Landspítali Hafnarfirði (St. Jósefsspítali-Sólvangur)
Síðast tekið fyrir á fundi fyrir 10 árum síðan.
Bæjarstjórn nr. 1666
12. október, 2011
Annað
Svar

Guðmundur Rúnar Árnason, bæjarstjóri, tók til máls. Geir Jónsson tók til máls. Þá Guðrún Ágústa Guðmundsdóttir, Gunnar Axel Axelsson, Sigríður Björk Jónsdóttir, Eyjólfur Sæmundsson, Kristinn Andersen og Helga Ingólfsdóttir. Þá tók til máls að nýju Guðmundur Rúnar Árnason, bæjarstjóri, og lagði fram svohljóðandi tillögu f.h. allra fulltrúa í bæjarstjórn:

Bæjarstjórn Hafnarfjarðar mótmælir harðlega ákvörðun um lokun St. Jósefsspítala í Hafnarfirði og krefst þess að hún verði endurskoðuð og sameining við LSH gangi til baka. Ákvörðunin gengur þvert á þá sátt sem lofað var og þau fyrirheit sem gefin voru, um að St. Jósefsspítali gegndi áfram mikilvægu hlutverki í nærþjónustu við íbúa í Hafnarfirði. Bæjarstjórn Hafnarfjarðar krefst þess að staðið verði við loforð velferðarráðherra um samráð og þegar verði teknar upp viðræður milli Velferðarráðherra og Hafnarfjarðarbæjar um hvernig áframhald starfsemi á St. Jósefsspítala verði tryggð. Í því sambandi ítrekar bæjarstjórnin fyrri samþykktir sínar um að taka yfir öldrunarþjónustu, heilsugæslu og alla almenna heilbrigðisþjónustu í bænum.

Greinargerð
Í byrjun þessa árs tilkynnti núverandi velferðarráðherra um þá ákvörðun sína að sameina starfsemi St. Jósefsspítala og Landsspítala. Var ákvörðunin kynnt í framhaldi af framlagningu sameiginlegra niðurstaðna verkefnahóps sem skipuð var fulltrúum beggja spítala.
Í tillögum verkefnisstjórnarinnar var gert ráð fyrir að legudeild almennra lyflækninga yrði áfram starfrækt í húsnæði St. Jósefsspítala í Hafnarfirði en að skurðstofustarfsemi, handlækningadeild og starfsemi meltingarlækninga flyttist í húsnæði Landspítala í Reykjavík. Í yfirlýsingu sem velferðarráðherra sendi frá sér í tilefni af ákvörðun sinni þann 31. Janúar sl. er það sérstaklega áréttað að ákvörðunin byggi á fyrrgreindum tillögum.

Orðrétt segir í tillögu verkefnastjórnar:
"Legudeild almennra lyflækninga verður áfram í húsnæði St. Jósefsspítala með áherslu á sjúklinga sem ekki eru bráðveikir heldur að ljúka meðferð, eða í endurhæfingu eða að bíða eftir frekari úrræðum jafnt innan Landspítala sem utan. Í völdum tilfellum verði hægt að taka á móti sjúklingum frá heilsugæslu og öldrunarþjónustu í Hafnarfirði og nágrenni en þó á sömu forsendum og með sömu öryggiskröfum og fyrir aðra sjúklinga."

Ákvörðun yfirstjórnar LSH gengur þvert á þessi fyrirheit.


Bæjarstjórn Hafnarfjarðar samþykkti framlagða tillögu með 11 samhljóða atkvæðum.