Bygging á nýjum grunnskóla í Björkurstykki - Stekkjaskóli
Síðast tekið fyrir á fundi fyrir 1 ári síðan.
Bæjarráð nr. 121
12. ágúst, 2021
Annað
Fyrirspurn
Beiðni frá bæjarfulltrúa D-lista um upplýsingar um stöðuna á skólamálum varðandi Stekkjarskóla. Bráðabirgðastofurnar, tímasetningar.
Svar

Nú eru komnar á lóð Stekkjaskóla allar stofurnar tíu sem verða munu húsnæði skólans í vetur. Það er skýr afstaða Svf. Árborgar að ekki verði farið að nýta húsnæðið til kennslu fyrr en það er að fullu tilbúið og lokið fyrirhuguðum frágangi á lóð. Þessum frágangi á öllum að vera lokið þann 15. september og er því stefnt að því að kennsla í nýja húsnæðinu hefjist þann 20. september næstkomandi.

Gengið hefur verið frá því í góðu samstarfi við Vallaskóla og frístundaþjónustu að Stekkjaskóli hefur afnot af frístundahúsinu Bifröst við Vallaskóla frá skólasetningu og til 20. september. Stekkjaskóli mun fá Bifröst til afnota frá 16. ágúst.

Starfsfólk Stekkjaskóla hefur unnið í því með bros á vör að aðlaga kennsluna þessar fyrstu vikur að breyttum forsendum. Í vetur verður Stekkjaskóli með afnot af Sundhöll Selfoss á mánudögum og miðvikudögum. Því skipulagi verður haldið á meðan verið er í Bifröst. Nú þegar hafa komið fram hugmyndir um vettvangsferðir, s.s. í dýragarðinn Slakka, fjöruferð, ferð að Úlfljótsvatni og safnaferð til Reykjavíkur. Farið verður í ferðir sem henta hverju aldursstigi fyrir sig.

Undirbúningur hefur því gengið vel og er að heyra sem mikil tilhlökkun ríki yfir að takast á við verkefnið.

Jafnframt er vísað til bréfs fræðslustjóra sem sent var út til forráðamanna í liðinni viku.