Tilboð um leigu á bílastæðahúsi við Eyraveg
Síðast tekið fyrir á fundi fyrir 2 árum síðan.
Bæjarráð nr. 114
20. maí, 2021
Annað
Fyrirspurn
Beiðni frá bæjarfulltrúa D-lista um að taka á dagskrá tilboð frá Sigtúni þrónunarfélagi um leigu eða kauprétt á bílastæðahúsi við Eyraveg. Áður á dagskrá bæjarráðs 18. mars sl.
Svar

Formaður bæjarráðs leggur til að frestað verði að taka afstöðu til málsins í ljósi þess að skýrsla VSÓ um greiningu á bílastæðaþörf í miðbæ Selfoss barst ekki fyrr en stuttu fyrir fund. Þar af leiðandi hefur bæjarfulltrúum ekki gefist kostur á að kynna sér efni hennar.
Tillögu formanns var felld með 2 atkvæðum gegn 1.

Gunnar Egilsson, D-lista, leggur til að tilboð Sigtúns um leigu eða kauprétt að bílastæðahúsi verði samþykkt og tilsvarandi viðauki lagður fyrir bæjarstjórn.

Tillaga Gunnars Egilssonar samþykkt með tveimur atkvæðum gegn atkvæði Eggerts V. Guðmundssonar, S-lista.

Eggert Valur Guðmundsson, S-lista, lagði fram eftirfarandi bókun:
Undirritaður furðar sig á því að bæjarfulltrúar D og M lista séu tilbúnir til að skuldbinda sveitarfélagið um hundruðir milljóna á sama tíma og oddviti D-listans og félagar hans hafa lýst yfir þungum áhyggjum, í fjölmiðlum, af fjárhagslegri stöðu sveitarfélagsins, rekstrarniðurstöðu sem er tilkomin vegna uppbyggingar grunninnviða og kostnaðar vegna aukinnar þjónustu við þann fjölda fólks sem flutt hefur búferlum til sveitarfélagsins. Þátttaka í verkefninu sem hér um ræðir snýr hvorki að uppbyggingu innviða né styrkingu á þjónustu sveitarfélagsins. Auk þess er fjárfestingin hvorki á áætlun þessa né næsta árs, né 3ja ára fjárfestingaráætlun sveitarfélagsins.

Tómas Ellert Tómasson, M-lista, lagði fram eftirfarandi bókun:

Undirritaður hefur miklar áhyggjur af aukinni bílastæðaþörf og þeim bílastæðavanda sem er í uppsiglingu á Selfossi með tilkomu þeirrar auknu starfsemi sem fyrirhuguð er eða er komin af stað í og við miðbæ Selfoss. Það er mitt mat eftir mikla yfirlegu að sú starfsemi muni auka mjög aðsókn íbúa og gesta á miðbæjarsvæðið. Fyrir utan nýjan miðbæ að þá er sveitarfélagið í samstarfi við ríkið að fullgera menningarsalinn sem mun taka um 350 manns í sæti og því nauðsynlegt að bæta við bílastæðum eingöngu vegna þess verkefnis. Nú hefur sveitarfélaginu boðist að leigja eða kaupa bílastæði af einkaaðila sem mun mæta þeirri þörf að hluta. Það er mín skoðun að ekki sé hægt að hafna þessu tilboði í ljósi framangreinds.