Eftirlit á móttökustað fyrir úrgang í landi Lækjamóta
Síðast tekið fyrir á fundi fyrir 3 árum síðan.
Bæjarstjórn nr. 27
16. september, 2020
Annað
Fyrirspurn
Frá árinu 2008 hafa Sveitarfélagið Árborg og Umhverfisstofnun verið í samskiptum vegna urðunarstaðs í landi Lækjarmóta. Árið 2018 tók sveitarfélagið ákvörðun um láta vinna lokunaráætlun í samræmi við fyrirmæli Umhverfisstofnunar. Frá þeim tíma hefur verið unnið markvisst að því að finna lausn á frágangi á svæðinu. Að mati bæjarlögmanns hefur Sveitarfélagið Árborg skuldbundið sig til að annast og ábyrgjast lokun móttökusvæðis fyrir óvirk jarðefni að Lækjarmótum. Hluti af lokunarferlinu er útgáfa og undirritun ábyrgðaryfirlýsingar til 30 ára sem jafngildir starfsleyfistryggingu þess efnis að sveitarfélagið ábyrgist að staðið verði við þær skyldur sem settar eru fram í lokunarfyrirmælum Umhverfisstofnunar varðandi frágang og vöktun urðunarstaðar í landi Lækjarmóta, sbr. 61. gr. laga um meðhöndlun úrgangs nr. 55/2003.
Lagt er til við bæjarstjórn að samþykkja yfirlýsinguna.
Svar

Gísli H. Halldórsson bæjarstjóri, Gunnar Egilsson, D-lista, Ari B. Thorarensen, D-lista og Eggert Valur Guðmundsson, S-lista tóku til máls.

Gert var fundarhlé kl. 18.13.

Fundi fram haldið kl. 18.33

Tillagan var borin undir atkvæði og samþykkt samhljóða með 9 atkvæðum.

Bæjarstjórn leggur fram eftirfarandi bókun:

Bæjarstjórn setur allan fyrirvara á að fyrirmæltar aðgerðir Umhverfisstofnunar séu viðeigandi enda hefur sveitarfélagið í gegnum tíðina meðhöndlað svæðið sem móttökusvæði fyrir óvirk jarðefni og m.a. farið í aðgerðir til að hreinsa upp rusl sem almenningur hefur losað þarna í óleyfi. Bæjarstjórn áskilur sér rétt til að fá úr því skorið hjá þar til bærum aðilum hvort tilefni sé til þeirra aðgerða sem Umhverfisstofnun mælir fyrir um.

Bæjarfulltrúar Sveitarfélagsins Árborgar