendum gögnum varðandi jafnt aðgengi nemenda að skólanum. Eins er augljóst að fyrirhuguð innheimta skólagjalda mun leiða til þess að ekki eigi allir kost á að sækja skólann. Að ofansögðu teljum við engar forsendur til að samþykkja þjónustusamning um nýjan grunnskóla við Framsýn-Skólafélag. Við ítrekum fyrri bókanir okkar og gerum alvarlegar athugasemdir við þá forgangsröðun sem birtist í þessum gjörningi að kosta tugum milljóna til þess að fjármagna einkaskóla í stað þess að láta umframfjármuni renna til leik- og grunnskóla sem bæjarfélagið rekur sjálft.
Adda María Jóhannsdóttir Sverrir Garðarsson"
Fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Bjartrar framtíðar bóka: "Það er ánægjulegt að afgreiða fyrirliggjandi þjónustusamning fyrir hönd fræðsluráðs. Í fyrirliggjandi þjónustusamningi er ýmislegt sem telst nýmæli í samningi sem þessum og má þar nefna þak á skólagjöld, aukið eftirlit með innritun barna, auknar kröfur um mat á þörfum vegna sérkennlu, að hagnaði verði varið í innra starfið en ekki í arðgreiðslur og öflugra ytra mat á skólastarfi. Þá er samningurinn gerður til 2ja ára með endurskoðun að ári liðnu. Skólinn fengið viðurkenningu Menntamálastofnunar og uppfyllir því öll skilyrði hvað varðar skólastarf og húsnæði. Ekki verður nauðsynlegt að auka fjárheimildir á þessu ári vegna skólans, þar sem rými skapast við að miðdeild Barnaskóla Hjallastefnunnar hættir og dekkar allan kostnað bæjarins á árinu. Þess ber að geta að síðastliðin tvö ár hefur inngjöf í hafnfirskt skólastarf verið töluverð, ekki síst vegna þess að kennurum hefur fjölgað um 50 á tímabilinu á meðan nemendum hefur fjölgað um rúmlega 100."
Svar

Til máls tekur bæjarfulltrúi Einar Birki Einarsson og leggur fram eftirfarandi tillögu bæjarfulltrúa Sjálfstæðisflokks og Bjartrar framtíðar til bæjarstjórnar. Bæjarstjórn samþykkir framlagðan þjónustusamning við Framsýn - Skólafélag ehf og þar með stofnun grunnskóla Framsýnar og framlög til hans, sbr. 43. gr. grunnskólalaga nr. 91/2008 með síðari breytingum sbr. reglugerð nr. 699/2012 um viðurkenningu grunnskóla sem reknir eru af öðrum en sveitarfélögum og skólahald samkvæmt erlendri eða alþjóðlegri námskrá og námsskipan.

Til máls tekur bæjarfulltrúi Adda María Jóhannsdóttir. Til andsvars kemur bæjarfulltrúi Einar Birkir Einarsson. Bæjarfulltrúi Adda María Jóhannsdóttir svarar andsvari. Til andsvars öðru sinni kemur bæjarfulltrúi Einar Birkir Einarsson. Bæjarfulltrúi Adda María Jóhannsdóttir svarar andsvari öðru sinni.

Til máls tekur bæjarfulltrúi Gunnar Axel Axelsson. Til andsvars kemur bæjarfulltrúi Kristinn Andersen. Bæjarfulltrúi Gunnar Axel Axelsson svarar andsvari.

Til máls tekur öðru sinni Adda María Jóhannsdóttir. Til andsvars kemur bæjarfulltrúi Einar Birkir Einarsson. Bæjarfulltrúi Adda María Jóhannsdóttir svarar andsvari. Til andsvars kemur bæjarfulltrúi Kristinn Andersen. Bæjarfulltrúi Adda María Jóhannsdóttir svarar andsvari.

Til máls öðru sinni kemur bæjarfulltrúi Gunnar Axel Axelsson. Til andsvars kemur bæjarstjóri Haraldur L. Haraldsson. Bæjarfulltrúi Gunnar Axel Axelsson svarar andsvari. Bæjarstjóri Haraldur L. Haraldsson kemur að andsvari öðru sinni. Bæjarfulltrúi Gunnar Axel Axelsson svarar andsvari öðru sinni. Til andsvars kemur bæjarfulltrúi Kristinn Andersen. Bæjarfulltrúi Gunnar Axel Axelsson svarar andsvari.

