Ársreikningur 2020
Síðast tekið fyrir á fundi fyrir 2 árum síðan.
Bæjarstjórn nr. 36
12. maí, 2021
Annað
Fyrirspurn
Seinni umræða.
Svar

Ari B. Thorarensen, D-lista, Gísli H. Halldórsson, bæjarstjóri, Brynhildur Jónsdóttir, D-lista, Kjartan Björnsson, D-lista, Tómas Ellert Tómasson, M-lista, Eggert Valur Guðmundsson, S-lista, Arna Ír Gunnarsdóttir, S-lista, Helgi S. Haraldsson, B-lista, Sigurjón Vídalín Guðnundsson, Á-lista og Sveinn Ægir Birgisson, varafulltrúi D-lista taka til máls.
Ársreikningur 2020 er borin undir atkvæði og samþykktur samhljóða með 9 atkvæðum.

Kjartan Björnsson, D-lista leggur fram eftirfarandi bókun f.h. bæjarfulltrúa D-lista:
Bæjarfulltrúar D-lista þakka starfsfólki Sveitarfélagsins Árborgar fyrir vel unnin störf á árinu 2020 við krefjandi aðstæður í miðjum heimsfaraldri.
Þrátt fyrir breytt atvinnuástand vegna heimsfaraldurs hafa tekjur sveitarfélagsins aukist frá árinu 2019 um 638 millj.kr. Það er því dapurlegt að upplifa þá stöðu að Sveitarfélagið Árborg sé rekið með 949,4 millj.kr. tapi árið 2020, sem gerir 2,6 millj.kr. tap á dag.
Útskýringar bæjarstjóra þar sem COVID-19 faraldrinum er kennt um bága stöðu standast ekki, en eru til þess fallnar að rugla íbúa. Ársreikningurinn endurspeglar þann alvarleika sem bæjarfulltrúar D-lista hafa bent á, sem felst í því að aðhalds er ekki gætt í rekstri og að um verulega offjárfestingu er að ræða, þar sem forgangsröðun er ekki í samræmi við skyldur sveitarfélagsins. Aukast því skuldir umtalsvert á sama tíma og hægt og illa gengur að byggja nauðsynlega innviði fyrir lögbundna starfsemi.
Árið 2018 voru skuldir sveitarfélagsins 11.843 millj.kr., en 2020 voru skuldirnar orðnar 15.137 millj.kr. Líklega telst það vera Íslandsmet í skuldsetningu á einungis tveimur árum sem núverandi meirihluti hefur verið við stjórn. Skuldaviðmið sveitarfélagsins fer því hækkandi, þrátt fyrir að breytingar hafi verið gerðar á útreikningi þess og að skuldir Leigubústaða Árborgar teljist ekki lengur með í útreikningum.
Frá árinu 2018 þegar núverandi meirihluti tók við stjórn sveitarfélagsins hafa tekjur A-hluta bæjarsjóðs hækkað um 1.667 millj.kr., en gjöld hækkað um 2.361 millj.kr. Tekjur dugðu ekki fyrir rekstri á árinu 2020 og versnaði afkoma sveitarfélagsins um 900 millj.kr. frá árinu 2018. Yfirlýst markmið nýs meirihluta var að „stoppa lekann“, meintan útgjaldaleka úr bæjarsjóði. Ljóst er að lekabyttan lekur all hressilega.
Sveitarfélagið getur ekki talist rekstrarhæft þar sem það þarf að taka lán fyrir rekstrinum. Sú staða er afar dapurleg þó ekki meiri sé sagt, en þrátt fyrir það fagnar bæjarstjóri því í greinargerð sinni að sveitarfélagið sé á leið í skuldabréfaútboð, sem verulegar líkur eru á að skili hærri vöxtum en Lánasjóður sveitarfélaga getur boðið þeim sveitarfélögum sem uppfylla skilyrði til að vera þar í viðskiptum. Staðan er alvarleg og er ekki útlit fyrir að hún batni á yfirstandandi ári.

