Félagsmiðstöðvar og heilsdagsskóli
Síðast tekið fyrir á fundi fyrir 12 árum síðan.
Bæjarráð nr. 3294
7. júlí, 2011
Annað
Fyrirspurn
Lagðar fram umsagnir sem verið hafa til umfjöllunar í fjölskyldu- og fræðsluráði.
Svar

Bæjarráð Hafnarfjarðar samþykkir að sameina rekstur heilsdagsskóla og félagsmiðstöðva í eina einingu í hverjum skóla, undir stjórn skrifstofu æskulýðsmála og fjölskylduþjónustu. Tekið er undir mikilvægi þess að samhliða verði unnið að faglegri stefnumótun í málefnum frístundastarfs eins og fram kemur í umsögn Menntavísindasviðs Háskóla Íslands.
Bæjarráð þakkar öllum þeim sem gáfu umsagnir um greinargerð starfshóps um fyrirkomulag heilsdagsskóla í Hafnarfirði og leggur áherslu á að þær séu hafðar til hliðsjónar í áframhaldandi vinnu vegna sameiningar félagsmiðstöðva og heilsdagsskóla og tilfærslu heilsdagsskólans frá fræðslusviði til skrifstofu æskulýðsmála.
Bæjarráð felur sviðsstjóra stjórnsýslu að hrinda sameiningunni í framkvæmd og leggur áherslu á mikilvægi þess að innleiðingin verði í góðu samstarfi og sátt við starfsfólk, foreldra og nemendur.

Bæjarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins bóka eftirfarandi:
Bæjarráðfulltrúar Sjálfstæðisflokksins samþykkja tillöguna þar sem mjög brýnt er að eyða þeirri óvissu sem ríkt hefur um starfsemi heilsdagsskóla og frístundaheimila í bænum undanfarin ár. Æskilegt hefði verið að fagleg og rekstrarleg úttekt á kostum og göllum sameiningarinnar hefði legið fyrir áður en til afgreiðslu kom. Einnig er bagalegt hve seint tillagan liggur fyrir þar sem aðeins eru fáeinar vikur þar til skólastarf hefst og því takmarkað svigrúm fyrir starfsfólk og aðra hagsmunaaðila til að aðlagast breytingunum. Nauðsynlegt er að endurmeta ákvörðunina að ári.