Fjárhagsáætlun 2022-2025
Síðast tekið fyrir á fundi fyrir 2 árum síðan.
Bæjarstjórn nr. 42
15. desember, 2021
Annað
Fyrirspurn
Síðari umræða.
Svar

Gísli Halldór Halldórsson, bæjarstjóri, tekur til máls og kynnir breytingar á fjárhagsáætlun og 3ja ára áætlun milli umræðna.

Ari Björn Thorarensen, D-lista, Gísli Halldór Halldórsson, bæjarstjóri, Gunnar Egilsson, D-lista, Tómas Ellert Tómasson, M-lista, Eggert Valur Guðmundsson, S-lista, Sigurjón Vídalín Guðmundsson, Á-lista og Arna Ír Gunnarsdóttir, S-lista, taka til máls.


Fjárhagsáætlun 2022 og 3ja ára áætlun eru bornar undir atkvæði og samþykktar með 5 atkvæðum gegn 4 atkvæðum bæjarfulltrúa D-lista.


Eggert Valur Guðmundsson, S-lista gerir grein fyrir atkvæði sínu og leggur fram f.h. bæjarfulltrúa meirihlutans eftirfarandi bókun:

Framlögð fjárhagsáætlun vegna áranna 2022-2025, lýsir ágætlega þeirri stöðu sem mörg sveitarfélög eru í m.a. vegna afleiðinga kórónuveirunnar sem hefur orsakað eina dýpstu efnahagskreppu sögunnar. Sveitarfélagið Árborg hefur auk þess staðið fyrir gríðarlegri uppbyggingu innviða á undanförnum árum til að koma á móts við þá fordæmalausu fjölgun íbúa sem orðið hefur í sveitarfélaginu.

Það er krefjandi verkefni að taka á móti svo mikilli fólksfjölgun eins og raunin hefur verið á skömmum tíma og hefur það þýtt að nauðsynlegt hefur verið að taka miklar upphæðir að láni, til fjármögnunar. Með aukinni verðbólgu á árinu 2021 og spá fyrir árið 2022, þýðir háar upphæðir í vexti og verðbætur. Eins og glöggt má sjá á áætluninni þá verður næsta ár erfitt í rekstri en síðan mun reksturinn batna verulega árin á eftir þegar þeirri uppbyggingu sem nú þegar er hafin mun ljúka.

Áfram er þó nauðsynlegt að vera vel á verði gagnvart rekstrinum og passa vel uppá að hvergi séu útgjöld sem ekki eru nauðsynleg til að veita þá þjónustu sem íbúar og aðrir telja nauðsynlega til að gott sé að búa í sveitarfélaginu. Núverandi meirihluti í Svf. Árborg er þess fullviss að rekstur sveitarfélagsins sé á réttri leið þó vissulega hafi hann verið þungur undanfarin tvö ár og verði það eitthvað áfram.

Að lokum viljum við þakka starfsfólki sveitarfélagsins fyrir óeigingjarna vinnu við gerð þessarar fjárhagsáætlunar um leið við óskum starfsmönnum og öllum íbúum sveitarfélagsins gleðilegra jóla og farsældar á nýju ári.
Arna Ír Gunnarsdóttir, S-lista.
Eggert Valur Guðmundsson, S-lista.
Helgi Sigurður Haraldsson, B-lista.
Sigurjón Vídalín Guðmundsson, Á-lista.
Tómas Ellert Tómasson, M-lista.


Gunnar Egilsson, D-lista gerir grein fyrir atkvæði sínu og leggur fram f.h. bæjarfulltrúa D-lista eftirfarandi bókun:

Þegar horft er á fjárhagsáætlun fyrir árið 2022 er rétt að rifja upp hvernig áætlun síðustu ára hefur staðist.

Í fjárhagsáætlun fyrir árið 2019 var reiknað með 306 millj.kr. í hagnað. Rauntölur urðu 136 milljóna tap.

Í fjárhagsáætlun fyrir árið 2020 var reiknað með 213 millj.kr. í hagnað. Rauntölur urðu 950 milljóna tap.

Í fjárhagsáætlun fyrir árið 2021 var reiknað með 449 millj.kr. halla. Rauntölur verða um 2,2- 2,5 milljarðar í tap, eða um 5x meira tap en áætlun sýnir.

Í fjárhagsáætlun fyrir árið 2022 er reiknað með 1,055 millj.kr. tapi. En hverjar verða rauntölur ? Ef við skoðum þróun síðustu ára þá getur tapið orðið tvisvar til fimm sinnum meira en áætlað hefur verið. Síðustu ár hefur verið óráðsía og óstjórn á fjármunum bæjarins með aukinni skuldasöfnun og lántöku enda hafa skuldir sveitarfélagsins hækkað um 100%.

Ekkert aðhald er sýnt, hvorki í rekstri né í fjárfestingum. Ekki má gleyma því að bæjarstjórn er fer með vörslu almannafjár, en það virðist svo að þessi meirihluti, S,B, M og Á lista skilji ekki það hlutverk.

Verðbólgan er á uppleið! Bankarnir spá 4,2-5,1% hækkun og Hagstofan 3,3%, sem er alveg óraunhæft. Nær væri að reikna með 4% hækkun og hafa borð fyrir báru í áætlun, en þessi meirihluti reynir að sýna verðbólguna sem lægsta til að sýna minna tap. Þessi meirihluti er búinn að setja sveitarfélagið í gjörgæslu fyrir komandi kynslóðir með óráðsíu. Nú á að fjölga bæjarfulltrúum með tilheyrandi kostnaði, sem er um 32 millj.kr. aukalega! Það bætist enn við tapið og stjórnsýslan verður enn snúnari og ómarkvissari. Við Sjálfstæðismenn höfum gagnrýnt fjárhagsáætlanir með rökum, málefnalega, en meirihlutinn hefur alltaf farið í manninn en ekki málefnin. Ekki er tekið á hlutum með festu og skynsemi. Því getum við fulltrúar D-lista ekki samþykkt þessa áætlun.
Bæjarfulltrúar D listans
Gunnar Egilsson
Brynhildur Jónsdóttir
Kjartan Björnsson
Ari björn Thorarensen