Ársreikningur Hafnarfjarðarkaupstaðar 2009,síðari umræða.
Síðast tekið fyrir á fundi fyrir 13 árum síðan.
Bæjarstjórn nr. 1638
19. maí, 2010
Annað
‹ 15
16
Fyrirspurn
8. liður úr fundargerð BÆJH frá 29.apríl sl. Lagður fram ársreikningur 2009 fyrir bæjarsjóð Hafnarfjarðarkaupstaðar og fyrirtækja hans.
Bæjarráð vísar ársreikningunum til fyrri umræðu í bæjarstjórn. Bæjarstjórn Hafnarfjarðar samþykkti með 11 samhljóða atkvæðum að vísa ársreikningi 2009 til annarrar umræðu í bæjarstjórn.
Svar

Lúðvík Geirsson, bæjarstjóri, tók til máls. Þá tók til máls Haraldur Þór Ólason. Gunnar Svavarsson kom að andsvari. Haraldur Þór Ólason svaraði andsvari. Gunnar Svavarsson kom að andsvari öðru sinni. Guðrún Ágústa Guðmundsdóttir tók til máls. Gunnar Svavarsson kom að andsvari. Guðrún Ágústa Guðmundsdóttir svaraði andsvari. Eyjólfur Sæmundsson kom að andsvari við fyrri ræðu Guðrúnar Ágústu Guðmundsdóttur. Guðrún Ágústa Guðmundsdóttir svaraði andsvari. Eyjólfur Sæmundsson kom að andsvari öðru sinni. Guðrún Ágústa Guðmundsdóttir svaraði andsvari öðru sinni. Bæjarstjóri, Lúðvík Geirsson, tók til máls. Haraldur Þór Ólason kom að andsvari. Lúðvík Geirsson svaraði andsvari. Rósa Guðbjartsdóttir tók til máls. Þá Gunnar Svavarsson, Almar Grímsson. Rósa Guðbjartsdóttir tók til máls. Þá Lúðvík Geirsson. Haraldur Þór Ólason tók til máls. Gunnar Svavarsson kom að andsvari. Haraldur Þór Ólason svaraði andsvari. Gunnar Svavarsson kom að andsvari öðru sinni. Haraldur Þór Ólason svaraði andsvari öðru sinni. Gunnar Svavarsson tók til máls. Gert stutt fundarhlé.   Bæjarstjórn Hafnarfjarðar samþykkti (A-hluta) ársreikning Aðalsjóðs, ársreikning Eignasjóðs og ársreikning GN-eigna ehf. með 7 atkvæðum, 4 sátu hjá.
Bæjarstjórn Hafnarfjarðar samþykkti (B-hluta) ársreikning Hafnarfjarðarhafnar,
ársreikning húsnæðisskrifstofu; ársreikning Fráveitu og ársreikning Vatnsveitu með 7 atkvæðum, 4 sátu hjá. Bæjarstjórn Hafnarfjarðar samþykkti sameiginlegan ársreikning A- og B-hluta með 7 atkvæðum, 4 sátu hjá.   Haraldur Þór Ólason kom að svohljóðandi bókun f.h. fulltrúa Sjálfstæðisflokks: "Ársreikningur Hafnarfjarðarbæjar 2009 sýnir svo ekki verði um villst að núverandi meirihluti Samfylkingarinnar hefur ekki náð tökum á rekstri bæjarins og þess vegna verður það megin verkefni næstu bæjarstjórnar að sýna aðhald og skynsemi í rekstri bæjarfélagsins.   Við fyrstu sýn getur virst sem jákvæður viðsnúningur sé í rekstri Hafnarfjarðarbæjar.  Það er hins vegar tálsýn sem Samfylkingin reynir að hamra á. Ein leið til að hagræða tölum var að ársreikningi fyrir 2008 sem afgreiddur var í bæjarstjórn fyrir ári síðan hefur verið breytt vegna þess að söluhagnaður af eignarhlut Hafnarfjarðarbæjar í Hitaveitu Suðurnesja reyndist tæplega 1,5 milljarði króna lægri en bókfært var í ársreikningi. Með einu pennastriki hefur ársreikningi 2008 verið breytt þannig að rekstarhallisamstæðunnar þ.e.  A og B hluta varð ekki 4,2 milljarðar króna heldur hvorki meira né minna en 5,67 milljarðar króna.   Önnur leið sem Samfylkingin hefur farið er að blása út eigið fé Hafnarfjarðar með því að nýta sér nýja heimild í reikningsskilum um að færa öll lönd og leigulóðir sem eignir í efnhagsreikningi bæjarins. Þessari bókhaldsaðferð hefur einn virtasti og reyndasti  sveitarstjórnarmaður landsins mótmælt enda ljóst að sumar lóðir verða aldrei seldar og því eigi ekki að eignfæra út frá ímynduðu markaðsverði. Þessi aðferð er öll ómarkviss og til þess eins fallin að þenja út efnhagsreikninginn til að auka rými til nýrrar lántöku og framlengingar eldri lána. Jafnframt reynir Samfylkingin með þessu að draga athygli frá erfiðri skuldastöðu.   Eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga sendi Bæjarstjórn Hafnarfjarðarbæjar bréf dags. 1. okt. 2009 þar sem óskað var skýringa á hvernig bæjarstjórn hyggðist bregðast við erfiðri fjárhagsstöðu. Var vísað til niðurstöðu ársreiknings 2008 eins og hann lá fyrir þá og vísað til þess mikla halla sem varð á rekstrinum og að skuldir í hlutfalli við tekjur væru orðnar 275 % og skuldir á hvern íbúa voru þá 1 milljón 349 þúsund krónur á hvern íbúa. Það gefur auga leið að athugasemdir eftirlitsnefndarinnar hefðu orðið mun alvarlegri ef hin raunverulega staða hefði verið ljós. Bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins gera þá kröfu að ársreikningur fyrir 2008 verði endurgerður og birtur í endanlegri mynd.   Skuldastaða bæjarins hefur enn farið á verri veg og eru heildarskuldir bæjarins nú 41,7 milljarðar króna. Þar með eru skuldir bæjarins nú 1,6 milljónir króna á hvern íbúa í Hafnfirði sem er með því allra hæsta sem þekkist á landinu. Þetta þýðir að skuldabaggi bæjarins er sem nemur um 9 milljónum króna á hverja 5 manna fjölskyldu.   Samkvæmt ársreikningi 2009 varð halli á rekstri A og B hluta 1,7 milljarður króna. Það er athyglisvert í þessu sambandi að sjá að fjárhagsáætlun Samfylkingarinnar fyrir 2009 hefur engan veginn staðist. Fjárhagsáætlunin gerði ráð fyrir 500 milljón króna afgangi en niðurstaðan varð meira en 2 milljörðum króna lakari.   Veltufé frá rekstri er sá mælikvarði á afkomu sem sýnir hver geta bæjarfélagsins er til að framkvæma og greiða afborganir og vexti af lánum. Samkvæmt ársreikningum fyrir árið 2009 er veltufé frá rekstri A og B hluta 686 milljónir króna en ef horft er til þess að afborganir af langtímaskuldum eru áætlaðar nær 6 milljarðar króna 2010 er ljóst að bæjarfélagið hefur enga burði til framkvæmda né getur það staðið straum af skuldbindingum sínum nema til komi stóraukin hagræðing í rekstri og endurfjármögnun lána.   Bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins fluttu tillögu um þverpólitíska samstöðu í bæjarráði og bæjarstjórn um endurfjármögnun lána. Með þessu er boðið upp á að leggja til hliðar pólitískar væringar og taka saman af festu á fjármálum bæjarins þannig að komist verði hjá íhlutun ríkisvaldsins í málefni bæjarins. Því miður hefur Samfylkingin ekki sýnt áhuga á að taka á þessum málum en hefur valið að afneita staðreyndum m.a. með endurmati á eignum og þar með bókhaldslegrar lagfæringar á eiginfjárstöðu. Skuldastaða bæjarins er hins vegar jafn erfið sama hve hátt eignir eru metnar. Eftir 8 ára valdastjórn Samfylkingarinnar er mál að linni. Sjálfstæðisflokkurinn er  reiðubúinn að vinna með öðrum flokkum að bættri fjárhagsstöðu bæjarins. Til að þar náist árangur þurfa allir flokkar að vinna saman í góðri samvinnu við íbúa Hafnarfjarðar."     Haraldur Þór Ólason (sign) Rósa Guðbjartsdóttir  (sign) Almar Grímsson (sign)   Guðrún Ágústa Guðmundsdóttir kom að svohljóðandi bókun Vinstri grænna: "Ársreikningur Hafnarfjarðarbæjar fyrir árið 2009 sýnir að afkoma bæjarsjóðs Hafnarfjarðar er mjög slæm. Rétt er þó að hafa í huga að ytri skilyrði hafa verið óhagstæð frá því á seinnihluta ársins 2008. Það breytir því ekki að ábyrgðin á stöðu sveitarfélagsins er á höndum bæjarstjórnar og ekki er eingöngu hægt að kenna um því  efnahagsástandi sem nú er í íslensku