Fjárhagsáætlun 2021-2024
Síðast tekið fyrir á fundi fyrir 3 árum síðan.
Bæjarstjórn nr. 30
16. desember, 2020
Annað
Fyrirspurn
Síðari umræða.
Svar

Gísli Halldór Halldórsson, bæjarstjóri, tekur til máls og kynnir breytingar á fjárhagsáætlun og 3ja ára áætlun milli umræðna.

Brynhildur Jónsdóttir, D-lista, Gísli H. Halldórsson, bæjarstjóri, Gunnar Egilsson, D-lista, Kjartan Björnsson, D-lista, Tómas Ellert Tómasson, M-lista, Sigurjón V. Guðmundsson, Á-lista, Arna ír Gunnarsdóttir, S-lista, Ari B. Thorarensen, D-lista og Eggert Valur Guðmundsson, S-lista taka til máls.

Fjárhagsáætlun 2021 og 3ja ára áætlun eru bornar undir atkvæði og samþykktar með 5 atkvæðum gegn 4 atkvæðum bæjarfulltrúa D-lista.

Kjartan Björnsson, D-lista gerir grein fyrir atkvæði sínu og leggur fram eftirfarandi bókun:
Það er erfitt að greiða atkvæði með eða á móti fjárhagsáætlun þegar margt sem horfir til framfara og er nauðsynlegt að setja fjármuni í er inni í áætluninni fyrir næsta ár. En þar sem lokaafgreiðsla áætlunarinnar er afgreidd með viðlíka halla þannig að ekkert slíkt hefur áður sést er þó ekki boðlegt. Menningarsalur Suðurlands fær þó brautargengi í fjárhagsáætluninni og lýsi ég yfir sérstakri ánægju með fjármuni Sveitarfélags og ríkis í löngu tímabæran Menningarsalinn.Fjárfestingarliðurinn er of stór miðað við fjárhagsstöðuna hjá sveitarfélaginu að mínu mati í heild sinni og því get ég ekki greitt atkvæði með fjárhagsáætluninni.

Brynhildur Jónsdóttir, D-lista gerir grein fyrir atkvæði sínu og leggur fram f.h. bæjarfulltrúa D-lista eftirfarandi bókun:
Bæjarfulltrúar D-lista greiða atkvæði gegn fjárhagsáætlun. Algerlega ábyrgðarlaust er að skila áætlun fyrir næsta ár með nærri hálfs milljarðs halla á rekstri. Ekki hefur verið unnið að hagræðingu eins og þurft hefði að gera og bent var á við fyrri umræðu um fjárhagsáætlun. Fjárfestingaráætlun upp á rúma fjóra milljarða er líka með öllu óraunhæf miðað við skuldasöfnun meirihlutans. Enn á ný eru áætlaðar tekjur af lóðasölu umfram það sem líkur eru á að takist að afla, líkt og á þessu ári og því síðasta.Óábyrgt er að byggja áætlun um fjárfestingar á óraunhæfri áætlun um lóðagjöld. Rekstur sveitarfélagsins er ekki lengur sjálfbær og stefnir í óefni.
Ari Björn Thorarensen bæjarfulltrúi D-lista,
Brynhildur Jónsdóttir bæjarfulltrúi D-lista,
Gunnar Egilsson bæjarfulltrúi D-lista,
Kjartan Björnsson bæjarfulltrúi D-lista.

Eggert Valur Guðmundsson, S-lista gerir grein fyrir atkvæði sínu og leggur fram f.h. bæjarfulltrúa meirihlutans eftirfarandi bókun:
Framlögð fjárhagsáætlun fyrir árin 2021-2024, ber keim af þeirri fjárhagslegu stöðu sem uppi er á Íslandi vegna afleiðinga kórónuveirunnar. Fjárhagsáætlunin ber einnig merki þeirrar miklu uppbyggingar og fólksfjölgunar sem átt hefur sér stað í sveitarfélaginu ásamt spá um áframhaldandi fjölgun íbúa. Milli fyrri og seinni umræðu fjárhagsáætlunar hefur verið farið enn frekar yfir alla rekstrarþætti og skoðað í þaula fjöldi nýrra stöðugilda vegna nýrra skólaeininga ásamt tilfærslum á stöðugildum frá þeim sem fyrir eru í rekstri. Ljóst er að launahækkanir vegna nýrra kjarasamninga á árinu hafa töluverðan kostnaðarauka í för með sér. Væntanlegar skerðingar á framlögum jöfnunarsjóðs munu svo að sjálfsögðu hafa verulega neikvæð áhrif á reksturinn.

Niðurstaða fjárhagsáætlunar ársins 2021 er að hallinn verður um 3,5% hlutfall af tekjum en 8 af 10 stærstu sveitarfélögum landsins skila fjárhagsáætlunum næsta árs með halla að meðaltali upp á um 7% hlutfall af tekjum. Þar sést að erfiður rekstur sveitarfélaga á þessum tímum er ekkert einsdæmi í okkar sveitarfélagi. Sterkar líkur eru á að tekjur vegna útsvars og jöfnunarsjóðsframlags ættu að vera hærri en raunin er í framlagðri fjárhagsáætlun, en þar sem skýrari upplýsingar frá Jöfnunarsjóði og Fjársýslu vegna útsvarsuppgjör hafa ekki borist á þessum tímapunkti verður það skoðað betur. Þegar þessar upplýsingar liggja fyrir gæti það leitt til viðauka og breytinga á tekjum á nýju ári.

Við sem leggjum þessa fjárhagsáætlun fram höfum fulla trú á að með henni sé verið að styrkja sveitarfélagið enn frekar sem góðan kost til búsetu, með góðri þjónustu og frekari uppbyggingu innviða.

Eggert Valur Guðmundsson bæjarfulltrúi S-lista.
Arna Ír Gunnarsdóttir bæjarfulltrúi S-lista.
Sigurjón Vídalín Guðmundsson bæjarfulltrúi Á-lista.
Tómas Ellert Tómasson bæjarfulltrúi M-lista.
Helgi Sigurður Haraldsson bæjarfulltrúi B-lista.