Motus ehf, vanskilainnheimta
Síðast tekið fyrir á fundi fyrir 5 árum síðan.
Bæjarráð nr. 3397
15. janúar, 2015
Annað
Fyrirspurn
Lagður fram undirritaður samningur við Motus.
Svar

Bæjarráð vísar samningnum til staðfestingar í bæjarstjórn.

Bæjarfulltrúar Samfylkingar og VG óska bókað:
Í gögnum sem tekin voru saman af embættismönnum bæjarins og liggja til grundvallar ákvörðun meirihluta bæjarráðs um að ganga til samninga við Motus hf um innheimtuþjónustu fyrir Hafnarfjarðarbæ kemur meðal annars fram að kostnaður við innheimtuna hafi reynst mjög hár og hann lendi ekki síst á tekjulágum fjölskyldum.
Í gögnunum eru líka sett fram sláandi dæmi um hvernig kostnaður getur hlaðist ofan á höfuðstól gjaldfallinna skulda sem lenda í svokallaðri lögfræðiinnheimtu hjá fyrirtækinu. Bent er á að með því sé í einhverjum tilvikum unnið gegn hagsmunum heimila sem standa frammi fyrir félagslega erfiðum aðstæðum. Kemur það heim og saman við upplýsingar um hafnfirsk börn sem nýlega útilokuð hafa verið frá leikskólum í bænum vegna vangreiddra gjalda.
Varðandi árangur af tilraunaverkefninu er líka sérstaklega bent á ekki sé hægt að meta hann án tillits til þeirra áhrifa sem almenn efnahagsþróun, t.a.m. minna atvinnuleysi, hefur á innheimtu gjalda, hjá hinu opinbera.
Í samantekt embættismannanna er lagt til að í stað þess að semja við eitt fyrirtæki um framkvæmd innheimtumála hjá sveitarfélaginu þá skuli fremur nýta aðrar þjónustuleiðir og bjóða út einstaka verkþætti, m.a. lögfræðiinnheimtuna sérstaklega.

Bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokks og Bjartrar framtíðar óska bókað:
Í janúar 2013 gerði Hafnarfjarðarbær samning um tilraunaverkefni við innheimtufyrirtækið Motus, til tveggja ára. Samningurinn var gerður án útboðs og kynntur í bæjarráði í febrúarmánuði árið 2013, þar sem bókað var eftirfarandi: ?ekki er um breytingar á núverandi innheimtuferli að ræða?.
Ábyrgð á fyrirkomulagi þjónustunnar svo sem er varðar aðferðir við innheimtu voru og eru á ábyrgð bæjarins.
Undanfarið hefur bæjarstjóri að beiðni bæjarráðs farið yfir samninginn við Motus og gert á honum breytingar, auk þess sem rýnt hefur verið í kröfur sveitarfélagsins um innheimtuaðferðir, í ljósi fenginnar reynslu.
Fram hefur komið á vettvangi bæjarstjórnar að hvers kyns mögulegar áætlanir um að hætta við útvistun innheimtu kalla á undirbúning og tíma. Því er óábyrgt að krefjast riftunar samninga um útvistun nema að undirgenginni mikilli undirbúningsvinnu. Með hliðsjón af því var samningur við Motus framlengdur út árið 2015, með breytingum, til að gefa færi á faglegri athugun á málinu.
Staða innheimtumála Hafnarfjarðarbæjar í dag byggir á ákvörðunum fyrri meirihluta í bæjarstjórn, sem gerði umræddan samning.
Nú þegar hafa verið gerðar breytingar á samningi við Motus og bæjarstjóri undirritað hann með fyrirvara um samþykki bæjarstjórnar. Að auki er stefnt að útboði á innheimtuþjónustu bæjarins, sem eðlilegu framhaldi að loknu tilraunaverkefni því sem hér um ræðir.
Bæjarráð ber nú sem fyrr ábyrgð á því að móta umgjörð innheimtunnar, ekki síst hvað varðar viðurlög við vanefndum og forsendur lögfræðiinnheimtu.
Fulltrúar Bjartrar framtíðar og Sjálfstæðisflokks leggja áherslu á að bæjarráð nálgist málið af fagmennsku og ábyrgð og án upphrópana, en taka að öðru leyti undir ábendingar minnihluta um að endurskoða þurfi forsendur fyrri samnings. Endurskoðun á samningi þeim sem fyrri meirihluti gerði hefur þegar hafist og áfram verður unnið að mótun umgjarðar innheimtumála hjá bæjarfélaginu, enda um að ræða tilraunaverkefni sem kallar á aðhald og eftirfylgni.
Á það skal bent að að þessu sinni er bæjarráð allt haft með í ráðum við gerð samningsins, hann borinn undir bæjarstjórn til samþykktar og stefnt að útboði ólíkt því sem gilti um fyrri samning.