Milliuppgjör og fjárhagstölur 2020
Síðast tekið fyrir á fundi fyrir 3 árum síðan.
Bæjarráð nr. 77
4. júní, 2020
Annað
Fyrirspurn
Rekstraryfirlit - 4 mánaða uppgjör.
Svar

Bæjarráð samþykkti eftirfarandi tillögu formanns:

Ljóst er að Covid-19 mun hafa mjög neikvæð áhrif á afkomu sveitarfélaga og er Sveitarfélagið Árborg þar ekki undanskilið, þó útlit sé fyrir að skellurinn verði talsvert minni en í öðrum sveitarfélögum. Kostnaður vegna aðgerða bæjarstjórnar til að bregðast við Covid-19 verður nálægt 100 milljónum króna. Fyrirsjáanlegt tekjutap vegna útsvarstekna verður varla undir 150 milljónum en hugsanlega meira. Auk þess vofir yfir að tekjur vegna framlaga úr Jöfnunarsjóði lækki verulega. Afkoma sveitarfélagsins getur af þessu sökum orðið 200-400 milljónum lakari en fjárhagsáætlun og rekstrarhalli umtalsverður.
Eins og fram kemur í hvatningu til allra sveitarfélaga, sem eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga sendi frá sér þann 14. maí síðastliðinn, er mikilvægt við þessar aðstæður að ástunda virkt eftirlit með fjármálum og fylgjast náið með þróun rekstrarins frá mánuði til mánaðar.
Bæjarráð samþykkir að gert verði sérstakt átak í eftirliti með framvindu fjárhagsáætlunar. Frávik frá áætlun verði metin og orsakir greindar ítarlega. Unnið verði að því með forstöðumönnum að koma í veg fyrir neikvæð frávik frá áætlun og halda öllum útgjöldum í lágmarki. Bæjarstjóra og fjármálastjóra, í samstarfi við hagdeild fjármálasviðs, er falið að gera aðgerðaráætlun um framkvæmd átaksins og leggja fyrir bæjarráð þann 18. júní.
Launakostnaður er ríflega helmingur af rekstrarkostnaði sveitarfélagsins og það er því áríðandi að koma í veg fyrir að álag og annmarkar á starfsumhverfi leiði til veikinda starfsfólks. Skýr viðverustefna og nákvæm fjarvistaskráning eru forsenda þess að bregðast megi tímanlega við, með samtali og nauðsynlegum úrbótum.
Bæjarráð óskar því eftir minnisblaði, frá bæjarstjóra og mannauðsstjóra, um umfang veikinda og fjarvista hjá sveitarfélaginu, ásamt tillögu að aðgerðum sem miða að bættu starfsumhverfi og lækkun veikindakostnaðar.