Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi tillögu,
Síðast tekið fyrir á fundi fyrir 3 árum síðan.
Skipulags- og samgönguráð nr. 82
23. september, 2020
Annað
Fyrirspurn
Fulltrúi Flokks fólksins leggur til að kannaðir verði aðrir og mun ódýrari kostir til að liðka fyrir umferð frá Rjúpnavegi og norður á Breiðholtsbraut, svo sem með einfaldari vegartengingu ofar í Vatnsendahvarfi á milli Rjúpnavegar, Tónahvarfs og Breiðholtsbrautar, án mislægra gatnamóta þar. Einnig er lagt til að leyfa akstur slökkvibifreiða á milli Salahverfis í Kópavogi og Seljahverfis í Breiðholti með tengingu úr Jaðarseli neðan Lambasels, en þar er nú fyrirhugað að leyfa umferð strætisvagna. Vinir Vatnsendahvarfs hafa bent á að fjöldi fólks nýtir sér hæðina daglega til göngu og hjólaferða, sem og til að njóta útsýnisins. Vatnsendahvarf (einnig þekkt sem Vatnsendahæð) er gróðursælt útivistarsvæði sem liggur á mörkum Reykjavíkur og Kópavogs. Fyrirhugaður Arnarnesvegur frá Rjúpnavegi að Breiðholtsbraut sem á að vera lagður að árið 2021 mun skera hæðina í tvennt og breyta algjörlega ásýnd og notagildi hæðarinnar til frambúðar. Vegaframkvæmdin byggir á nær 18 ára gömlu umhverfismati. Vegna þess, sem fjölmargir þ.m.t. Vinir Vatnsendahvarfs telja alvarleg skipulagsmistök, er áformað að vegurinn kljúfi vesturhlíð Vatnsendahvarfs og eyðileggja þar með verðmætt útivistarsvæði. Í nyrsta hluta þess eru hinar vinsælu skíðabrekkur upp af Jafnaseli og fyrirhuguð staðsetning fyrir Vetrargarð Reykjavíkur og nágrennis en vegurinn mun koma til með að þrengja verulega að Vetrargarðinum.
Svar

Tillagan er felld.

Bókanir og gagnbókanir
  • Samfylkingin, Viðreisn, Píratar
    Arnarnesvegur er hluti af Samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins og samvinnuverkefni Reykjavíkur, Kópavogs og Vegagerðar. Ekki stendur til að taka einhliða ákvarðanir sem myndu fela í sér brot á umræddum sáttmála.
  • Flokkur fólksins
    Tillaga Flokks fólksins um að kannaðir verði aðrir og mun ódýrari kostir til að liðka fyrir umferð frá Rjúpnavegi og norður á Breiðholtsbraut hefur verið felld. Rökin eru að ekki standi til að taka einhliða ákvarðanir sem myndu fela í sér brot á samgöngusáttmála. Aðrar vænlegri leiðir eru í boði sem ekki munu eyðileggja verðmæt græn svæði. Fulltrúi Flokks fólksins, Breiðhyltingar og Vinir Vatnsendahvarfs eiga rétt á því að fá rök fyrir af hverju skipulagsyfirvöld sem leggja alla áherslu á vernd grænna svæða, bíllausan lífsstíl og minnka losun ætlar að leggja veg sem sker í sundur hæð sem skartar fjölbreyttum gróðri og fallegu útsýni yfir borgina og þar sem auk þess á að koma Vetrargarður með tilheyrandi afþreyingu fyrir breiðan aldurshóp. Hugmynd um huggulegan Vetrargarð er lítils virði ef hraðbraut á að liggja nálægt honum. Aðrar færar leiðir blasa við. Þess í stað kjósa borgaryfirvöld sem kenna sig við grænar áherslu að notast við 18 ára gamalt umhverfismat þegar kemur að þessari framkvæmd, og hvaða fordæmi eru fyrir því í borginni að svona gamalt umhverfismat hafi verið látið standa? Vinir Vatnsendahvarfs hafa bent á að fjöldi fólks nýtir sér hæðina daglega til göngu og hjólaferða, sem og til að njóta útsýnisins.