samfélagi. Mikill viðsnúningur hefur orðið á rekstri bæjarins svo nemur tveim milljörðum króna. Það er ekki síst fjármálastjóra, starfsfólki sveitarfélagsins og þverpólitískri samvinnu að þakka að þessum mikla árangri hefur verið náð í að draga úr kostnaði við rekstur sveitarfélagsins með því að viðhafa betri vinnubrögð í framkvæmd og umgjörð fjármála hjá Hafnarfirði eftir efnahagshrunið síðla árs 2008. Hafnarfjörður er eitt þeirra sveitarfélaga, sem hafa verið til sérstakrar skoðunar hjá eftirlitsnefnd um fjármál sveitarfélaga. Nefndin byggði inngrip sitt á fyrirliggjandi gögnum úr ársreikningi bæjarsjóðs Hafnarfjarðar frá árinu 2008 sem nú hefur komið í ljós að hefur verið breytt í kjölfar uppgjörs vegna sölu á hlut Hafnarfjarðar í Hitaveitu Suðurnesja. Eftirlitsnefndin byggði viðbrögð sín á fjárhagsáætlun fyrir árið 2010 en þar er m.a. gerð óútfærð hagræðingakrafa upp á 300 milljónir á fræðslusvið bæjarins sem ekki hefur verið hægt að sýna fram á að verði hægt að uppfylla. Beint samband er á milli stefnu meirihluta bæjarstjórnar síðustu árin og fjárhagsstöðu sveitarfélagsins. Sú stefna hefur einkennst af mikilli þenslu í uppbyggingu sveitarfélagsins, sem skellur nú á Hafnarfirði eins og öðrum sveitarfélögum, sem m.a. hafa tekið þátt í samkeppni um að bjóða sem flestar lóðir til sölu í sínu sveitarfélagi. Útþenslustefna síðustu ára hefur leitt til þess, að samkvæmt ársreikningi Hafnarfjarðarbæjar 2009, eru skuldir og skuldbindingar hvers íbúa rúmar sextánhundruð þúsund krónur. Það er ljóst að það þarf að leggja áherslu á skynsemi, hagsýni og nýtni við stjórn bæjarins á næsta kjörtímabili og að tekið sé á málum af festu. Breyttar reikningsskilaaðferðir
Í samræmi við Reikningsskila- og upplýsinganefnd sveitarfélaga voru gerðar breytingar á reikningsskilaaðferðum sveitarfélagsins. Það gerir það að verkum að leigusamningar vegna fasteigna og annarra mannvirkja og lóðir og lendur sem Hafnarfjörður hefur leigutekjur af, eru taldar fram til hækkunar á eigin fé sem nemur tæpum 5,7 milljörðum. Eigin fé A hlutans hefði orðið neikvætt um rúman 1,6 milljarð ef þessi breyting hefði ekki komið til. Reikningsskilaaðferðirnar hafa verið gagnrýndar af sviðsstjóra hag- og upplýsingasviðs Sambands íslenskra sveitarfélaga þar sem verið sé að eignfæra leigutekjur sem ekki séu í hendi; leigutekjur af lóðum sem e.t.v. verða aldrei seldar og eru eignfærðar út frá ímynduðuð markaðsvirði. Hér sé með öðrum orðum verið að þenja út efnahagsreikning sveitarfélagsins á óvarfærinn hátt og á hæpnum forsendum. Uppgjör vegna sölu á hlut Hafnarfjarðar í Hitaveitu Suðurnesja
Í ársreikningi 2008 var tekjufærður söluhagnaður og dráttarvextir vegna sölu á 95% af eignarhlut Hafnarfjarðar í Hitaveitu Suðurnesja frá 2. júlí 2007. Ágreiningur var á milli aðila vegna uppgjörs á sölunni og náðist samkomulag um ágreininginn í lok ágúst 2009. Í stað þess að færa inn leiðréttingu upp á 1,4 milljarð í ársreikning 2009, er búið að leiðrétta samanburðartölur fyrir árið 2008 í samræmi við breyttar forsendur. Það að breyta ársreikningi 2008 með þessum hætti, án þess að það sé samþykkt af bæjarstjórn, getur varla talist til góðrar stjórnsýslu. Í Hafnarfirði hefur í tvö kjörtímabil verið eins flokks meirihluti. Slíkir meirihlutar hafa tilhneigingu til þess að missa tökin á sjálfum sér og glata markmiðum sínum. Gleyma því fyrir hverja þeir starfa og hvaðan umboð þeirra kemur. Vald er vandmeðfarið og það er erfitt hlutskipti að stjórna með hreinan meirihluta. Þá geta stjórnunarhættir orðið einsleitir og hafnir yfir sjálfsgagnrýni. Rekstur og fjárhagsstaða
