Ferðaþjónusta fatlaðs fólks á höfuðborgarsvæðinu
Síðast tekið fyrir á fundi fyrir 5 árum síðan.
Bæjarstjórn nr. 1738
21. janúar, 2015
Annað
Fyrirspurn
2.liður úr fundargerð FJÖH frá 16.janúar sl. Lögð fram umsögn ráðgjafarráðs um drög að reglum um ferðaþjónustu fatlaðra í Hafnarfjarðarbæ, dags. 8. jan. sl. Guðrún Ágústa Guðmundsdóttir fulltrúi Strætó bs. mætti til fundarins og kynnti stöðuna í akstursþjónustunni í dag.
Fjölskylduráð Hafnarfjarðar lýsir þungum áhyggjum af þeim hnökrum upp hafa komið við yfirfærslu á akstursþjónustu fatlaðra til Strætó. Mikilvægt er að brugðist verði hratt við þeim athugasemdum og kvörtunum sem upp hafa komið og tryggja að þjónstan uppfylli þarfir notenda með viðunandi hætti. Sviðsstjóra falið að fylgjast með að úrbætur verði gerðar og málið tekið aftur fyrir á næsta fundi.
Fjölskylduráð samþykkir fyrirliggjandi drög að reglum um ferðaþjónustu fatlaðs fólks með eftirfarandi breytingu: Gjald vegna ferða að 60 skiptum á mánuði jafngildi hálfu almennu fargjaldi í almenningsvögnum. Gjald vegna ferða yfir 60 skiptum á mánuði jafngildi almennu fargjaldi í almenningsvögnum, sem nú er 350 kr. Ekki er sett þak á hámarksfjölda ferða. Úthlutun ferða verði áfram í samræmi við þarfir notenda. Reglurnar verða endurskoðaðar að ári.
Svar

Guðrún Ágústa Guðmundsdóttir tók til máls og gerði grein fyrir vanhæfi sínu í þessu mál og vék síðan af fundi.

Guðlaug Kristjánsdóttir tók til máls og tók 2. varafoseti Kristinn Andersen við stjórn fundarins á meðan, þá Gunnar Axel Axelsson og lagði fram eftirfarandi tillögur:

Tillaga 1.
Bæjarstjórn Hafnarfjarðar samþykkir jafnframt að gjöld vegna þjónustunnar verði í samræmi við gjöld sem innheimt eru frá notendum annarra þjónustuleiða Strætó, þ.e. notendur akstursþjónustu sem ætlað er að mæta sérstökum þörfum m.a. hreyfihamlaðra, verði ekki í neinum tilvikum dýrari eða en þjónusta hefðbundinna strætisvagna. Notendum akstursþjónustunnar gefist þar af leiðandi kostur á að kaupa tímabilskort og ferðast út á þau eins oft og þeir þurfa og kæra sig um, líkt og gildir um aðra notendur almenningssamgangna á höfuðborgarsvæðinu. Til bráðabirgða, á meðan innleiðing á því fyrirkomulagi fer fram, verði miðað við það í uppgjöri einstakra þjónustunotenda að heildarupphæð greiddra þjónustugjalda þeirra geti ekki orðið hærri en ef um tímabilskort væri að ræða. Fullt samráð verði haft við fulltrúa notenda þjónustunnar um útfærslu og framkvæmd.

Tillaga 2.
Bæjarstjórn samþykkir fyrirliggjandi drög að reglum um akstursþjónustu en beinir því til fjölskylduráðs að taka þær til endurskoðunar svo fljótt sem auðið er og leitast við að útfæra þær þannig að þær taki eingöngu til þeirra þátta sem ekki er kveðið á um í sameiginlegum reglum um framkvæmd þjónustunnar. Þá sé orðalag og hugtakanotkun endurskoðuð til samræmis við aðrar almenningssamgöngur á höfuðborgarsvæðinu.

Guðlaug Kristjánsdóttir tók þá aftur til máls og tók 2. varaforseti Kristinn Andersen við stjórn fundarins

Gert var stutt fundarhlé.

Að loknu fundarhléi lagði forseti til að afgreiðslu málsins yrði frestað og málinu vísað aftur til umfjöllunar í fjölskylduráði.

Bæjarstjórn Hafnarfjarðar samþykkti tillögu forseta með 10 samhljóða atkvæðum.

Gunnar Axel Axelsson tók til máls og lagði fram eftirfarandi sameiginlega bókun allra bæjarfulltrúa:
"Í ljósi frétta af uppsögnum starfsmanna Strætó Bs við yfirfærslu akstursþjónustu fatlaðs fólks áréttar bæjarstjórn Hafnarfjarðar mikilvægi þess að hæfileikar allra séu virkjaðir og réttur allra til virkrar þátttöku í samfélaginu sé tryggður. Sérstaklega er brýnt að sveitarfélög og fyrirtæki í eigu þeirra fari fram með góðu fordæmi í atvinnumálum fatlaðs fólks og setji sér skýr markmið um að vinna gegn allri mismunun vegna fötlunar, meðal annars með því að tryggja framboð starfa sem henta fólki með skerta starfsgetu.
Bæjarstjórn Hafnarfjarðar beinir því til stjórnar Strætó Bs. að hún taki til endurskoðunar starfsmannastefnu fyrirtækisins og láti fara fram heildstæða endurskoðun á starfsemi þess, þjónustu og fyrirkomulagi starfsmannamála, með það að markmiði að tryggja að ákvæði Samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks séu uppfyllt."




Guðrún Ágústa Guðmundsdóttir vék af fundi við umfjöllun og afgreiðslu þessa máls.