Fjárhagsáætlun 2021-2024
Síðast tekið fyrir á fundi fyrir 3 árum síðan.
Bæjarstjórn nr. 29
30. nóvember, 2020
Annað
Fyrirspurn
Fyrri umræða.
Svar

Gísli H. Halldórsson bæjarstjóri tók til máls og fylgdi úr hlaði greinargerð með fjárhagsáætlun 2021-2023.
Ari B. Thorarensen, D-lista, Gunnar Egilsson, D-lista, Tómas Ellert Tómasson, M-lista, Arna Ír Gunnarsdóttir, S-lista, Kjartan Björnsson, D-lista, Sigurjón V. Guðmundsson, Á-lista, Eggert Valur Guðmundsson, S-lista og Gísli H. Halldórsson, bæjarstjóri tóku til máls.

Lagt er til að fjárhagsáætlun fyrir 2021 og 3ja ára áætlun verði vísað til síðari umræðu 16. desember. Er það samþykkt samhljóða með 9 atkvæðum.

Brynhildur Jónsdóttir, D-lista leggur fram eftirfarandi bókun f.h. bæjarfulltrúa D-lista:
Bæjarfulltrúar D-lista telja með öllu óásættanlegt að leggja fram fjárhagsáætlun með viðlíka halla og gert er ráð fyrir í fjárhagsáætlun Sveitarfélagsins Árborgar að þessu sinni, eða um 1,1 milljarð króna halla á A-hluta og 842 milljóna króna halla á A- og B-hluta. Sú alvarlega staða sem blasir við í fjárhag sveitarfélagsins sé horft til stöðu á rekstri þess árið 2020 og fyrirliggjandi áætlunar staðfestir það að anað hefur verið áfram án nokkurrar fyrirhyggju eða stýringar. Það hefur orðið lenska hjá meirihlutanum að fjölga stöðugildum millistjórnenda og sérfræðinga án nokkurra takmarkana og fjárfestingafylleríið er nú að koma niður á bæjarsjóði. Óraunhæfar áætlanir um tekjur á árinu 2020 munu ekki ganga eftir, en þessar áætlanir kyntu undir eyðslu langt um efni fram og áfram er haldið með óraunhæfa áætlun um tekjur af lóðaúthlutun á næsta ári. Útlit er fyrir að halli á rekstri sveitarfélagsins á þessu ári verði um 1,2 milljarður króna. Það merkir 100milljónir á mánuði allt þetta ár. Áætlað er að taka lán fyrir tæpa 5,8 milljarða á næsta ári á móti 4,3 milljarða fjárfestingu, hvort tveggja er langt umfram það sem bæjarsjóður þolir. Þetta stjórnleysi er meginástæða þess að þegar hægir á vexti tekna þá hittir það Sveitarfélagið Árborg fyrir með mun alvarlegri hætti en önnur sveitarfélög. Skuldahlutfall fer langt umfram leyfileg mörk og jafnvægisregla er þverbrotin. Bæjarfulltrúar D-lista vænta þess að róttækar breytingar verði gerðar á áætluninni á milli fyrri og seinni umræðu, enda stefnir í það með sama áframhaldi að sveitarfélagið verði ekki gjaldhæft innan mjög skamms tíma.

Bæjarfulltrúar D-listans.