Tilboð um leigu á bílastæðahúsi við Eyraveg
Síðast tekið fyrir á fundi fyrir 2 árum síðan.
Bæjarstjórn nr. 37
9. júní, 2021
Annað
Fyrirspurn
Tillaga frá 114. fundi bæjarráðs, frá 20. maí, liður 12. Tilboð um leigu á bílastæðahúsi við Eyraveg. Beiðni frá bæjarfulltrúa D-lista um að taka á dagskrá tilboð frá Sigtúni þróunarfélagi um leigu eða kauprétt á bílastæðahúsi við Eyraveg. Áður á dagskrá bæjarráðs 18. mars sl.
Formaður bæjarráðs lagði til að frestað yrði að taka afstöðu til málsins í ljósi þess að skýrsla VSÓ um greiningu á bílastæðaþörf í miðbæ Selfoss barst ekki fyrr en stuttu fyrir fund. Þar af leiðandi hafði bæjarfulltrúum ekki gefist kostur á að kynna sér efni hennar. Tillögu formanns var felld með 2 atkvæðum gegn 1.
Gunnar Egilsson, D-lista, lagði til að tilboð Sigtúns um leigu eða kauprétt að bílastæðahúsi yrði samþykkt og tilsvarandi viðauki lagður fyrir bæjarstjórn.
Tillaga Gunnars Egilssonar var samþykkt með tveimur atkvæðum gegn atkvæði Eggerts V. Guðmundssonar, S-lista.
Svar


Gunnar Egilsson, D-lista, Eggert Valur Guðmundsson, S-lista taka til máls.
Varaforseti Arna Ír Gunnarsdóttir tekur við stjórn fundarins.
Helgi S. Haraldsson, B-lista, Sigurjón V. Guðmundsson, Á-lista, Tómas Ellert Tómasson, M-lista, Ari B. Thorarensen, D-lista og Kjartan Björnsson, D-lista taka til máls.
Forseti bæjarstjórnar tekur við stjórn fundarins.
Arna Ír Gunnarsdóttir, S-lista tekur til máls.

Hlé gert á fundi kl. 18.46
Fundi fram haldið kl. 18.50

Tillagan er borin undir atkvæði og felld á jöfnu. 4 bæjarfulltrúar D-lista greiddu atkvæði með tillögunni og 4 bæjarfulltrúar meirihlutans greiddu atkvæði á móti tillögunni. Tómas Ellert Tómasson, M-lista situr hjá undir afgreiðslu málsins.

Tómas Ellert Tómasson, M-lista leggur fram eftirfarandi bókun:

Ég ákvað að setja mér það sem markmið og stefnu í upphafi þessa kjörtímabils að vinna að heill sveitarfélagsins óháð persónum og leikendum og taka afstöðu í málum byggðu á hlutlægu mati frekar en huglægu, þar sem því væri komið við.

Það hefur verið stefna Selfyssinga síðan löngu fyrir sameiningu sveitarfélagana Selfosskaupstaðar, Sandvíkur-, Eyrarbakka- og Stokkseyrhrepps í Svf. Árborg að Selfoss yrði miðstöð þjónustu og verslunar á Suðurlandi, því hef ég sem uppalinn Selfyssingur ekki gleymt.

Nokkuð ljóst er orðið, að Selfoss er sá byggðarkjarni á landinu sem mest ásókn er í að búa á og að hér hefur íbúafjölgun ætíð verið langt umfram landsmeðaltöl. Nú þegar loksins hyllir undir að stórhuga draumur sveitarstjórnarmanna á Selfossi á sínum tíma verði að veruleika, með lúkningu gerðar Menningarsalar Suðurlands á Selfossi á næstu misserum og að íbúar bæjarins munu brátt verða tvöfalt fleiri en þeir eru í dag, tel ég því rétt að staldra aðeins við og líta til umferðar og samgöngumála bæjarkjarnans Selfoss, fá þá umræðu sem málefnið á skilið af stað og setja strax af stað vinnu til lausnar á því, jafnframt því að halda uppi öflugum þrýstingi á stjórnvöld um að ráðast í byggingu nýrrar Selfossbrúar yfir Ölfusá án tafar.