Rekstrarniðurstaða sveitarfélagsins er neikvæð um tæpan 1.7 milljarð króna í A og B hluta á árinu en rúman 1,5 milljarð fyrir A hluta. Veltufé frá rekstri A og B hluta var 686 milljónir en ekki nema 25 milljónir í A hluta. Skuldir A og B hluta voru rúmlega 41,5 milljarður, en rúmir 33 milljarðar í A hluta í árslok 2009. Mismunur á tekjum og gjöldum Aðalsjóðs var jákvæður um 14 milljónir en rekstrarniðurstaða A hluta neikvæður um rúman einn og hálfan milljarð. Veltufé frá rekstri er aðeins 25 milljónir í A hluta en þyrfti að lágmarki að vera 1,2 milljarður eða um 10% af rekstrartekjum til að standa undir afborgunum og fjárfestingum. Það er því ljóst að hér skeikar 1175 milljónum króna, til að það náist. Ársreikningur Hafnarfjarðarbæjar árið 2009 sýnir að skoða þarf vel grunnþjónustu bæjarins, í hverju hún felst og að hún sé greidd úr sameiginlegum sjóðum. Bæjarstjórn þarf að gæta að jöfnum rétti allra til aðgengis að þjónustu, hvetja til þátttöku og gera hana mögulega. Meirihluti næsta kjörtímabils
Sá meirihluti sem tekur við stjórnartaumunum næstu fjögur árin verður að grundvalla stefnu sína á félagslegu réttlæti, jöfnuði, sjálfbærri þróun, að auðlindir sveitarfélagsins séu tryggar í samfélagslegri eigu, mannréttindum og kvenfrelsi. Þannig bær er ekki bara góður fyrir suma, heldur alla. Eina leiðin til að tryggja slíkar áherslur í rekstri sveitarfélagsins næstu fjögur ár er með því að auka vægi Vinstri grænna í bæjarstjórn Hafnarfjarðar." Guðrún Ágústa Guðmundsdóttir (sign) Lúðvík Geirsson kom að svohljóðandi bókun fulltrúa Samfylkingar: "Fjárhagsstaða Hafnarfjarðarbæjar styrktist verulega á sl. ári  og veruleg umskipti urðu til hins betra frá hrunárinu 2008.  Gott jafnvægi er komið á almennan rekstur bæjarins en almennar hagræðingaraðgerðir hafa skilað umtalsverðum árangri til að vega á móti tekjufalli vegna almenns samdráttar og atvinnuleysis.   Með samstilltu átaki starfsmanna og stjórnenda bæjarfélagsins hefur náðst jákvæður umsnúningur uppá nær tvo milljarða króna.  Almenn rekstrarútgjöld eru í góðu samræmi við áætlanir á árinu 2009 og sama niðurstaða liggur fyrir í fyrsta ársfjórðungsuppgjöri fyrir yfirstandandi ár. Eignastaða Hafnarfjarðarkaupstaðar er sterk. Bókfærðar eignir bæjarfélagsins hafa aukist um nær 11 milljarða á sama tíma og heildarskuldir jukust um 4.6 milljarða, en þar er að stærstum hluta um að ræða skuldfærslu á einkaframkvæmdasamningum sem bæjarfélagið hefur yfirtekið og voru áður skráðir utan efnahags.  Rekstrarniðurstaða A hluta fyrir fjármagnsliði var jákvæð um 409 millj.kr. og A og B hluta jákvæð um 973 millj.kr.   Fjármagnsliðir hafa hins vegar neikvæð áhrif á heildarniðurstöðu reikninganna meðal annars vegna óhagstæðrar verðlags- og gengisþróunar á árinu. Vextir af erlendum langtímalánum lækkuðu verulega á árinu 2009 og hafa lækkað enn frekar á árinu 2010, auk þess sem gengisþróun lánasafnsins hefur verið jákvæð það sem af er þessu ári um liðlega 300 milljónir króna. Rekstrargjöld í A hluta lækkuðu  milli áranna 2008 og 2009 um 1.640 millj.kr. og  í A og B hluta 1.740 millj.kr. sem sýnir að þær hagræðingaraðgerðir sem farið var í, skiluðu verulegum  árangri.  Á sama tíma var lögð höfuðáhersla á að tryggja velferð og grunnþjónustu bæjarbúa og verja öll störf hjá bæjarfélaginu.  Með virkum aðhaldsaðerðum og samstilltu átaka náðist þessi góði árangur.  