Áslandsskóli, húsnæðis- og lóðamál
Síðast tekið fyrir á fundi fyrir 7 árum síðan.
Bæjarstjórn nr. 1735
26. nóvember, 2014
Annað
Fyrirspurn
1. liður úr fundargerð FRÆH frá 24.nóv. sl. Bæjarstjóri kynnti vinnu við húsnæðisvanda Áslandsskóla og tillögur þar að lútandi.
Fræðsluráð vísar eftirfarandi tillögu til bæjarstjórnar:
,,Bæjarstjórn Hafnarfjarðar samþykkir að hætt verði við viðbyggingu Áslandsskóla sem áætlanir gerðu ráð fyrir að myndu kosta allt að 600-700 milljónir króna. Þess í stað verði fjárfest í innra starfi skólans sem taki forystu í innleiðingu upplýsingatækni í hafnfirsku skólastarfi. Það verði m.a. gert með því að spjaldtölvuvæða alla 5. - 10. bekki og auka stöðugildi í tölvuumsjón um 50% frá 1. janúar næstkomandi. Með þessu verður tölvustofa tekin undir almenna kennslu. Samhliða verði gerðar breytingar á niðurröðun í bekkjardeildir þannig að húsnæði Áslandsskóla ásamt lausum kennslustofum, sem nú eru við skólann, hýsi alla nemendur skólans með góðu móti án stækkunar."
Svar

Rósa Guðbjartsdóttir tók til máls, Adda María Jóhannsdóttir kom að andsvari, Rósa Guðbjartsdóttir svaraði andsvari, Anna María Jóhannsdóttir kom að andsvari öðru sinni.

Gunnar Axel Axelsson tók þá til máls, Haraldur L. Haraldsson bæjarstjóri kom að andsvari við ræðu Gunnars Axels Axelssonar, Rósa Guðbjartsdóttir kom einnig að andsvari, Gunnar Axel Axelsson svaraði andsvari, Rósa Guðbjartsdóttir kom að andsvari öðru sinni, Gunnar Axel Axelssonar svaraði andsvari öðru sinni.

Haraldur L. Haraldsson bæjarstjóri tók síðan til máls, Gunnar Axel Axelsson kom að andsvari.

Helga Ingólfsdóttir tók þá til máls, síðan Borghildur Sturludóttir, þá Guðrún Ágústa Guðmundsdóttir og tók Kristinn Andersen við stjórn fundarins á meðan, Helga Ingólfsdóttir kom að andsvari við ræðu Guðrúnar Ágústu Guðmundsdóttur, Guðrún Ágústa Guðmundsdóttir svaraði andsvari, Rósa Guðbjartsdóttir kom einnig að andsvari við ræðu Guðrúnar Ágústu Guðmundsdóttur, Guðrún Ágústa Guðmundsdóttir svaraði andsvari og tók hún síðan við stjórn fundarins að nýju.