Bæjarfulltrúar D lista

Bæjarfulltrúar D-listans

Hlé var gert á fundi kl. 18:12.
Fundi fram haldið kl. 18:18

Eggert Valur Guðmundsson, S-lista leggur fram eftirfarandi bókun f.h. bæjarfulltrúa meirihlutans:

Árið 2020 skók heiminn og hann skelfur enn. Ríkisstjórnir og stórfyrirtæki um allan heim hafa þurft að standa í lappirnar andspænis erfiðum og gjörbreyttum aðstæðum. Hið sama gildir um sveitarfélög á Íslandi, sem fengu það hlutverk að verja sína íbúa og sitt starfsfólk gegn heimsfaraldri og hugsanlegum efnahagsþrengingum.

Meirihluti bæjarstjórnar Árborgar er stoltur af að hafa fengið það hlutverk að leiða viðbrögð sveitarfélagsins á þessum erfiðu tímum, þegar æðruleysi gagnvart aðstæðum er eina leiðin sem í boði er. Á sama tíma hefur meirihlutinn áfram leitt sveitarfélagið í gegnum gríðarlega íbúafjölgun síðustu ára og haft forgöngu um það breytingarferli sem þetta hefur kallað á í starfsemi og þjónustu sveitarfélagsins.

Það er gæfa okkar að starfsfólk sveitarfélagsins hefur sýnt æðruleysi og unnið af röggsemi til að bregðast við síbreytilegum veruleika. Starfsfólk hefur haldið úti eins mikilli þjónustu og mögulegt hefur verið, oft við mikla óvissu um eigið öryggi. Það er á engan hallað þó framlínustarfsfólk okkar í leikskólum Árborgar sé nefnt sérstaklega. Leikskólastarfsfólk á í mjög nánum samskiptum við sína þjónustuþega, yfirleitt án mikilla varna, og hefur haldið úti kraftmiklu starfi í gegnum brimskafla heimsfaraldurs. Af þessum sökum hefur flest starfsfólk leikskóla búið meira og minna við þrúgandi óvissu undanfarið ár ? og slík óvissa reynir á.

Markmið meirihlutans í viðbrögðum við Covid-19 heimsfaraldrinum hefur allan tímann verið að styðja við og styrkja efnahag, samfélag og þjónustu í sveitarfélaginu. Þetta er sama leið og ríkisstjórnir Íslands og margra annarra þjóða hafa farið. Sveitarfélagið hefur axlað byrðar með ríkinu og má þar benda á gríðarlegan niðurskurð Jöfnunarsjóðsframlaga. Sveitarfélagið hefur einnig tekið á sig tekjulækkun og mikinn kostnaðarauka vegna sérstakra eigin aðgerða og utanaðkomandi aðstæðna. Óhætt er að segja að Sveitarfélagið Árborg hafi tekist á við félagsþjónustuverkefni Covid-19 af sérstökum krafti og m.a. starfað mjög náið með ráðuneytum að úrbótaverkefnum, slíkt gerist ekki nema fyrir einbeittan vilja.

Heimsfaraldur Covid-19 hefur af framangreindu leitt til hallaaukningar í ársreikningi upp á hartnær hálfan milljarð. Fjármagnsliðir hækka því til viðbótar verulega, vegna aukinnar verðbólgu og 10% árshækkunar launa, svo nemur 400 milljónum. Önnur sveitarfélög glímdu við sama verkefni og sést það víða með skýrum hætti í ársreikningum þeirra.

Halli á samstæðureikningi Sveitarfélagsins Árborgar árið 2020 er alls 578 milljónir króna. Hægt er að rekja að lágmarki 460 m.kr. til heimsfaraldurs Covid-19 og 200 m.kr. til óvenjulegrar hækkunar í fjármagnsliðum. Án ofangreindra áfalla hefði orðið afgangur af rekstri samstæðu Svf. Árborgar upp á nærri 100 milljónir króna. Það er því án eftirsjár sem meirihluti bæjarstjórnar leggur fram þennan ársreikning 2020, mitt í fjölgun og uppbyggingarferli á innviðum og fjölskylduþjónustu sem ekki á sér samjöfnuð. Við höfum á árinu 2020 gert það sem þurfti að gera, með hagsæld sveitarfélagsins og íbúa þess að leiðarljósi.