Stefnuyfirlýsing meirihluta bæjarstjórnar.
Síðast tekið fyrir á fundi fyrir 13 árum síðan.
Bæjarstjórn nr. 1639
14. júní, 2010
Annað
Svar

Guðrún Ágústa Guðmundsdóttir og lagði fram stefnuyfirlýsingu meirihluta bæjarstjórnar sem er svohljóðandi:   Velferð, lýðræði, atvinna og umhverfi fyrir fólkið í Firðinum Málefnasamningur Samfylkingar og Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs
2010 ? 2014   Meirihluti Samfylkingar og Vinstri grænna í Hafnarfirði er skipaður sex bæjarfulltrúum flokka sem eiga um margt sameiginlegar grundvallarhugsjónir. Báðir flokkar gengu til kosninga með sambærilegar áherslur varðandi hvaða þætti skyldi leggja höfuðáherslu á næsta kjörtímabili. Þessi sjónarmið nutu stuðnings nærri 60% þeirra kjósenda sem greiddu atkvæði einhverjum þeirra stjórnmálaflokka sem buðu fram í nýafstöðnum kosningum. Meirihlutinn leggur ríka áherslu á að standa vörð um félagsleg sjónarmið og lausnir. Velferð, atvinnumál, umhverfismál og þátttaka almennings, eru leiðarljós í verkefnaskrá áranna 2010-2014. Nýr meirihluti Samfylkingar og Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs í Hafnarfirði tekur við störfum við óvenjuerfiðar aðstæður í þjóðfélaginu. Fjármunir eru af skornum skammti og verkefni bæjarstjórnar verða fyrst og fremst að forgangsraða verkefnum og fylgja eftir útfærslum á frekari hagræðingu í rekstri frekar en að taka ákvörðun um ný útgjöld. Þegar kemur fram á árið 2011 er hins vegar við því að búast að hagvöxtur fari að skila sér inn í hagkerfið og þá einnig til sveitarfélaganna. En einnig þá er mikilvægt að forgangsraða í þágu þeirra sem erfiðast eiga; þeir eiga fyrstir að njóta hagvaxtarins í hinni nýju framtíð. Bæjarfélög eins og Hafnarfjörður gegna mikilvægu hlutverki í að örva hagvöxt á ný með þvi að leggja rækt við atvinnufrumkvæði á öllum sviðum.  Hinn nýji meirihluti í bæjarstjórn Hafnarfjarðar vekur athygli á þeirri djúpstæðu óánægju og vantrú sem virðist ríkjandi með stjórnarstofnanir ekki aðeins í Hafnarfirði heldur í samfélaginu öllu. Það  verður því eitt af mikilvægustu verkefnum hins nýja meirihluta að leggja sitt af mörkum til að endurreisa trú á lýðræðisleg vinnubrögð, áhrif almennings á ákvarðanir og beint lýðræði. Sérstök áhersla verður því lögð á að bæjarbúar allir, burtséð frá stjórnmálaskoðunum, geti komið sínum sjónarmiðum á framfæri við stjórn bæjarins.   Stjórnsýsla og lýðræði Meirihlutinn leggur höfuðáherslu á að bæta möguleika íbúanna á beinni þátttöku í stefnumótun og ákvarðanatöku um mál sem þá varða. Efnt verður til margvíslegra aðgerða til að tryggja aukin áhrif íbúanna og aðgang að stjórnkerfi og upplýsingum m.a. tilraunaverkefni um stofnun íbúaráða í einu eða fleiri hverfum bæjarins. Leitað verður leiða til að efla virðingu bæjarstjórnar, t.d. með því að gera breytingar á fyrirkomulagi bæjarstjórnarfunda. Haldin verður sérstök Hafnarfjarðarvika og Gaflaraþing um lýðræði og íbúagátt bæjarins virkjuð, m.a. til að kalla fram hugmyndir og sjónarmið íbúanna um starfshætti bæjarstjórnar, stjórnkerfisins og mögulegar leiðir fyrir bæjarbúa að koma hugmyndum sínum og tillögum á framfæri við bæjaryfirvöld.   Fjármál Ársreikningur Hafnarfjarðarbæjar fyrir árið 2009 sýnir að góður árangur hefur náðst með þeim hagræðingaaðgerðum sem gripið hefur verið til á undanförnum misserum.  Samráð og samvinna á milli bæjarfulltrúa og starfsmanna bæjarins er lykillinn að þessum árangri.   