Til máls tekur bæjarfulltrúi Sverrir Garðarsson.

Bæjarfulltrúi Adda María Jóhannsdóttir gerir stutta athugasemd.

Til máls tekur bæjarfulltrúi Gunnar Axel Axelsson og leggur fram eftirfarandi tillögu: Bæjarfulltrúar Samfylkingar og VG leggja til að afgreiðslu málsins verði frestað þar til að bæjarstjóri hefur lagt fram svör við þeim spurningum sem lagðar voru fram á síðasta bæjarráðsfundi, svör sem bæjarstjóri hefur boðað og hann hefur staðfest að snerta grundvallatriði í því máli sem hér er lagt fram til afgreiðslu.

Tillagan er borin undir atkvæði og er felld með 7 atkvæðum Sjálfstæðisflokks og Bjartrar framtíðar gegn 4 atkvæðum Samfylkingar og Vinstri grænna.

Gunnar Axel Axelsson gerir grein fyrir atkvæðu sínu.

Framkomin tillaga Sjálfstæðisflokks og Bjartrar framtíðar borin undir atkvæði, tillaga er samþykkt með 7 atkvæðum Sjálfstæðtisflokks og Bjartrar framtíðar gegn 4 atkvæðum Samfylkingar og Vinstri grænna.

Til máls tekur bæjarfulltrúi Adda María Jóhannsdóttir og leggur fram eftirfarandi bókun bæjarfulltrúa Samfylkingar og Vinstri grænna: Fulltrúar Samfylkingar og Vinstri grænna ítreka fyrri bókanir um stofnun einkaskóla. Við gerum alvarlegar athugasemdir við þá forgangsröðun sem birtist í gjörningi fulltrúa Sjálfstæðisflokks og Bjartrar framtíðar að kosta tugum milljóna til þess að fjármagna einkaskóla á meðan skorið hefur verið niður í hafnfirskum leik- og grunnskólum. Við minnum á að tveimur leikskólaúrræðum hefur nú þegar verið lokað í hagræðingarskyni og fyrir dyrum stendur lokun tveggja til viðbótar, þar á meðal einum elsta starfandi leikskóla bæjarins. Á sama tíma hefur þróunarsjóður leik- og grunnskóla verið skorinn niður í tvígang, nú síðast um 60 milljónir króna. Við höfnum því að einkavæðing sé forsenda nýsköpunar og teljum óforsvaranlegt að skorið sé niður í þróunar- og nýsköpunarstarfi í skólum sem reknir eru af bæjarfélaginu á sama tíma og fjármunir eru settir í að greiða fyrir nýsköpun á forræði einkaskóla.

Til máls tekur bæjarfulltrúi Einar Birkir Einarsson og leggur fram eftirfarandi bókun bæjarfulltrúa Sjálfstæðisflokks og Bjartrar framtíðar: „Með samþykkt sinni á fyrirliggjandi þjónustusamningi og stofnun grunnskóla Framsýnar ? Skólafélags ehf hefur bæjarstjórn stigið mikilvægt skref í átt að frekari framþróun grunnskólastarf í Hafnarfirði. Á sama tíma og framlag til grunnskóla bæjarins hefur verið aukið umtalsvert, er með þessu verð að auka enn frekar valmöguleika barna til að stunda nám eftir áhugasviði. Grunnskóli Framsýnar ? Skólafélags ehf verður með áherslur á íþróttir og heilsu. Skólinn hefur hlotið viðurkenningu Menntamálastofnunar um að hann uppfylli faglegar kröfur sem gerðar eru til grunnskóla á Íslandi og hefur sýnt fram á rekstrarlegt hæfi sem uppfyllir kröfur til slíkra skóla. Fyrirliggjandi þjónustusamningur er gerður til tveggja ára með endurskoðun að ári. Í samningnum er tryggt öll börn, óháð andlegu eða líkamlegu atgervi hafi jafna möguleika á að sækja menntun í skólanum. Sett þak á hámark skólagjalda, sem er lægra en almennt gerist í sambærilegum skólum, og skilyrt er að hagnaður af starfseminni fari til frekari innri uppbyggingar í skólanum en verði ekki greiddur út sem arður til eigenda. Skólinn undirgengst allar sömu úttektir á skólastarfi af hálfu skólayfirvalda og framkvæmdar eru í öðrum grunnskólum Hafnarfjarðar. Þá er tryggt að þjónusta við börn sem þurfa sérþjónustu sé sú sama og í öðrum skólum bæjarins.“