Ég hef í þessu máli farið ítarlega í gegnum þær reikniaðferðir sem að viðurkenndar eru í reglugerðum, öðrum sveitarfélögum og í öðrum löndum. Mín niðurstaða er sú eftir þá vinnu, að umtalsverð vöntun er á bílastæðum á miðsvæði Selfoss og mun fleiri en þau fimmtíu sem VSÓ telur vanta í sinni greiningu. Þess skal einnig getið í því samhengi að VSÓ telur vanta allt að þrettán hundruð hjólreiðastæði á miðsvæðið.

Upp kom ágreiningur í bæjarráði þann 20. maí síðastliðinn um hvort taka ætti tilboð Sigtúns þróunarfélags, um leigu eða kaup á bílastæðahúsi við Eyraveg á Selfossi, á dagskrá fundarins og fá afgreiðslu þar. Ég var hlynntur því að málið yrði tekið á dagskrá og útskýrði afstöðu mína með eftirfarandi bókun:

„Undirritaður hefur miklar áhyggjur af aukinni bílastæðaþörf og þeim bílastæðavanda sem er í uppsiglingu á Selfossi með tilkomu þeirrar auknu starfsemi sem fyrirhuguð er eða er komin af stað í og við miðbæ Selfoss. Það er mitt mat eftir mikla yfirlegu að sú starfsemi muni auka mjög aðsókn íbúa og gesta á miðbæjarsvæðið. Fyrir utan nýjan miðbæ að þá er sveitarfélagið í samstarfi við ríkið að fullgera menningarsalinn sem mun taka um 350 manns í sæti og því nauðsynlegt að bæta við bílastæðum eingöngu vegna þess verkefnis. Nú hefur sveitarfélaginu boðist að leigja eða kaupa bílastæði af einkaaðila sem mun mæta þeirri þörf að hluta. Það er mín skoðun að ekki sé hægt að hafna þessu tilboði í ljósi framangreinds.“

Þarna var eingöngu um tilboð að ræða, sem nánar yrði útfært í samningi aðila. Þarna var ekki á ferðinni fullunninn leigu-, eða kaupsamningur sem þarfnaðist staðfestingar bæjarráðs og eða bæjarstjórnar.

Nú liggur fyrir fundinum minnisblað frá lögfræðideild sveitarfélagsins. Í niðurstöðuhluta þess er efast um að sú leið sem lagt er upp með í tilboðinu sé fær nema að fara á svig við lög og innkaupareglur sveitarfélagsins.

Í ljósi þess að ég hef haft það fyrir sið að byggja ákvarðanir mínar á hlutlægu mati hvarvetna í mínum störfum sem bæjarfulltrúi, þar sem því verður við komið, byggi ég ákvörðun mína nú einfaldlega á því að ekki er að fullu uppfyllt öll þau skilyrði sem ég hef sjálfur sett mér í mínum störfum sem bæjarfulltrúi um að byggja ákvarðanir mínar á bjargi fremur en sandi. Ég get því ekki litið framhjá því sem kemur fram í niðurstöðuhluta fyrirliggjandi lögfræðiálits, „..um að mjög miklar líkur væru á því að sveitarfélagið teldist með töku framkomins tilboðs vera fara á svig við lög og innkaupareglur sveitarfélagsins“, og sit því hjá við afgreiðslu málsins.
Tómas Ellert Tómasson, M-lista

Eggert Valur Guðmundsson, S-lista leggur fram eftirfarandi bókun f.h. þeirra bæjarfulltrúa meirihlutans sem greiddu atkvæði á móti tillögunni:

Erindi frá Sigtúni þróunarfélagi, varðandi aðkomu sveitarfélagsins að kaupum eða leigu á bílastæðahúsi í miðbæ Selfoss, hefur verið ítarlega skoðað hjá meirihluta bæjarstjórnar.