Á næstu fjórum árum viljum við auka enn frekar samráð og samstarf  þessara aðila með það að leiðarljósi að bæta rekstur bæjarins með hagkvæmni, aðhaldi og góðu skipulagi. Meginmarkmiðið er að tryggja jákvæða rekstrarafkomu og að  veltufé frá rekstri aukist á ný og verði að jafnaði yfir 10% af tekjum.   Styrkja þarf tekjustofna bæjarins með markvissum aðgerðum í skipulags- og atvinnumálum meðal annars með góðu samstarfi við alla hagsmunaaðila í atvinnulífi og á vinnumarkaði.  Bærinn á tilbúnar íbúða ? og atvinnulóðir sem verðmetnar eru á nærri 10 milljarða króna.  Innviðir bæjarins eru traustir og því verða lóðir í bænum eftirsóttar en tekjur af lóðasölu sem og fjölgun íbúa tryggja bænum fjármagn til niðurgreiðslu skulda og styrkir rekstur bæjarins.  Skuldir bæjarins hafa hækkað umtalsvert á undanförnum tveimur árum vegna falls krónunnar, verðlagsbreytinga, framkvæmda og lóðaskila.  Greiðslubyrði lánanna á næstu þremur árum er þung en unnið er að endurfjármögnun lánasafnins.  Peningaleg eign bæjarins sem er um 4 milljarðar króna verður notuð til að greiða niður skuldir, lenging lánstíma lánanna, sala lóða og framangreint veltufé leiða til þess að greiðslubyrði á komandi árum verður viðráðanleg.  Á kjörtímabilinu verður nýframkvæmdum haldið í lágmarki en ákvarðanir um framkvæmdir verða teknar, hverju sinni, með tilliti til efnhagsaðstæðna og fjárhagsstöðu bæjarins.  Leiðarljós okkar er ábyrg og traust fjármálastjórn og með enn betri upplýsingamiðlun um rekstur og fjárhag  bæjarins náum við settum markmiðum.   Velferð Meirihluti Samfylkingar og Vinstri grænna leggur áherslu á að standa vörð um velferðarþjónustuna í Hafnarfirði. Hún á að vera fyrir alla og miðast við aðstæður, vilja og þarfir hvers og eins. Í því felst m.a., að þjónusta félagsþjónustunnar verður styrkt og efld, með áherslu á fyrirbyggjandi úrræði, svo sem skólastyrki og virkniúrræði. Stefnt er að því að samþætta enn betur félagslega heimaþjónustu, heimahjúkrun og heilsugæslu. Endurskoðun Framkvæmdaáætlunar í barnavernd hefst árið 2010 og lögð verður sérstök áhersla á fyrirbyggjandi úrræði í barnavernd.   Atvinna Meirihluti Samfylkingar og vinstri grænna leggur áherslu á fjölbreytt atvinnulíf á forsendum sjálfbærrar þróunar og í samræmi við fyrirhugaða umhverfis- og auðlindastefnu Hafnarfjarðarbæjar. Höfuðáhersla verður lögð á að tryggja áframhaldandi uppbyggingu á þeim verðmætu atvinnusvæðum sem Hafnarfjarðarbær hefur yfir að ráða og eru tilbúin til notkunar.  Sérstök rækt verður lögð við nýsköpun og sprotastarfsemi. Mikilvægt er að tryggja að atvinnu- og efnahagsuppbygging miði að atvinnu­þátttöku kvenna jafnt sem karla og stuðlað verður að kjarajöfnun og að útrýma kynbundnum launamun. Leitað verður leiða til að tryggja skólafólki sumarvinnu eða möguleika til að stunda nám og rannsóknir yfir sumarmánuðina   Umhverfi, skipulag  og auðlindir Á sviði skipulagsmála leggur meirihluti Samfylkingar og Vinstri grænna áherslu á vistvæna nálgun, bæði hvað varðar skipulagsgerð og hönnun mannvirkja. Skipulagsvinna taki mið af þörfum íbúa og atvinnulífs, um leið og þess er gætt að byggingaframkvæmdir séu í sátt við landfræðilegar aðstæður. Styrkja þarf grundvöll fyrir sjálfbærni í einstökum hverfum bæjarins, m.a. með eflingu almenningssamgangna því góðar samgöngur og almenn umhverfisvitund er lykillinn að farsælli sambúð manns og náttúru.  Mörkuð verður sérstök auðlindastefna fyrir Hafnarfjörð. Sérstaklega verður hugað að varðveislu menningarlegra sérkenna bæjarins hvað varðar byggingarlist, sögu, minjar og náttúrufar.   