Ljósleiðaravæðing í þéttbýli Árborgar
Síðast tekið fyrir á fundi fyrir 3 árum síðan.
Bæjarráð nr. 111
15. apríl, 2021
Annað
Fyrirspurn
Samkvæmt síðustu svörum Gagnaveitunnar lá fyrir að forhanna lagningu ljósleiðara í þéttbýli Stokkseyrar og Eyrarbakka í byrjun árs 2021. Það er nauðsynlegt til að greina hver heildarfjárfesting verkefnisins gæti verið. Gagnaveitan mun svo ræða við Mílu um hugsanlegt samstarf um verkið. Þegar þetta tvennt liggur fyrir er hægt að meta arðbærni verkefnisins en það er grunnforsenda fyrir öllum verkefnum sem GR fer í. Þegar þetta liggur allt fyrir ætti að vera hægt að tímasetja verkefnið og kanna hvað mögulega vantar uppá til ljúka því.
Bæjarstjóri bíður nú svara um framhaldið frá Gagnaveitunni, en þau svör ættu að liggja fyrir nú í apríl.
Svar

Bæjarráð harmar stöðu ljósleiðaramála á Stokkseyri og Eyrarbakka, þar sem búa um 1.200 íbúar. Staðan er orðin íbúum verulegt fótakefli nú þegar mikilvægi öflugra tenginga verður sífellt meira. Öflug nettenging er í dag orðin grunnforsenda þess að hægt sé að stunda fjarvinnu með góðu móti. Sveitarfélagið hefur verið með aðkomu að verkefninu Störf án staðsetningar, sem unnið er á grunni byggðaáætlunar, og er öflug nettenging lykilatriði í að það verkefni skili sem mestum árangri.
Bæjarráð hvetur fjarskiptafyrirtækin Gagnaveituna og Mílu til að taka verkefnið föstum tökum. Þessi fyrirtæki hafa lýst yfir vilja sínum til að takast sameiginlega á við verkefni ljósleiðaravæðingar.
Bæjarráð minnir í þessu sambandi á viljayfirlýsingu milli Svf. Árborgar og Gagnaveitunnar frá árinu 2018 þar sem lýst er þeirri fyrirætlun að ljúka ljósleiðaratengingum á Eyrarbakka og Stokkseyri á árinu 2021.
Bæjarráð Árborgar hvetur einnig ráðherra samgöngu- og sveitarstjórnamála til þess að tryggja að ljósleiðaravæðing í þéttbýli um allt land verði forgangsmál. Víða um land virðast fjarskiptafyrirtæki draga lappirnar vegna efasemda um markaðsforsendur en það hlýtur að vera sjálfsögð krafa að Fjarskiptasjóður ræki það hlutverk sitt að úthluta fjármagni til verkefna sem miða að uppbyggingu stofnkerfa fjarskipta ef ætla má að fjarskiptafyrirtæki muni ekki ráðast í þau verkefni á markaðsforsendum.