Tímabundnar göngugötur í miðborginni,
Síðast Samþykkt á fundi fyrir 3 árum síðan.
Skipulags- og samgönguráð nr. 81
9. september, 2020
Samþykkt
Fyrirspurn
Lögð fram tillaga frá umhverfis- og skipulagssviði, Skrifstofu samgöngustjóra og borgarhönnunar, dags. 2. september 2020, um að framlengja tímabundnar göngugötur frá 1. október 2020 til 1. maí 2021 eða þar til deiliskipulag 2. áfanga hefur tekið gildi.
Svar

Samþykkt.Vísað til borgarráðs.

Bókanir og gagnbókanir
  • Samfylkingin, Viðreisn, Píratar
    Undirrituð styðja við fjölgun göngugatna í miðborginni. Kannanir sýna að meirihluti íbúa er jákvæður gagnvart göngugötum og að jákvæðust séu þau sem heimsækja svæði göngugatna að minnsta kosti vikulega. Fulltrúar Pírata, Samfylkingar og Viðreisnar í ráðinu samþykkja því tillöguna um framlengingu tímabundinna göngugatna þar til 1. maí 2021 eða þegar nýtt deiliskipulag fyrir varanlegar göngugötur tekur gildi.
  • Miðflokkur
    Hér er lýst yfir algjörum forsendubresti. Borgarstjóri og meirihlutinn tekur einhliða ákvörðun um lokun Laugavegarins allt árið um kring einungis 21 degi fyrir fyrirhugaða opnun fyrir bílaumferð. Fyrirvarinn er enginn. 30 milljónum var eytt í sérstakt kynningarátak á þessu svæði í sumar og tilgangurinn var að „glæða miðbæinn lífi“. Nú er ljóst að þeim peningum var fleygt þráðbeint út um gluggann en gæluverkefnin þurfa sitt. Nú er verið að samþykkja bráðabirgðaverkferli um að hafa Laugaveginn og þær götur í nágrenni hans sem skilgreindar hafa verið göngugötur lokaðar fyrir bílaumferð til 1. maí 2021 eða þar til nýtt deiliskipulag tekur gildi um varanlega lokun. Þessi ákvörðun kemur eins og þruma úr heiðskíru lofti. Með öðrum orðum – það er búið að skella Laugaveginum í lás til framtíðar án nokkurs samráðs við rekstraraðila sem þó eru að berjast í bökkum að halda uppi þjónustu svo að miðbærinn sé ekki steindauður. Þetta eru ískaldar kveðjur frá meirihlutanum í upphafi hausts, ekki bara til rekstraraðila heldur líka landsmanna allra. Borgarstjóri og meirihlutinn eiga ekki Laugaveginn og nágrenni hans. 
  • Flokkur fólksins
    Það er mat fulltrúa Flokks fólksins að það sé afar óskynsamlegt að framlengja tímabundna göngugötur í borginni. Bærinn er líflaus nú og með því að opna aftur göturnar sem um ræðir eins og ráð var fyrir gert glytti í smá von að fleiri myndu vilja heimsækja hann. Nú er aðeins um Íslendinga að ræða þar sem engir ferðamenn eru en Íslendingar koma ekki í bæinn. COVID og afleiðingar faraldursins hefur vissulega slegið rothöggið en vandinn var orðinn háalvarlegur áður en COVID skall á. Að framlengja tímabundnar göngugötur á því engan veginn við nú og þjónar ekki tilgangi. En fjölgar auðum rýmum og varla er að sjá hræðu á ferðinni. Hvert er markmið skipulagsyfirvalda með steindauðum göngugötum nú þegar vetur gengur í garð með vályndum veðrum? Þetta mun fara endanlega með marga, þá sem sáu fyrir sér þann draum að götur opnist í haust.  Nú er sá draumur úti og þeir munu endanlega loka ef þetta gerist. Næstu mánuði munu margir blæða út.