Hellubraut 7, fyrirspurn
Hellubraut 7
Síðast tekið fyrir á fundi fyrir 12 árum síðan.
Skipulags- og byggingarráð nr. 296
3. apríl, 2012
Annað
Fyrirspurn
Skipulags- og byggingarsvið gerir grein fyrir viðræðum við Húsafriðunarnefnd. Lögð fram umsókn um breytingu á deiliskipulagi vegna afgreiðslu næstsíðasta fundar. Frestað á síðasta fundi.
Svar

Erindinu er synjað með þremur atkvæðum Samfylkingar og Vinstri Grænna gegn tveimur atkvæðum Sjálfstæðismanna.

Fulltrúar Samfylkingar og Vinstri Grænna í skipulags og byggingarráði telja ekki unnt að verða við ósk um breytingu á nýlegu deiliskipulagi, Suðurgata- Hamarsbraut í þeim tilgangi að heimila niðurrif niður núverandi húss við Hellubraut 7 og að byggt verði nýtt í staðinn.
Í nýlega samþykktu deiliskipulagi fyrir hverfið, Suðurgata-Hamarsbraut var gert ráð fyrir að húsið við Hellubraut fengi að standa og var þá horft sérstaklega til tveggja umsagna og tilmæla bæði Byggðasafns Hafnarfjarðar og Húsafriðunarnefndar ríkisins enda húsið að hluta til rúmlega 100 ára gamalt og stendur á afar áberandi stað í bæjarlandinu. Í skipulaginu var þó gefið gott svigrúm til þess að endurbyggja bakhús og stækka þannig við íbúðarrými hússins.
Við gerð núgildandi skipulags og á síðari stigum máls hefur Skipulags og byggingarráð í tvígang leitað álits bæði Byggðasafns- Hafnarfjarðar og Húsafriðunarnefndar ríkissins sem tók málið fyrir að nýju í byrjun árs 2012 eftir að gerð var önnur ástandsgreining á húsinu að hálfu umsækjenda. Meirihluti SBH tekur undir bókun Húsafriðunarnefndar frá 24. Janúar 2012 þar sem segir:

,,Ekki er talið að neitt komi fram í innsendum ástandsskýrslum sem bendi til þess að umrætt hús sé verr farið en almennt má telja um hús frá þessum tíma, en í skýrslu Strendings ehf, dags. í júlí 2011, kemur m.a. fram að ástand burðarvirkis hússins sé óþekkt. Húsafriðunarnefnd ítrekar enn mat sitt á varðveislugildi hússins, en í bréfi nefndarinnar, dags. 5. maí 2009 segir m.a. að það sé góður fulltrúi hafnfirskra timburhúsa frá upphafi 20. aldar og að tilveruréttur þess sé ótvíræður, hvort sem er út frá umhverfislegum eða menningarsögulegum sjónarmiðum. Í húsaskráningu Byggðasafns Hafnarfjarðar er komist að sömu niðurstöðu. Húsafriðunarnefnd mælist því eindregið til þess að ekki verði gefin heimild til að húsið að Hellubraut 7 hverfi af sjónarsviðinu nú, heldur verði því og þar með sögu Hafnarfjarðar sýndur sá sómi að því verði gert til góða og að það fái að standa áfram um ókomna tíð."

Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í Skipulags- og byggingarráði lýsa yfir vonbrigðum með málsmeðferð meirihlutans á fyrirspurn og umsókn um niðurrif á húsi við Hellubraut 7. Málið hefur verið tekið fyrir á fjölda funda á síðustu árum án þess að fyrirspyrjandi fái skýr svör frá meirihluta Skipulags- og byggingarráðs. Tekið er undir með fyrirspyrjenda um að: " Húsið sem óskað er eftir niðurrifi á er í slæmu ásigkomulagi. Byggingar- og viðbyggingarsaga þess hefur ekki skilið eftir góðan fulltrúa húsa frá síðustu öld. Hluti hússins telst vera byggður fyrir þau tímamörk sem höfð eru til viðmiðunar og staldrað er við þegar skoðað er varðveislugildi húsa með tilliti til byggingarsögulegra verðmæta. Þessi húshluti er löngu horfinn í graut viðbygginga og breytinga. Húsið stendur á áberandi stað og virðist úr fjarska vera reisulegt en stendur ekki undir öðru við nánari skoðun." Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja til að fyrirlyggjandi tillaga verði samþykkt.

220 Hafnarfjörður
Landnúmer: 120817 → skrá.is
Hnitnúmer: 10032501