Viðauki við fjárhagsáætlun 2019
Síðast tekið fyrir á fundi fyrir 4 árum síðan.
Bæjarstjórn nr. 16
16. október, 2019
Annað
Fyrirspurn
Viðauki við fjárhagsáætlun 2019 nr. 8
Svar

Brynhildur Jónsdóttir, D-lista, Gunnar Egilsson, D-lista, Ari Björn Thorarensen, D-lista, Gísli H. Halldórsson, bæjarstjóri og Tómas Ellert Tómasson, M-lista tóku til máls.

Tillagan var borin undir atkvæði og samþykkt með 5 atkvæðum, 4 bæjarfulltrúar, D-lista sátu hjá.

Gunnar Egilsson, D-lista gerði grein fyrir atkvæðum minnihlutans með eftirfarandi bókun:
Bæjarfulltrúar D-lista sitja hjá við afgreiðslu viðauka við fjárhagsáætlun. Bæjarfulltrúar D-lista hafa frá upphafi bent á að áætlun meirihlutans um tekjur af lóðasölu, sem settt var inn til að fegra áætlunina, mun aldrei geta staðist. Meirihlutinn virðist vera að átta sig á því, en þó er framsetning á breytingum á fjárfestingum í þeim viðauka sem hér liggur fyrir með slíkum hætti að varla er hægt að sjá hvert meirihlutinn stefnir. Þá eru gerðar athugasemdir við að hætt er við fjölda verkefna sem voru á fjárfestingaáætlun, að því er virðist til að rýma fyrir því eina verkefni sem meirihlutinn virðist hafa áhuga á. Hætt er við gatnaframkvæmdir á Eyrarbakka og Stokkseyri, hætt er við stofnframlög til byggingar þjónustukjarna fyrir fatlaða og leiguíbúða í samstarfi við Bjarg og margt fleira. Fjölnota íþróttahúsið hoppar upp og niður í viðaukum ársins, þannig að engin leið er að skilja á hvaða vegferð meirihlutinn er.

Forseti gerði hlé á fundinum kl. 18:08 að beiðni Eggerts Vals Guðmundssonar bæjarfulltrúa S-lista.

Fundi haldið áfram kl. 18:13

Eggert Valur Guðmundsson, S-lista lagði fram eftirfarandi bókun fyrir hönd meirihluta bæjarstjórnar:

Enn á ný vekur málflutningur og bókanir bæjarfulltrúa D-lista furðu. Í minnisblaði fjármálastjóra sem fylgir með viðaukanum er útskýrt með einföldum hætti hvers vegna gert er ráð fyrir því að áætlaðar tekjur vegna gatnagerðargjalda eru lækkaðar. Í Björkurstykki lækka áætlaðar tekjur vegna þess að framkvæmdum þar seinkaði um nokkra mánuði frá því sem áður var áætlað vegna breytinga á deiliskipulagi sem gerðar voru. Þær breytingar á deiliskipulagi voru til góðs og munu gera Björkurstykkið enn vænlegra og meira aðlaðandi til búsetu.
Lækkun tekna í Björkurstykki um rúmar fimm hundruð milljónir koma til vegna þess að ekki gert ráð fyrir tekjum vegna nýs grunnskóla uppá 300 milljónir og vegna Bjargs um 89 milljónir á árinu þar sem að framkvæmdir við þær byggingar hefjast ekki fyrr en á næsta ári og því er þar um að ræða einfaldlega tilflutning á tekjum í bókhaldi sveitarfélagsins á milli ára þ.e. frá 2019 til 2020. Eftir standa þá um 100 milljónir fyrir lóðasölu sem gert er ráð fyrir að áætluð gatnagerðargjöld lækki um. Lóðir í Björkustykki verða auglýstar lausar til umsóknar á næstu dögum og þá mun koma betur í ljós hverjar tekjurnar verða. Að auki er rangt sem kemur fram í bókun fulltrúa D-lista að hætt hafi verið við fjölmargar framkvæmdir sem voru í fjárfestingaáætlun ársins. Hvað varðar aðra liði í viðaukanum kemur skýrt fram að í mörgum tilfellum er einungis um tilfærslur þegar samþykktra verkefna og fjármuna að ræða á milli málaflokka eða ára.
Fjárhagsáætlun Svf. Árborgar fyrir árið 2019 er bindandi ákvörðun um fjárútlát sveitarfélagsins. Óheimilt er að víkja frá fjárhagsáætlun nema sveitarstjórn hafi áður samþykkt viðauka við áætlunina. Á þetta við um hvers kyns ákvarðanir, samninga eða aðrar fjárhagslegar ráðstafanir sem hafa í för með sér breytingar á tekjum, heildarútgjöldum eða skuldbindingum sveitarfélagsins. Krafan um viðauka nær einnig yfir tilfærslur milli málaflokka í þegar samþykktri fjárhagsáætlun. Í viðauka skal m.a. koma fram hvernig útgjaldaauka eða tekjusamdrætti er mætt.
Sigurjón Vídalín Guðmundsson, Á-lista
Helgi S. Haraldsson, B-lista
Tómas Ellert Tómasson, M-lista
Arna Ír Gunnarsdóttir, S-lista
Eggert Valur Guðmundsson, S-lista