Ársreikningur 2018
Síðast tekið fyrir á fundi fyrir 4 árum síðan.
Bæjarstjórn nr. 12
15. maí, 2019
Annað
Fyrirspurn
Síðari umræða
Svar

Eggert Valur Guðmundsson, S-lista tók til máls og lagði fram eftirfarandi bókun:
Ný bæjarstjórn tók við á miðju síðasta ári. Ársreikningur Svf. Árborgar 2018 er því að mörgu leyti arfleifð fyrri meirihluta og fjárhagsáætlana hans. Ljóst er að mörg tækifæri eru til að gera betur og í þeirri vinnu verður m.a. horft til þeirrar úttektar sem Haraldur L. Haraldsson vann fyrir sveitarfélagið á liðnum vetri að frumkvæði meirihlutans. Ársreikningur Svf. Árborgar fyrir 2018 telst þó vel viðunandi og má þar sérstaklega benda á veltufé frá rekstri sem er 11,9% af heildartekjum, auk þess sem skuldaviðmið sveitarfélagsins er í ásættanlegu horfi.
Fjölgun íbúa í sveitarfélaginu gerir kröfu um mikla uppbyggingu og fjárfestingar. Það er áríðandi að ná góðum árangri í rekstri og fjármálum til að standa undir öllum þeim fjárfestingum. Aukin áhersla verður framvegis lögð á nákvæmni við gerð fjárhagsáætlana sveitarfélagsins þannig að hægt sé að halda öllum frávikum í lágmarki. Mikil frávik eru frá fjárhagsáætlun árið 2018, þó þau jafnist þokkalega út þegar allt er tekið saman. Áreiðanleg fjárhagsáætlun er ákaflega mikilvægt tæki til að gæta aðhalds í rekstri.
Það er markmið meirihluta bæjarstjórnar að þjónusta sveitarfélagsins við íbúa verði eins og best gerist. Til að svo megi verða þarf að tryggja aukna þjónusta, með hagkvæmari hætti en verið hefur. Einnig þarf að ráðast í allar þær fjárfestingar sem eru undirstaða góðrar þjónustu og eru orðnar löngu tímabærar.


Ársreikningur 2018 var borinn undir atkvæði og samþykktur samhljóða.

Gunnar Egilsson, D-lista, tók til máls og lagði fram eftirfarandi bókun:
Bæjarfulltrúar D-lista hafa áhyggjur af stöðu aðalsjóðs. Þrátt fyrir verulega tekjuaukningu (m.a. útsvar hækkar um 500 milljónir króna) er aðalsjóður rekinn með 50 milljón króna halla.
Einnig er áhyggjuefni að skuldahlutfall hækkar í raun. Tvennt gerir það að verkum að það lítur út fyrir að skuldahlutfall lækki lítið eitt, en það er ekki niðurgreiðsla skulda sem veldur því. Annars vegar lækkar það um 5,6% vegna þess að reikningur Leigubústaða Árborgar er tekinn út úr samstæðu sveitarfélagsins eins og nú er heimilt. Hitt atriðið, sem ekki er minnst á í greinargerð bæjarstjóra með ársreikningnum, er það að reiknireglum skuldaviðmiðs hefur verið breytt og lítur því skuldaviðmið nú út fyrir að vera lægra en það hefði ella verið.
Reksturinn er ekki í jafnvægi og virðist sem tökin á honum hafi slaknað á seinni hluta ársins, en þá voru teknar ýmsar ákvarðanir sem höfðu í för með sér aukinn rekstrarkostnað, umfram upphaflega fjárhagsáætlun. Í greinargerð bæjarstjóra er vísað til mikillar íbúafjölgunar sem fylgi tækifæri og áskoranir. Íbúafjölgun í Árborg er ekki ný af nálinni og vissulega kallar fjölgun íbúa t.d. á fleiri leikskólapláss. Það er þó ekki hægt að tala um aukinn kostnað því samfara, nema brugðist sé við fjölguninni og leikskólaplássum t.d. fjölgað. Þar hefur meirihluta bæjarstjórnar algerlega brugðist bogalistin, en orkunni virðist einkum beint að verkefnum sem sveitarfélagið hefur því miður ekki efni á að ráðast í.