Unnur Lára Bryde tók þessu næst til máls, síðan Gunnar Axel Axelsson og lagði fram eftirfarandi frestunartillögu fyrir hönd bæjarfulltrúa Samfylkingar og Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs:
"Á fundi fræðsluráðs þann 24. nóvember sl. kynnti bæjarstjóri tillögur um fyrirkomulag húsnæðismála Hraunvallaskóla, sem samkvæmt bókun ráðsins felast m.a í breytingum innandyra svo hægt verði að koma þar fyrir fleiri nemendum næsta haust. Á sama fundi kynnti bæjarstjóri tillögur að breytingum í rekstri Áslandsskóla.
Í báðum skólum hefur verið viðvarandi húsnæðisvandi og hafa bæjaryfirvöld unnið að varanlegum lausnum á báðum stöðum. Sú vinna hefur farið fram í fullu samráði við skólaráð viðkomandi skóla, starfsfólk, nemendur og foreldra.
Í tilfelli Áslandsskóla hafa foreldrar, starfsfólk og nemendur barist í mörg ár fyrir stækkun skólans og byggingu íþróttaaðstöðu á lóðinni en erfiðlega hefur gengið að ná þar fram viðunandi lausn, m.a.. vegna þeirra sérstöku samninga sem gerðir voru á sínum tíma um byggingu hans og rekstur. Þar er skólahúsnæðið og lóðin alfarið í eigu einkaaðila og allar ákvarðanir um breytingar, t.d. viðbyggingu, háðar samningum við þá sömu aðila.
Í erindi frá skólaráði Hraunvallaskóla til Hafnarfjarðarbæjar dags. 14. október sl. kallaði ráðið eftir framtíðarlausnum í húsnæðismálum skólans. Lagði ráðið áherslu á að haft yrði samráð við skólastjórnendur, skólaráð og foreldra í því ferli.
Nú þegar liggja fyrir tillögur í málefnum beggja skóla er eðlilegt að þær séu kynntar fyrir skólaráðum þeirra og óskað umsagnar frá þeim áður en tillögurnar hljóta formlega afgreiðslu í bæjarstjórn. Væri það í samræmi við 1. mgr. 8. gr. grunnskólalaga, þar sem segir að skólaráð skuli ?fá til umsagnar áætlanir um fyrirhugaðar meiri háttar breytingar á skólahaldi og starfsemi skóla áður en endanleg ákvörðun um þær er tekin.?
Í ljósi þess að tillögurnar voru ekki kynntar fræðsluráði fyrr en sl. mánudag og ekkert hefur komið fram sem bendir til þess að nauðsynlegt sé að afgreiða þær með svo miklum hraða sem hér er lagt til, þá teljum við eðlilegt að málinu verði frestað a.m.k. til næsta fundar bæjarstjórnar. Jafnframt verði óskað eftir umsögnum frá viðkomandi skólaráðum og haldnir kynningar- og samráðsfundir með íbúum í Áslandi og á Völlum, áður en bæjarstjórn tekur endanlega afstöðu til tillagnanna.
Við leggjum því til að bæjarstjórn samþykki að fresta afgreiðslu þessa máls, sem og staðfestingu ákvörðunar fræðsluráðs frá 24. nóvember sl. varðandi húsnæðismál Hranvallaskóla."
Gunnar Axel Axelsson, Adda María Jóhannsdóttir, Ófeigur Friðriksson, Guðrún Ágústa Guðmundsdóttir.

Bæjarstjóri Haraldur L. Haraldsson tók þá til máls, Gunnar Axel Axelsson kom að andsvari við ræðu bæjarstjóra Haraldar L. Haraldssonar.
Adda María Jóhannsdóttir tók einnig til máls.

Að loknu máli Öddu Maríu Jóhannsdóttur var gengið til afgreiðslu.

Bæjarstjórn Hafnarfjarðar felldi frestunartillöguna með 7 atkvæðum gegn 4.

Bæjarstjórn Hafnarfjarðar samþykkti fyrirliggjandi tillögu fræðsluráðs með með 7 atkvæðum gegn 1, 3 bæjarfulltrúar Samfylkingar sitja hjá.

Rósa Guðbjartsdóttir lagði fram eftirfarandi bókun bæjarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins og Bjartrar framtíðar:
"Bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokks og Bjartrar framtíðar fagna því samkomulagi sem náðst hefur við skólastjórnendur Áslandsskóla um betri nýtingu skólahúsnæðis þannig að ekki þurfi til kostnaðarsamrar viðbyggingar að koma. Húsnæðismál skólans hafa verið til umfjöllunar síðastliðin tvö ár án niðurstöðu fyrr en nú og er það sérstakt fagnaðarefni að búið sé að leysa húsnæðismál skólans í góðum tíma fyrir næsta skólaár og til frambúðar. Með þessari lausn er verið að stíga farsælt skref fram á við til eflingar skólastarfs í Hafnarfirði. Málið var kynnt kjörnum fulltrúum fræðsluráðs í síðastliðinni viku og svo aftur á reglulegum fundi ráðsins í byrjun þessarar viku. Ekki er um að ræða stórvægilega breytingu á skólastarfi Áslandsskóla heldur er verið að nýta húsnæðið á annan hátt og þróa innleiðingu upplýsingatækninnar við kennslu og verður skólinn í fararbroddi þar um."
Rósa Guðbjartsdóttir, Kristinn Andersen, Unnur Lára Bryde, Helga Ingólfsdóttir, Skarphéðinn Orri Björnsson, Borghildur Sturludóttir, Pétur Óskarsson.

Gunnar Axel Axelsson gerði grein fyrir atkvæði sínu.