Menntun og fræðsla Áhersla verður lögð á markvissa framþróun í leik- og grunnskólum og sérstaklega horft til menntunar á sviði lýðræðis og mannréttinda, jafnréttis, félagsfærni og umhverfisverndar. Aðkoma íbúa og starfsfólks skóla að hugmyndavinnu um þróun og uppbyggingu skólastarfs verður efld. Starfsemi sem snýr að rannsóknum á gæðum skólastarfs og frekari stuðningi við skólanna verður styrkt. Áhersla verður lögð á að standa vörð um starfsemi hverfisskóla. Fagleg stjórnun heilsdagsskólans verði aukin með breyttri skipan hans. Aukið samstarf um skipulag tónlistarnáms á hefðbundnum skólatíma verði á milli tónlistarskóla og grunnskóla. Stefnt skal að því að holl morgunmáltíð verði fyrir börn í öllum skólum Hafnarfjarðar þeim að kostnaðarlausu. Hugað verði að fyrstu skrefum í átt að gjaldleysi grunnskólans á afmörkuðu sviði fyrir lok kjörtímabilsins. Við skipulag skólamáltíða verður lögð aukin áhersla á manneldismarkmið og frekari samþættingu skólamáltíða við nám um lýðheilsu og heilbrigt líferni.   Íþróttir, æskulýðsmál, tómstundir og forvarnir Meirihluti Samfylkingar og VG leggur sérstaka áherslu á heilbrigðan lífstíl og almenna lýðheilsu  og forvarnir í víðasta skilningi þess verða í forgrunni þegar kemur að íþrótta-, æskulýðs- og tómstundastarfi. Áfram verður lögð rík áhersla á þverfaglegt samstarf allra sem koma að íþróttum, tómstundum, æskulýðsmálum og forvörnum í bænum. Leitast verður við að skapa þá umgjörð um íþrótta-, æskulýðs- og tómstundaumhverfi þar sem jöfnuður og sanngirni ríkir og allir geti fundið eitthvað við sitt hæfi. Áfram verður lögð áhersla á íþróttabæinn Hafnarfjörð með stuðningi við félög, iðkendur og foreldra.   Menning Menning er í senn sjálfstæð atvinnugrein og undirstaða annarra atvinnuvega, skapandi hugsunar, uppspretta nýsköpunar og verðmætasköpunar. Lögð verður  áhersla á gildi menningar fyrir frjálsa hugsun, víðsýni og umburðarlyndi, ekki síst í tengslum við skólastarf. Tryggja þarf að börn hafi jafnan aðgang að menningu og komist í kynni við fjölbreytta menningarstarfsemi. Lögð verður áhersla á að rækta sérkenni, menningararf og einkenni Hafnarfjarðar, þ.m.t. höfnina, gömlu timburhúsabyggðina og hraunið í bæjarlandinu. Gert verði átak í að merkja með sýnilegum hætti gömul hús í bænum með upprunalegum nöfnum.   Í samræmi við framangreind markmið mun meirihluti Samfylkingar og Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs leggja höfuðáherslu á ábyrga fjármálastjórn, velferð, lýðræði atvinnu og umhverfi fyrir fólkið í Firðinum.     Valdimar Svavarsson tók til máls og lagði fram svohljóðandi bókun f.h. fulltrúa Sjálfstæðisflokks: "Bæjarfulltrúar sjálfstæðisflokksins munu á komandi kjörtímabili fyrst og fremst starfa með hag og hagsmuni Hafnfirðinga að leiðarljósi. Við munum hér eftir sem áður fyrr veita góðum málum brautargengi og standa með meiri hlutanum í þeim, eins og við gerum ráð fyrir því meirihlutinn muni styðja góð mál sem Sjálfstæðismen munu leggja fram. Bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins munu jafnframt veita meirihlutanum málefnalega stjórnarandstöðu og standa þannig með hagsmunum Hafnfirðinga. Það er ljóst að erfið fjárhagsstaða bæjarins og atvinnu mál verða helsta verkefni næstu bæjarstjórnar og munu Sjálfstæðismenn leggja sitt að mörkum í þeim efnum."  Valdimar Svavarsson (sign) Rósa Guðbjartsdóttir (sign) Ólafur Ingi Tómasson (sign) Geir Jónsson (sign) Helga Ingólfsdóttir (sign)