Skattframtal sveitarfélagsins 2010, fjármagnstekjuskattur
Síðast tekið fyrir á fundi fyrir 9 árum síðan.
Bæjarstjórn nr. 1744
29. apríl, 2015
Annað
Fyrirspurn
Lögð fram svör við spurningum sem fram komu á fundi bæjarstjórnar 18.mars sl.
Svar

Helga Ingólfsdóttir tók til máls, þá Gunnar Axel Axelsson, Helga Ingólfsdóttir kom að andsvari við ræðu Gunnars Axels Axelssonar, Gunnar Axel Axelsson svaraði andsvari.

Guðlaug Kristjánsdóttir tók þá til máls og tók Kristinn Andersen við stjórn fundarins á meðan, Gunnar Axel Axelsson kom að andsvari.

Guðlaug Kristjánsdóttir tók við stjórn fundarins að nýju.

Rósa Guðbjartsdóttir tók síðan til máls, Gunnar Axel Axelsson kom að andsvari.

Bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Bjartrar framtíðar lögðu fram eftirfarandi bókun:
"Áfallinn kostnaður vegna frestunar á greiðslu fjármagnstekjuskatts er yfir 90 miljónir króna fyrir bæjarsjóð.
Hafnarfjarðarbær stóð ekki skil á greiðslu fjármagnstekjuskatts vegna söluhagnaðar af hlutabréfum í HS orku hf., og hóf málarekstur sem var tvíþættur, annars vegar til niðurfellingar á skattinum og hinsvegar til lækkunar hans.
Nú eftir málarekstur fyrir tveimur dómstigum liggur fyrir að greiða þarf að fullu álagðan fjármagnstekjuskatt og við bætast dráttarvextir og dómskostnaður auk vinnu starfsfólks.
Fyrir liggur að ekki eru nein fordæmi fyrir því að sveitarfélög hafi leitað til dómstóla með sambærileg mál og því ljóst að mikil áhætta var tekin með því að greiða ekki fjármagnstekjuskattinn þegar hann féll til og þá með fyrirvara um niðurstöðu dómstóla."
Rósa Guðbjartsdóttir
Kristinn Andersen
Skarphéðinn Orri Björnsson
Kristín Thoroddsen
Helga Ingólfsdóttir
Guðlaug Kristjánsdóttir
Einar Birkir Einarsson

Bæjarfulltrúar Samfylkingar og Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs lögðu fram eftirfarandi bókun:
"Það er rangt sem fram kemur í bókun fulltrúa Sjálfstæðisflokks og Bjartrar framtíðar að ekki hafi verið staðið skil á greiðslu umrædds fjármagnstekjuskatts. Frá því að úrskurður Ríkisskattstjóra lá fyrir snemma árs 2011 hefur Hafnarfjarðarbær greitt inn á höfuðstól skuldarinnar í samræmi við samkomulag við fjármálaráðherra og með fyrirvara um endanlega niðurstöðu dómstóla.
Málsatvikin og rök bæjarins hafa líka verið öllum kunn og þau opinber. Þau eru sömuleiðis og að sjálfsögðu tíunduð í dómi héraðsdóms og síðar hæstaréttar. Á grundvelli þeirra og ráðgjafar sérfræðinga byggði bæjarráð og bæjarstjórn afstöðu sína og ákvörðun um málsframvindu. Sú staðreynd að ekki voru til fordæmi sambærilegra mála var á þeim tíma hluti af þeim rökstuðningi sem bæjarráð byggði ákvörðun sína á.
Í ljósi framlagðarar bókunar er full ástæða til að árétta að full samstaða var um málið frá fyrsta degi og fulltrúar Sjálfstæðisflokksins samþykktu það eins og fulltrúar annarra flokka á sínum tíma að láta á réttmæti skattlagningarinnar reyna fyrir dómi. Það gerðu þeir líka þegar tekin var ákvörðun um að áfrýja niðurstöðu héraðsdóms til hæstaréttar. Engir fyrirvarar eða bókanir voru gerðir af þeirra hálfu, né einstakra bæjarfulltrúa sem áttu sæti í bæjarstjórn á þeim tíma sem gáfu til kynna að þeir stæðu ekki heilir að baki sínum ákvörðunum."
Gunnar Axel Axelsson
Adda María Jóhannsdóttir
Ófeigur Friðriksson
Elva Dögg Ásudóttir Kristinsdóttir