Í deiliskipulagstillögu framkvæmdaaðila miðbæjarins, sem íbúar í Árborg samþykktu í ágúst 2018, var gert ráð ákveðnum bílastæðafjölda sem ætlað væri að svara þörfum á svæðinu, ekki var neitt rætt um sérstaka aðkomu sveitarfélagsins að þeim á þeim tíma. Með skipulagsbreytingu á framkvæmdasvæði miðbæjarins sem gefin var út 13. janúar 2021 hefur byggingamagn í vesturhlutanum, þ.e. miðbænum, verið aukið um 30% og fjöldi bílastæða aukinn um 23%, ekki var heldur rætt um sérstaka aðkomu sveitarfélagsins að þeim bílastæðum þegar beiðni um skipulagsbreytinguna var lögð fram. Óskir um einhverskonar aðkomu sveitarfélagsins Árborgar, bárust formlega frá framkvæmdaaðilum í febrúar sl.

Eftir ítarlega skoðun undirritaðra bæjarfulltrúa á sl. vikum, þá teljum við ekki forsvaranlegt hjá sveitarfélaginu að taka þátt í svona verkefni með fjárkröfu uppá 350-400 milljónir. Bæjarráð óskaði eftir úttekt verkfræðistofu á bílastæðaþörf sveitarfélagsins á miðsvæði Selfoss og mun sú niðurstaða verða kynnt á næsta fundi bæjarráðs. Ef þörf er á fjölgun bílastæða er eðlilegt að sveitafélagið setji í gang skoðun á því hvernig það verði leyst, til frambúðar.

Efasemdir hafa verið uppi um að sveitarfélaginu sé heimilt að ráðast í svo stóra framkvæmd, eins og umrætt bílastæðahús, án undangengins útboðs. Þessum vafa var strax í febrúar lýst, fyrir framkvæmdaaðilum miðbæjarins. Nú liggur fyrir álit lögmanns Árborgar um að samningsgerð Árborgar um ófullgert bílastæðahús að andvirði um 350 -400 m.kr. yrði ólögmæt nema að undangengnu útboði. Væri bílastæðahúsið hins vegar fullbúið þá gæti Árborg gert samning um kaup eða leigu á húsnæðinu, ef aðrar forsendur leyfðu, svo er hins vegar ekki.

Undirritaðir fulltrúar meirihluta bæjarstjórnar Svf. Árborgar geta því með engu móti stutt tilboð um samning vegna bílastæðahúss miðbæjarins.

Eggert Valur Guðmundsson S-lista

Arna Ír Gunnarsdóttir S-lista

Sigurjón Vídalín Guðmundsson Á-lista.

Helgi Sigurður Haraldsson B-lista.


Gunnar Egilsson, D-lista leggur fram eftirfarandi bókun f.h. bæjarfulltrúa D-lista:

Hvers vegna að gera samning um bílastæðahús?

Það er mikil þörf á bílastæðum miðsvæðis á Selfossi og þetta leysir að hluta til þann vanda. Þörfin snýr m.a. að starfsemi ráðhúss Árborgar, fyrirhugaðri starfsemi í menningarsal og fleiri atriðum sem varða sveitarfélagið beint.

Erindi hefur legið fyrir frá Sigtúni þróunarfélagi um samstarf ef byggt yrði tveggja hæða bílastæðahús í stað einnar hæðar. Við viljum að tekin sé afstaða til erinda sem sveitarfélaginu berast.

Við teljum hagkvæmara að leigja húsið fyrst um sinn, en vegna kaupréttar væri hægt að kaupa það seinna meir.

Verkefnið snýst um að leigja 229 stæði á ca 41,5 millj.kr. á ári

Sveitarfélagið getur stofnað bílastæðasjóð sem myndi sjá um reksturs hússins.

Tekjur bílastæðasjóðs myndu standa undir kostnaði við leigu og annan rekstur.

Heildarleigutekjur á ári miðað við 40% nýtingu væru um 51 millj.kr, en um 63 millj.kr. miðað við 50% nýtingu og 95,5 millj.kr. miðað við 75% nýtingu.

Tækifærið til að byggja 2ja hæða bílastæðahús í stað einnar hæðar býðst núna, ekki síðar. Ekki er hægt að skorast undan því að taka ákvörðun um að leysa þessi bílastæði til langframa. Andúð einstaka bæjarfulltrúa meirihlutans á miðbæjarverkefninu má ekki verða til þess að þetta tækifæri gangi sveitarfélaginu úr greipum.

Bæjarfultrúar D listans

Gunnar Egilsson

Brynhildur Jónsdóttir

Kjartan Björnsson

Ari Björn Thorarensen