Þannig lækkaði til að mynda launakostnaður á milli ára þrátt fyrir samningshækkanir, hækkun lífeyrisiðgjalds og tryggingagjalds.   Stærsta einstaka hagræðingarátakið á árinu 2009 voru uppkaup bæjarfélagsins með langtímalánum á fjórum einkaframkvæmdasamningum af þrotabúi Nýsis hf. sem fjármagnaðir voru með langtímalánum. Yfirtaka þessara eigna skilar bænum verulegri hagræðingu í rekstri auk eignarmyndunar sem ekki var fyrir hendi í þessum einkaframkvæmdasamningum sem gerðir voru í meirihlutatíð Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks fyrir réttum áratug.   Heildareignir A hluta námu í árslok 37.318 millj.kr. og hækkuðu úr 29.271 millj.kr eða um 8.047 millj.kr.  Heildareignir A og B hluta námu í árslok 48.585 millj.kr. og hækkuðu úr 37.924 millj.kr eða um 10.661 millj.kr   Heilarfjárfestingar voru uppá nær 6 milljarða króna.   Skuldir og skuldbindingar í A og B  hluta námu 41.663 millj.kr og hækkuðu um 4.833 millj.kr. á árinu.   Ný lán námu 6.003 millj.kr. þar af um 4 milljarðar vegna yfirtöku einkaframkvæmdasamninga og afborganir námu 1.252 millj.kr. Eigið fé í árslok nam 6.922 millj.kr.   
Í samræmi við breyttar reikningsskilareglur voru leigulóðir bæjarins metnar á 6.653 millj.kr og  leigueignir um 840 millj.kr.  Jafnframt voru leiguíbúðir endurmetnar um 1.840 millj.kr. til fasteignamatsverðs.   Eignaskráning sem bæjarfélagið framkvæmdi í samvinnu við endurskoðendur bæjarins KPMG hf. sýnir að eignir bæjarins eru vanmetnar í efnahagsreikningi upp á rúma 35 milljarða króna.

Í kjölfar efnahagshrunsins í október 2008 hefur orðið verulegur samdráttur í byggingarframkvæmdum og bæjarfélagið orðið að greiða út verulegar fjárhæðir vegna skila á byggingalóðum á íbúða- og atvinnusvæðum. Alls námu þessar bakfærslur lóðaskila á árinu 2007 til 2009 liðlega 8,2 milljörðum króna, en heildareignir bæjarfélagsins í tilbúnum íbúða- og atvinnulóðum eru metnar á um 9,8 milljarðar króna samkvæmt gildandi verðskrá í árslok.    Á þeim 8 árum sem Samfylkingin hefur farið með stjórn bæjarmála í Hafnarfirði hafa verið miklir framfaratímar,  jafnt í almennri uppbyggingu bæjafélagsins sem og velferð og bættri þjónustu við íbúa á öllum sviðum.  Á þessum 8 árum hefur bæjarbúum fjölgað um 25% eða um nær 6000 manns.  Það segir segir sína sögu hvar fólk sækist eftir að eiga sitt heimili í traustu og góðu samfélagi.   Að undanskildu hrunárinu 2008 hefur almennur rekstur bæjarfélagsins verið að styrkjast ár frá ári, veltufé frá rekstri farið stórum vaxandi, rekstrarafkoma verið jákvæð og framleg frá rekstrinum á undanförnum 8 árum hefur staðið undir um 40% af heildarfjárfestinum bæjarfélagsins á þessum sama tíma.   Eftir áfall efnhagshrunsins 2008 hefur með samstilltu átaki tekist að snúa blaðinu við og styrkja á ný fjárhagslega stöðu bæjarfélagsins.  Mikilvægt er að halda áfram á sömu braut í góðri sátt og samvinnu við bæjarbúa.  Hafnarfjarðarbæ nýtti vel góðar ytri aðstæður undanfarinna ára til að byggja upp og styrkja grunnstoðir bæjarfélagsins.  Við höfum fjárfest til framtíðar og á þeim grunni og sterku eignastöðu hefur Hafnarfjörður forskot og mikil tækifæri til að styrkja enn frekar bæði efnhagslega og atvinnulega stöðu bæjarfélagsins." Lúðvík Geirsson (sign) Guðmundur Rúnar Árnason (sign) Helena Mjöll Jóhannsdóttir (sign) Guðfinna Guðmundsdóttir (sign) Gunnar Svavarsson (sign) Gísli Ó. Valdimarsson (sign) Eyjólfur Sæmundsson (sign)   Gunnar Svavarsson kom að svohljóðandi bókun: "Takk fyrir búið"